Fréttir

Freyjur heimsækja Múlakot

Nú er allt í blóma í Múlakoti, gamla eplatréð í Guðbjargargarði stendur í blóma en Hákon Bjarnason, fyrrum skógræktarstjóri, kom með tréð frá Alaska fyrir 1950. Heggir blómstra, blóðheggurinn er fagurrauður og glæsilegur og nú hefur næsti heggur tekið við með ótrúlega mikilli hvítri blómgun.

En það er ekki bara gróðurinn sem er farinn að blómstra því heimsóknum gesta sem að koma og fá leiðsögn um svæðið hefur fjölgað sem er ánægjulegt. Á Hvítasunnudag kom kvenfélagið Freyja í Austur Landeyjum í heimsókn. Kvenfélagskonurnar skoðuðu garðinn og gamla bæinn og nýttu svo tækifærið og funduðu í gamla matsalnum þar sem þær drukku kaffi sem þær báru sjálfar fram. Freyjur voru afar ánægðar með heimsóknina og þökkum við þeim fyrir komuna og þeirra framlag til Vinafélagsins.

Sumarið er komið í Múlakot

Já, sumarið er komið, það vantar ekkert annað en farfuglana, ekki þá vængjuðu, það er nóg af þeim, ég á við þessa á fjórum hjólum, við söknum gesta í garð og hús.

Það er búið að hreinsa garðinn og blómgun trjáa og runna er komin á fullt. Sjón er sannarlega sögu ríkari

Blóðheggurinn, sem er á svæðinu milli gamla bæjarins og grafreitarins, er alveg ótrúlegur, alþakinn purpuralitum blómum, og bráðum skartar heggurinn við hliðina á honum hvítri blómaslæðu. Nú er aðeins dagaspurning hvenær Alaskaeplið í  Guðbjargargarði opnar sín stóru, hvítu blóm og þannig tekur hvað við af öðru, fjölæru blómin standa á tánum og hjartasteinbrotinn er fyrstur í röðinni með að blómstra.

Sama verður vonandi unnt að segja um hópa í skoðunarferðum, sá fyrsti er  væntanlegur fyrsta júní. Munið bara að hringja á undan (862-5864) og panta leiðsögn í skoðunarferð um hús og garð. Skoðunin kostar 1000 kr per nef og rennur óskipt til endurbyggingar hússins

Góð kveðja frá Múlakoti

Orkuboltar frá Garðyrkjuskólanum heimsækja Múlakot

Hér var aldeilis líf og fjör í gær. 20  nemendur í trjáklippingum  í Garðyrkjuskólanum komu í gær og klipptu tré og runna undir leiðsögn kennara sinna. Þetta er líklega í fjórða skiptið sem gamli garðurinn er notaður sem kennslustofa og allir njóta góðs af.

Þau þurftu svo sannarlega að vinna sér til hita í gjólu, frosti og snjó en daginn áður þegar kennararnir komu til undirbúnings var hreinasta vorveður, sól og blíða. Fyrsta myndin  sýnir að þau voru vel vopnuð, en annars sýna myndirnar meira en nokkurt orð.

Góð kveðja frá Múlaakoti

Þorrinn gengur í garð

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Gleðilegt ár og bestu þakkir fyrir liðin ár.

Meðfylgjandi eru þrjár myndir af „Múlakotsfuglunum“ sem  þurfa allar skýringa við.

Fyrstu tvær myndirnar eru af smiðunum okkar, Sigurði og Sigmundi. Þeir gripu tækifærið á milli jóla og nýjárs, þegar veðrið var þurrt og blítt og settu gluggana í bakhýsið. Þeir voru búnir að  bíða lengi eftir rétta veðrinu og loksins gafst tækifærið.

Því er ekki að neita  að „jólagjöf“ Vinafélagsins til Sjálfseignarstofnunarinnar, 800.000 krónur hressti upp á fjárhaginn og gerði kleyft að setja smiðshöggið á gluggasmíðina.

Þriðja myndin – já þar verðið þið að taka viljann fyrir verkið. Þegar ég var að taka til hádegismatinn, varð mér litið út um gluggann eins og svo oft áður. „Múkkinn er sestur upp“ kallaði ég til eiginmannsins.“Já, er ekki bóndadagurinn á morgun?“ Honum fannst þetta bara sjálfsagður hlutur, við höfum alltaf haldið því fram að fýllinn – eða múkkinn -komi á bóndadaginn, eftir að yfirgefa okkur í svartasta skammdeginu og þetta stenst svo sannarlega núna.

Ef  vel er leitað, sjást 4 fuglar á myndinni, einn er á flugi fyrir miðri mynd er þrír sitja á kletttasyllunni.

Vonandi verður árið 2022 okkur öllum betra en síðasta ár og við komumst út úr þessu leiðinda kófi sem hefur verið að hrella okkur, sem allra fyrst

Góð kveðja frá Múlakoti

Gestir og gestabækur

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Heimildir um gesti í Múlakoti má finna á fjölmörgum stöðum. Í gær var hnippt í mig – hefurðu séð myndina af Sigurði Þórarinssyni, þessa úr Múlakotsgarðinum? Ég kom alveg af fjöllum, en þegar ég komst að því að myndin var frá sumrinu 1930, datt mér gestabókin góða í hug.

Morgunstemning í Múlakoti. Sigurður gluggar í bók – bls. 79 í bókinni Sigurður Þórarinsson; Mynd af manni, höf: Sigrún Helgadóttir

Svo virðist sem gestabækur séu mér sérstakt áhugaefni, að minnsta kosti gestabækur Múlakots, því ég hef nokkrum sinnum vitnað í þær máli mínu til stuðnings. Þó veit ég mæta vel að þær eru alls ófullnægjandi heimildir um gestakomur, staðfesta aðeins að þessi eða hinn hafi komið við,  sýna lágmarksfjölda gesta.

Elsta gestabók sem varðveist hefur frá hótelrekstri í Múlakoti var tekin í notkun  um mitt sumar árið 1926, en mestur var gestafjöldi skráður sumarið 1928, alls 1843 gestir sem skráðu nafn sitt. Þetta er mjög mikill fjöldi einkum með tilliti til þess að það sumar var veitingahúsið í byggingu.

Múlakot 22.6.1930, eign fjölskyldu Sigurðar Þórarinssonar

Gestabókin sem tekin var í notkun í júníbyrjun 1930 sker sig frá öðrum bókum, þar sem þetta er eina löggilta gestabókin sem varðveist hefur,  gegnumdregin og innsigluð.  Fremst í bókinni kemur fram að allir, sem hafa atvinnu af að hýsa gesti, skuli nota svona bók, þar sem sérhver næturgestur skuli skrá nafn, starfsheiti, heimilisfang, síðasta dvalarstað og brottfarardag.

Freistandi er að álykta að umræðan um þúsund ára afmæli alþingis þetta sumar og umræðan um væntanlegan fjölda erlendra gesta hafi haft sín áhrif á formlegheitin, við kynnum að taka á móti gestum.

En það voru ekki eingöngu útlendingar á ferðinni. Nemar úr fimmta bekk Menntaskólans á Akureyri héldu í langferð. Fyrst var farið með skipi til Reykjavíkur en svo akandi um Reykjanes og austur í Fljótshlíð.  Eins tóku nemendur þátt í Alþingishátíðinni á Þingvöllum.

Úr gestabók Múlakots, sumarið 1930

Auðvitað brást gestabók Múlakots ekki trausti mínu. 22. júní  skrifa 13 norðanmenn í gestabókina. Brynjólfur Sveinsson kennari, 9 sem skrá sig stud. art, sem er miklu flottara en menntaskólanemi, 2 sem skrifa stud. mag, þeir Steindór Steindórsson og Sverrir Kristjánsson. 2  konur eru í hópnum, Guðrún Jónsdóttir stud. art. og Þórdís Haraldsdóttir.

Myndir úr bókinni er birt með leyfi höfundar og fjölskyldu

Fundinn fjársjóður

Í gær rölti ég yfir í gamla bæinn í Múlakoti. Það er svo sem varla í frásögur færandi, en þegar ég stóð þarna inni í baðstofunni og horfði í kringum mig, fékk ég allt  í einu hugljómun. Já, þarna og hvergi annarsstaðar á myndin að vera – já bláa myndin.

Mér hættir til að byrja inni í miðri sögu, ef ég þá byrja ekki á endinum,, en nú skal ég reyna að stilla mig.

Við hjónin keyptum jörðina af Reyni, syni Láru og Ólafs Túbals, svona með manni og mús, eins og stundum er sagt, og þurftum því að greina hismið frá kjarnanum.  Margt óvænt kom í ljós, bæði inni í bæ og í útihúsum, en það voru öll málverkin, bæði í málarastofunni og bæjarhúsum, sem komu okkur mest á óvart. Þarna gerðum við okkur grein fyrir að við vorum með fjársjóð í höndunum, skaddaðan fjársjóð að vísu, en ekki væri sama hvernig um hann væri gengið.

Við fengum ráðgjöf hjá sérfræðingum hvernig við ættum að þurrka myndirnar og koma þeim í ramma, því þær þoldu ekkert beint hnjask, og svo kom að því að unnt var að leyfa öðrum að njóta þessa fjársjóðs með okkur.

Sveitarfélagið lagði fram sýningarsalinn og Katrín Óskarsdóttir annaðist skipulagningu og uppsetningu  af sinni alkunnu smekkvísi og 22.október 2006 var boðið til leitar að fundna fjársjóðnum frá Múlakoti. Hátt í 700 manns tóku boðinu.

Nær allar myndirnar hafa orðið fyrir skemmdum, yfirleitt rakaskemmdum, en bláa myndin, olíumálverk, var  alla tíð inni í bæ  upprúlluð svo skemmdir á henni eru annars eðlis. Þetta er eina myndin sem ekki er fullunnin. Konan sem situr á rúmi sínu, hefur að vísu ekki fengið andlit og eftir er að mála rokkinn sem hún er að spinna á og nokkrar myndir á veggi, þar sjást bara auðir hvítir fletir á dökkbláum vegg.

En það er ekki um að villast, Þessi mynd sýnir baðstofuna, blái liturinn kom í  ljós þegar búið var að fjarlægja veggpappírinn, sem settur hafði verið til að draga úr næðingi gegnum gisinn panel.

Nú verður myndinni komið fyrir á baðstofuveggnum og fallegi rokkurinn, sem Sigurður Sigurkarlsson gaf Vinafélaginu, sómir sér vel í horninu við gluggann.

Góð kveðja frá Múlakoti

Septembergestir

Þessi póstur fjallar eiginlega um vináttu – vináttu og tryggð.

Föstudaginn 3.september voru 6 frænkur á ferð um Fljótshlíðina. Tilgangurinn með ferðinni var margþættur; að treysta vinabönd þeirra á milli og vitja slóða ættingja og fjölskylduvina í hlíðinni.

Bergþóra Baldursd., Bergdís Jónsd., Þórhildur Ólafsd., Kristín Baldursd., María Jónsd. og Sigríður Baldursd.

Vinátta er mikils virði, og sú vinátta, sem frænkurnar voru einkum að minnast, á rætur sínar að rekja allt aftur á næst-síðustu öld til vináttu Sigríðar Bergsteinsdóttur, sem var fædd á Torfastöðum í Fljótshlíð árið 1860, og ólst þar upp í 13 systkina hópi, og Guðbjargar Þorleifsdóttur í Múlakoti, fæddrar 1870, en þær voru perluvinkonur  alla tíð. Sú vinátta náði til barna og tengdabarna, já jafnvel barnabarna, en Sigríður var langamma fimm þeirra sex kvenna, sem hingað komu. Jón Ólafsson, langafi þeirrar sjöttu, var bróðir Filippíu, tengdadóttur Sigríðar.

Filippía Ólafsdóttir

 Filippía heimsótti vinafólk sitt í Múlakoti oft á sumrin og þá var Þórhildur elst frænknanna iðulega með í för. Mikil tengsl voru ávallt við Soffíu Túbals, sem var fjölskylduvinur á Grettisgötu 35 B, en það hús höfðu foreldrar Filippíu reist, sjálf átti Soffía heima skammt undan á Njálsgötu 39 B í Reykjavík. Vinskapar Soffíu nutu þær mæðgurnar Filippía, Þórunn og Þórhildur  meðal annars á þann hátt að Soffía bauð  þeim með sér til sumarfrísdvalar í litla rauða bústaðnum sínum í hlíðinni við Gluggafoss. Múlakotsfólkið ræktaði sín vinabönd og í vinahópi Filippíu voru þau einnig Lilja Túbals og Jón Guðjónsson, sem lengi áttu heima í Sogamýrabletti, en milli þeirra voru greið og góð samskipti.

Það var gaman að taka á móti frænkunum og þær komu færandi hendi, gáfu innrammað, heillaóskaskeyti, sent frá Múlakoti 1. ágúst 1940, þegar Filippía varð 50 ára, með textanum Gull og lán þér falli í fang, fimmtuga vinkona og undirritað Guðbjörg í Múlakoti.

Þetta skeyti verður sett upp í stofunni í gamla bænum, sem Guðbjörg og Túbal byggðu árið 1897.

Góð kveðja frá Múlakoti

Ljósakvöldi 2021 aflýst

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Sumir segja að föstudagurinn þrettándi hljóti að vera óheilladagur og það er alveg öruggt að fréttin sem þessi póstur flytur er engin gleðifrétt í mínum huga.

Á sínum tíma var ákveðið að halda hátíð fyrsta laugardagskvöld í september. Tímasetningin var valin þar sem fyrsta helgi í ágúst er jú verslunarmannahelgin, aðra helgina er fólk enn að ná sér niður á jörðina, þriðja helgin er helguð Töðugjöldum á Hellu og sú fjórða er  frátekin fyrir Kjötsúpukvöld á Hvolsvelli.

En hvers vegna ætli þetta heiti Ljósakvöld?

Jú, Múlakot var á sínum tíma frægt um land allt fyrir ljósin í garðinum, sem tendruð voru í ágústhúminu.

Múlakotsbæirnir virkjuðu heimalækinn árið 1927 en tveir áratugir liðu áður en Fljótshlíðin  fékk almennt rafmagn.

Ólafur Túbals dvaldi um tíma í Kaupmannahöfn árið 1929, talið er að hann hafi kynnst ljósadýrðinni í Tivoli og flutt hugmyndina með sér heim.

Lýsingin í garðinum vakti mikla aðdáun og sagt var að hún hefði haft góð áhrif á ástarlífið í sveitinni, þar sem ungir  menn, sem vildu hrífa sína útvöldu yngismey, buðu gjarnan í reiðtúr þar sem hápunktur ferðarinnar var að drekka súkkulaði úti í garði sem var  upplýstur af mislitum rafurljósum.

Þessa stemmingu höfum við reynt að endurvekja í þríígang og gengið mjög vel, þótt við hefðum þurft að aflýsa s.l. haust og nú var ætlunin að bretta upp ermar og halda sannkallaða gleðistund.

En því miður, sýkingin sem herjar í þjóðfélaginu ógnar öllum og Rangæingar hafa ákveðið að aflýsa öllum fjöldasamkomum, þar er Ljósakvöld ekki undanskilið.

En við gefumst ekki upp þótt móti blási og erum þegar farin að hugsa til fyrsta laugardagskvölds í september að ári liðnu.

Góð kveðja frá Múlakoti

Lifnar yfir gestkomum

Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti

Nú er svo sannarlega hásumar og í venjulegu árferði væri bulllandi gestagangur í Fljótshlíðinni. Vissulega er meiri umferð en var í fyrrasumar, það sést vel á áningarstaðnum við Merkjaá þar sem iðulega eru 6-8 bílar en sást varla bíll í fyrra sumar. Sveitarfélagið hefur varið mikilli vinnu í að lagfæra staðinn sem greinilega skilar sér.

Síðustu daga hefur lifnað yfir gestakomum í Múlakoti. Á laugardaginn  síðasta var ég úti í garði að hreinsa til í beðum þegar 6 hressar konur komu aðvífandi til að skoða garðinn. Okkur talaðist svo til að ég sýndi þeim líka húsið  sem ég gerði með mikilli ánægju. Mikið var spurt og spjallað, tvær þeirra voru arkitektar með áhuga á gömlum húsum og ein hafði haft tengingu við Hlíðarendakot fyrir margt löngu.

Á sunnudaginn kom lítill hópur sem gert hafði boð á undan sér, 5 systkini og 2 makar þeirra, sem höfðu sérstakt erindi í Múlakot. Langafi þeirra, Ólafur Theodór Guðmundsson, var hálfbróðir Túbals, eiginmanns Guðbjargar. Þarna fræddist  ég heilmikið um og ættingja Túbals, sem hét fullu nafni Túbal Karl Magnús Magnússon. Magnús var Fljótshlíðingur og Valgerður, móðir Túbals, var það líka, sem kom mér á óvart, því þegar þau tóku saman voru þau bæði vinnuhjú á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd.

Mér var lofað nánari upplýsingum um þessi tengsli.

 Meðfylgjandi er mynd af hópnum, Benediktsbörnin 5, ættingjar Túbals, og 2 makar.

Góð kveðja frá Múlakoti

Að liðinni Jónsmessu

Síðasta Jónsmessunótt var með þeim fegurstu nóttum sem ég hef upplifað í Múlakoti, blankalogn og Eyjafjallajökull og Dímon roðagylltir. Það vantaði ekkert annað en morgundöggina til að hitta á réttu baðstundina.

Sagt er að það sé allra meina bót að velta sé upp úr Jónsmessudögginni og það gerði ég einu sinni sem telpa norður í Húnavatnssýslu. Það er líklega þess vegna sem ég hef verið jafn heilsuhraust og raun ber vitni.

En það eru fleiri en mannfólkið, sem njóta þess að fá sér að. Á tjörninni okkar voru í síðustu viku meira en 10 gæsapör sem nutu lífsins og kenndu ungunum sínum sundtökin, þetta eru sjálfsagt afkomendurgæsanna sem urðu innlyksa hjá okkur í Eyjafjallagosinu fyrir liðlega 10 árum síðan.

En Það er sannarlega ástæða til að heimsækja Múlakotum þessar mundir. Garðurinn er kominn í sumarskrúða og blómgunin á fullt. Villieplin frá Alaska sem Hákon Bjarnason skógræktarstjóri eru að opna blómhnappana og virðast verða þakin blómum. Það er eitthvað annað en fínu eðal-eplin mín hjá Málarastofunni, þau létu gabbast af síðvetrarblíðunni og tóku of snemma við sér, eru sviðin og grá og koma ekki með nein blóm,, hvað þá aldin, en í fyrra fengum við tugi kílóa.

Bóndarósin skartar sínu fegursta og það er sannarlega þess virði að koma í skoðunarferð  með sauma- eða spilaklúbbnum og njóta staðarins, innan húss sem utan, verið velkomin.

Góð kveðja frá Múlakoti