Þórður Helgason

Góðir hátíðargestir

Ég veit ekki neina haldbæra skýringu þess að ég var vorið 1955 sendur í sveit að Háamúla í Fljótshlíð, rigningarsumarið mikla þegar menn sungu: Þegar saman safnast var / sumarkvöldin fjögur. Þó kemur mér í hug sú skýring að faðir minn var á sínum tíma sendur í sveit og átti ekkert nema góða minningar um þá dvöl og minntist hennar oft. Móðir mín fluttist til Reykjavíkur austan af fjörðum tvítug að aldri en það sannaðist smám saman að hún fór þaðan aðeins í holdinu; andinn er eins og allir vita frjáls og hann fluttist eiginlega aldrei til Reykjavíkur heldur sat sem fastast austur á Stöðvarfirði þar sem hann situr vafalítið enn þótt holdið sé að verða mold.

         Sú skýring leitar samt í hugann að að mér hafi ekki verið sérstök híbýlaprýði og ég hafi því verið sendur austur í Fljótshlíð til að læra góða siði svo að ég yrði ef til vill að betri og nýtari manni. Það var eins og allir vita viðtekin skoðum flestra á þessum árum að lífið í sveitinni væri öllum börnum miklu hollara en það líf sem borgin bauð upp á. Fólksflutningar í þéttbýlið voru skoðaðir sem eins konar syndafall og gjarna rætt um þá sem paradísarmissi enda voru flestir Reykvíkingar á þeim árum með mjög sterk tengsl við dreifbýlið, fæddir þar eða börn aðfluttra.

         Ekki veit ég hvort sú áætlun að gera mig að betri manni tókst hér en hitt veit ég að ég lærði meira í sveitinni en í barnaskólanum mínum í Reykjavík. Og sú staðreynd blasir við mér nú þegar ég læt hugann reika til æskuáranna að ég man aðallega eftir mér í Fljótshlíðinni. Í Reykjavík beið mín skólinn sem ekki reyndist mér mikil afþreying eða uppspretta mikils lærdóms, allra síst gagnlegs, en vissulega þótti mér undurvænt um foreldra mína og systkini og suma kennarana. En lífið var án ævintýra og átaka. Ævintýrin og átökin voru nánast öll tengd Fljótshlíðinni og lífinu þar.

         Níu ára gamall var ég orðinn bóndi. Ég var þrúgaður af áhyggjum ef við blasti að rigning félli á þurrt heyið en gladdist að sama skapi og fylltist stolti þegar hlaðan fylltist af ilmandi heilnæmri töðu. Ég fékk þannig að upplifa að ég væri töluvert mikilsverður einstaklingur í samfélagi þar sem hver hafði hlutverki að gegna. Þegar bóndi einn í sveitinni innti mig eftir fjáreigninni á Háamúla svaraði ég vitaskuld: „Við eigum 120 kindur.“ Viðmælanda mínum fannst greinilega þessi trítill full mannborulegur og benti mér á að líklega ætti ég fáar kindur. Ég tók náttúrlega ekki mark á honum. Ég var um líkt leyti orðinn harður framsóknarmaður en það skal skýrt tekið fram að það var í þá daga annar flokkur en síðar varð. Af meðfæddri kurteisi og af tillitssemi við suma viðstadda lýsi ég því ekki nánar.

         Ég lærði á þessum árum meira um dýrin en kennslubókinni í dýrafræði í skólanum gat upplýst mig um. Dagleg umgengni við húsdýrin skilaði mér þekkingu sem engin bók gat lýst. Ég minnist þess að á hverju einasta prófi í dýrafræði í tíu ára bekk blasti við þetta verkefni: Nefnið fjögur hólf í maga kýrinnar. Þá átti maður að svara: Vömb keppur laki og vinstur. Ekki man ég neinar þær aðstæður í lífinu þar sem sú þekking hefur gagnast mér – en ég vissi allt um kýr sem máli skiptir.

         Ég kynntist fjölda manna og kvenna í sveitinni og ég trúi því að þau kynni hafi skilað mér mikilsverðum lærdómi. Ég get hér einungis drepið á fáa. Mér verður til dæmis oft hugsað til Árna á Barkarstöðum, þess mikla snillings. Þegar hann reið í hlað á Skjóna sínum vissi ég glöggt að nú var von á ævintýri. Árni var nefnilega sögumaður af fágætri guðs náð. Hann þverbraut að vísu öll lögmál um góða framsögn, sökkti sér niður í hægindastól í einum keng, blimskakkaði sínu heila auga á viðstadda og svo brast á saga, svo stórkostleg að allt annað gleymdist. Sögur Árna gátu orðið gríðarlangar þótt söguefnið væri ekki stórbrotið. Saga hans um kött náði til dæmis til kattarins sjálfs, allra formæðra og forfeðra hans og allra eigenda þeirra allra. Slík saga gat tekið heilan dag. Engum heilvita manni kom til hugar að spyrja eftir sannleiksgildi þessara sagna Árna. Allir vissu að það var á reiki. Sögurnar voru nefnilega listaverk og þeirra bar að njóta sem slíkra. Ég heiðraði minningu Árna í einu ljóði í bókinni minni:

ÁRNI

Reið í hlað snemma morguns

gamall maður á gömlum hesti

hafði að yfirvarpi

kirkjugarðsgjaldið.

Allan daginn sagði hann sögur

dagsannar

þann dag allan.

Páll í Árkvörn var mér ekki eins minnisstæður og vinnumaður hans, sá góði og vammlausi maður Hreiðar, nema fyrir það helst að hann tók ótæpilega í vörina. Hann kom gjarna í heimsókn í Háamúla að morgni dags til að fá sér kaffisopa og taka stöðuna. Ég hefði stundum það embættisverk að skola af leirtauinu að loknum morgunverði. Og nú skipti það engum togum að Páll var málstola enda skagaði neðri vörin fram úr andlitinu eins og langur tangi í landslagi. Hann lét því það verða sitt fyrsta verk að stinga vísifingri hægri handar inn í vinstri góm og skafa síðan sem leið lá yfir í hægri góminn og svo slengdi hann þessari líka slummu þráðbeint í vaskinn hjá mér. Þetta þótti mér hin versta forsending og leit undan og þvoði upp blindandi

         En ég var heppinn. Þegar ég var tíu ára gamall barst mér liðsauki sem var Þór Sveinsson, vikapiltur í Árkvörn, sendur í sveit eins og ég. Og svo var Trausti Þórðarson í Eyvindarmúla jafnaldri okkar og við urðum vinir, hittumst stundum og fengum um helgar lánaða hesta sem varla hefðu unnið til verðlauna á sýningum en okkur fannst við menn með mönnum þegar við riðum um sveitina. Líklega hefur engum öðrum fundist það.

         Þór var lífsreyndari en ég og dag nokkurn er hitabylgja reið yfir og vötn hitnuðu fóru nokkri ungir menn ásamt kaupakonu ungri í Árkvörn til sundiðkunar í lóni nokkru sem myndaðist í læk neðan Árkvarnartúnsins. Við Þór afréðum að slást í hópinn, fórum í sundskýlu og röltum niður að lóninu með fötin okkar í poka. Miðja vegu stansaði Þór og lítur á mig og segir: „Doddi, við skulum setja sokkana okkar í sundskýluna; það er flottara.“ Þetta þótti mér skörulega mælt og viturlega og hlýddi strax. Þessa minntist ég í ljóðinu LÓN

Hún var sextán ára

ljóshærða vinnukonan í Árkvörn

við Þórsi tólf.

Þegar hitabylgjan kom

og allir fóru að synda í lóninu

tróðum við Þórsi sokkunum

niður í sundskýluna

best kýldir allra.

Ég er þakklátur forsjóninni og náttúrlega Þór fyrir að hafa ekki sagt: „Doddi, við skulum setja skóna okkar niður í sundskýluna.“

         Múlakot var auðvitað sjálfsagður viðkomustaður á ferðum okkar strákanna. Það er nánast ógleymanlegt hvernig Lára tók á móti okkur, leiddi okkur eins og þjóðhöfðingja inn í hús og trakteraði okkur á appelsíni og öðru góðgæti. Þannig tók hún á móti öllum hefur mér skilist. Áður en við riðum úr hlaði keyptum við okkur Tópas í vesturglugganum og ef menn halda að Tópas sé bara Tópas er það alrangt. Það Tópas, sem þær Lilja eða Fjóla réttu okkur út um vesturgluggann, var bara allt annað og gómsætara en sú vara undir sama nafni sem ég hef síðan bragðað.

         Einn góðan veðurdag lagði ungur bóndasonur leið sína í Múlakot í byrjun júní. Er heim kom mátti hann varla mæla, var meira og minna úti á þekju og lítt hæfur til útiverka, en gekk um í eins konar leiðslu. Og brátt spurðust tíðindin út og ferðum ungra manna í Múlakot fjölgaði. Í kaupfélaginu seldust upp á svipstundu ársbirgðir af brilliantíni, tannkremi, tannburstum og hárgreiðum og mælt er að kaupfélagsstjórinn hafi íhugað að selja Old Spice-rakspíra í mjólkurbrúsum. Ungir menn réttu úr bakinu og lögðu af gangtegundina þúfnagang og fengu nýtt og djarfmannlegt blik í augun, bónuðu gamla Willisa, fengu sér stælföt, settu héraðsmet í stökkum, spretthlaupum og pokahlaupi.

         Öllu þessu ollu tvær kaupakonur sem komu vorið 1959 að Múlakoti, undurfagrar eins og gyðjur, þær Jónína og Ingibjörg. Sumir telja að þetta sumar hafi ís og snjór á Eyjafjallajökli tekið að hörfa og eru fá dæmi slíkarar útgeislunar kvenna að jöklar bráðni.

         Lengra fórum við strákarnir stundum og þá var eins og hulin hönd beindi okkur að Deild. Þar bjuggu þá þau Soffía og Ingi sem ég minnist fyrir einstaka mannkosti. Þar voru veisluföng borin fram fyrir okkur og rætt um landsins gagn og nauðsynjar eins og við værum einhvers vísari um þá hluti en við fundum til okkar þegar komið var þannig fram við okkur. Þar var líka sonur þeirra Þröstur, einstaklega skemmtilegur og hló svo hátt og snjallt að fjöllin beinlínis titruðu. En satt að segja voru það ekki hjónin á Deild eða Þröstur sem drógu okkur eins og járn að segulstáli að Deild. Það var náttúrlega Hrefna, heimasætan á bænum – og gott fólk, hvílík heimasæta! Hrefna var falleg, hláturmild með afbrigðum og svo skemmtileg að af bar. Þó að við værum bara pjakkar var okkur farið að gruna að sumar stúlkur væru álitlegri en aðrar.

         Í Háamúla naut ég góðs atlætis.Þar var mikið unnið og ekki alltaf með nýjustu tækjunum. Á þessum árum lærði ég margt í vinnubrögðum sem hefur gagnast mér vel í lífinu, og ekki bara vinnubrögð heldur töluverða sálfræði sem að notum hefur komið. Ég var níu ára gamall þegar ég var settur undir kú til að mjólka. Ég settist á mjólkurhnallinn, þvoði júgrið og bar júgurfeiti á spenana. Fór síðan að mjólka. Kýrin leit á mig stórum augum, ókyrrðist og sló mig fast með halanum sem reyndist vera svokallaður drulluhali sem er ekki viðurnefni á illa þokkuðum stjónmálamönnum eins og sumir virðast halda heldur hangir hann aftan á kúm, blautur og óhreinn, venjulega með hörðum kleprum á endanum. Ég blindaðist og kýrin notaði tækifærið og sparkaði mjólkurfötunni út í flór. Niðurlæging mín var fullkomin. Sigurþór bóndi kom þá til og sagði mér að ég hefði eiginlega ekki farið rétt að. „Þú skalt sitja nær kúnni og halla vanganum að síðunni á henni svo að hún finni snertingu við þig. Snertingin skiptir máli.“ Ég fór að ráðum bónda. Og viti menn. Kýrin róaðist, leit til mín og teygði síðan sína löngu, hrjúfu tungu að mér og tók þennan óburðuga strák í sátt. Þarna lærði ég regluna um gildi snertingar. Þetta hef ég síðan getað notað á fólk. Við getum afvopnað dýr og menn með snertingu.

         Eins og þið heyrið er ég illa haldinn af fortíðarþrá; ég sakna þess sem var. Samt er ég óumræðlega þakklátur fyrir árin mín þegar ég var liðléttingur í Fljótshlíðinni. Ég sé eins og aðrir að búskap hefur hrakað í sveitinni, jarðir fara í eyði og líklega hefði Gunnar á Hlíðarenda ekki snúið aftur. En það er verið að byggja upp í Múlakoti. Kannski verður þar aftur opnaður vesturgluggi. Þá ætla ég að kaupa Tópas.

Skáldkonan Hulda, Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, hafði auðvitað frétt af brautryðjendastarfi Guðbjargar í Múlakoti og yrkir til hennar ljóðið TIL GUÐBJARGAR Í MÚLAKOTI. Hulda notar þar bragarhátt sem nefndur hefur verið Saffískur háttur eftir höfundi hans, skáldkonunni Sapho sem bjó á eyjunni Lesbos og þar hafði hún fjölda ungra stúlkna í námi. Lesbíur eru síðan kenndar við þessa eyju. Það er gaman til þess að vita að hér yrkir kona til konu undir hætti sem kona fann upp. Á Íslandi er þessi háttur vel þekktur og sunginn við ljóð Jóns Thoroddsen, Barmahlíð (Hlíðin mín fríða) – og þar bætist eitt við sem eftirtektarvert er, þ.e.a.s. Barmahlíð / Fljótshlíð, þær eru báðar fríðar! En hér er ljóðið:

TIL Guðbjargar í Múlakoti

Blómgóða sál, þig blómi jarðar gleðji,

ei bál né hret að Eden þinni steðji.

Þverá frá hlíðum helgur leiði kraftur,

hún komi ei aftur!

Grói á söndum akrar eins og forðum,

ægilegt fljót í gömlum hvíli skorðum.

Í Múlakoti blóm og lundur lifi,

lof um þig skrifi.