Það var að koma góð og mikil sending til gamla bæjarins í Múlakoti, allir gluggarammar og gler í miðhlutann og vesturendann í gamla Múlakotsbænum.
Gluggarnir voru smíðaðir í Hafnarfirði og eru mjög fallegir á að líta. Það verður aldeilis gaman þegar farið verður að koma þeim fyrir, en það verður ekki fyrr en með vorinu. Svo verða þeir líka málaður fyrir ísetningu í vetur.
Þessi herlegheit kosta líka sitt og hver króna sem Vinafélagið getur látið af hendi rakna til Sjálfseignarstofnunarinnar kemur að góðum notum.
Þegar ég var að slíta barnsskónum var hugtakið sunnudagsbíltúr í góðu gildi. Á bernskuheimilinu lá hann venjulega niður á höfn þar sem pabbi hvarf um borð í eitthvert „fellið“ en mamma sat úti í bíl með fýldan barnahópinn. Mér verður stundum hugsað til þessa og hvert ég myndi hafa farið með fjölskylduna, jú, í grasagarðinn eða upp í Heiðmörk, en hvorugur þessara staða var til í minni „fornöld“.
Núna segi ég að Fljótshlíðin er sannarlega skoðunarverð á björtum haustdegi. Þar á ég auðvitað fyrst og fremst við Múlakot, því haustlitirnir eru núna alveg ótrúlegir. Litartónar frá dökkgrænu um skærgult yfir í dökkrautt, sama hvert litið er. Meðfram Fljótshlíðarveginum eru nokkrar þyrpingar ungra aspartrjáa og litirnir á þeim minna fljótt á litið á skógareld, en heima við Múlakotsgarðinn leggja reynitrén til rauða litinn, bæði með berjum og laufskrúði.
Fyrri myndin er tekin á svæðinu milli grafreits og gamla hótelsins. Þarna eru þrjár mismunandi tegundir af hegg; blóðheggur með dökkrauðu laufi, næfurheggur með svo ljósgulu laufi að það er nánast hvítt núna, svo bronslitaður gljáandi börkurinn nýtur sín til fulls, og „algengi“ heggurinn sem enn heldur dökkgræna litnum.
Á seinni myndinni er málarastofa Ólafs Túbals, eins og prýdd haustlitum, en beggja vegna eru hlynir, fagurgrænn garðahlynur frá Þrændalögum og purpuralitur broddhlynur,, afbrigði „Fassens Black, alveg ótrúlegur á litinn.
Laugardagskvöldið 3. september sl. var haldið Ljósakvöld í Guðbjargargarði í Múlakoti í blíðskaparveðri. Það er Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti sem að efnir til ljósakvöldsins. Féið sem að safnast þetta kvöld er nýtt til að vinna að endurbótum á húsakosti gamla bæjarins.
Á ljósakvöldinu í ár hélt Björn Bjarnason, formaður vinafélagsins, stutta ræðu í upphafi og bauð gesti velkomna. Sr. Sigríður Kristín Helgadóttir, prestur á Breiðabólstað, ávarpaði gesti kvöldsins og Þórður Helgason flutti ljóð. Grétar Geirsson tók svo upp harmonikkuna og ljúfir tónar léku um svæðið. Meðfylgjandi myndir eru frá Birni Bjarnasyni.
Aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti vegna starfsársins 2021 verður haldinn í gamla bænum í Múlakoti í Fljótshlíð föstudaginn 12. ágúst klukkan 17.00.
Þann 26. júlí birtist í Múlakoti fríður flokkur ungmenna frá Hvolsvelli, liðlega 20 manns úr unglingavinnunni, undir forystu garðyrkjustjórans Guðrúnar Benediktsdóttur, komin til að rétta hendi við hreinsun. Þau létu heldur betur hendurnar standa fram úr ermun og lögðu aðal áherslu á hreinsun stíga og beða. Að loknu dagsverki hafði garðurinn tekið ótrúlegum breytingum, hann var bæði fagur og vel hirtur og vel sleginn.
Við í Múlakoti kunnum þeim miklar þakkir fyrir hjálpina.
Nú er allt í blóma í Múlakoti, gamla eplatréð í Guðbjargargarði stendur í blóma en Hákon Bjarnason, fyrrum skógræktarstjóri, kom með tréð frá Alaska fyrir 1950. Heggir blómstra, blóðheggurinn er fagurrauður og glæsilegur og nú hefur næsti heggur tekið við með ótrúlega mikilli hvítri blómgun.
En það er ekki bara gróðurinn sem er farinn að blómstra því heimsóknum gesta sem að koma og fá leiðsögn um svæðið hefur fjölgað sem er ánægjulegt. Á Hvítasunnudag kom kvenfélagið Freyja í Austur Landeyjum í heimsókn. Kvenfélagskonurnar skoðuðu garðinn og gamla bæinn og nýttu svo tækifærið og funduðu í gamla matsalnum þar sem þær drukku kaffi sem þær báru sjálfar fram. Freyjur voru afar ánægðar með heimsóknina og þökkum við þeim fyrir komuna og þeirra framlag til Vinafélagsins.
Já, sumarið er komið, það vantar ekkert annað en farfuglana, ekki þá vængjuðu, það er nóg af þeim, ég á við þessa á fjórum hjólum, við söknum gesta í garð og hús.
Það er búið að hreinsa garðinn og blómgun trjáa og runna er komin á fullt. Sjón er sannarlega sögu ríkari
Blóðheggurinn, sem er á svæðinu milli gamla bæjarins og grafreitarins, er alveg ótrúlegur, alþakinn purpuralitum blómum, og bráðum skartar heggurinn við hliðina á honum hvítri blómaslæðu. Nú er aðeins dagaspurning hvenær Alaskaeplið í Guðbjargargarði opnar sín stóru, hvítu blóm og þannig tekur hvað við af öðru, fjölæru blómin standa á tánum og hjartasteinbrotinn er fyrstur í röðinni með að blómstra.
Sama verður vonandi unnt að segja um hópa í skoðunarferðum, sá fyrsti er væntanlegur fyrsta júní. Munið bara að hringja á undan (862-5864) og panta leiðsögn í skoðunarferð um hús og garð. Skoðunin kostar 1000 kr per nef og rennur óskipt til endurbyggingar hússins
Hér var aldeilis líf og fjör í gær. 20 nemendur í trjáklippingum í Garðyrkjuskólanum komu í gær og klipptu tré og runna undir leiðsögn kennara sinna. Þetta er líklega í fjórða skiptið sem gamli garðurinn er notaður sem kennslustofa og allir njóta góðs af.
Þau þurftu svo sannarlega að vinna sér til hita í gjólu, frosti og snjó en daginn áður þegar kennararnir komu til undirbúnings var hreinasta vorveður, sól og blíða. Fyrsta myndin sýnir að þau voru vel vopnuð, en annars sýna myndirnar meira en nokkurt orð.
Meðfylgjandi eru þrjár myndir af „Múlakotsfuglunum“ sem þurfa allar skýringa við.
Fyrstu tvær myndirnar eru af smiðunum okkar, Sigurði og Sigmundi. Þeir gripu tækifærið á milli jóla og nýjárs, þegar veðrið var þurrt og blítt og settu gluggana í bakhýsið. Þeir voru búnir að bíða lengi eftir rétta veðrinu og loksins gafst tækifærið.
Því er ekki að neita að „jólagjöf“ Vinafélagsins til Sjálfseignarstofnunarinnar, 800.000 krónur hressti upp á fjárhaginn og gerði kleyft að setja smiðshöggið á gluggasmíðina.
Þriðja myndin – já þar verðið þið að taka viljann fyrir verkið. Þegar ég var að taka til hádegismatinn, varð mér litið út um gluggann eins og svo oft áður. „Múkkinn er sestur upp“ kallaði ég til eiginmannsins.“Já, er ekki bóndadagurinn á morgun?“ Honum fannst þetta bara sjálfsagður hlutur, við höfum alltaf haldið því fram að fýllinn – eða múkkinn -komi á bóndadaginn, eftir að yfirgefa okkur í svartasta skammdeginu og þetta stenst svo sannarlega núna.
Ef vel er leitað, sjást 4 fuglar á myndinni, einn er á flugi fyrir miðri mynd er þrír sitja á kletttasyllunni.
Vonandi verður árið 2022 okkur öllum betra en síðasta ár og við komumst út úr þessu leiðinda kófi sem hefur verið að hrella okkur, sem allra fyrst
Heimildir um gesti í Múlakoti má finna á fjölmörgum stöðum. Í gær var hnippt í mig – hefurðu séð myndina af Sigurði Þórarinssyni, þessa úr Múlakotsgarðinum? Ég kom alveg af fjöllum, en þegar ég komst að því að myndin var frá sumrinu 1930, datt mér gestabókin góða í hug.
Morgunstemning í Múlakoti. Sigurður gluggar í bók – bls. 79 í bókinni Sigurður Þórarinsson; Mynd af manni, höf: Sigrún Helgadóttir
Svo virðist sem gestabækur séu mér sérstakt áhugaefni, að minnsta kosti gestabækur Múlakots, því ég hef nokkrum sinnum vitnað í þær máli mínu til stuðnings. Þó veit ég mæta vel að þær eru alls ófullnægjandi heimildir um gestakomur, staðfesta aðeins að þessi eða hinn hafi komið við, sýna lágmarksfjölda gesta.
Elsta gestabók sem varðveist hefur frá hótelrekstri í Múlakoti var tekin í notkun um mitt sumar árið 1926, en mestur var gestafjöldi skráður sumarið 1928, alls 1843 gestir sem skráðu nafn sitt. Þetta er mjög mikill fjöldi einkum með tilliti til þess að það sumar var veitingahúsið í byggingu.
Gestabókin sem tekin var í notkun í júníbyrjun 1930 sker sig frá öðrum bókum, þar sem þetta er eina löggilta gestabókin sem varðveist hefur, gegnumdregin og innsigluð. Fremst í bókinni kemur fram að allir, sem hafa atvinnu af að hýsa gesti, skuli nota svona bók, þar sem sérhver næturgestur skuli skrá nafn, starfsheiti, heimilisfang, síðasta dvalarstað og brottfarardag.
Freistandi er að álykta að umræðan um þúsund ára afmæli alþingis þetta sumar og umræðan um væntanlegan fjölda erlendra gesta hafi haft sín áhrif á formlegheitin, við kynnum að taka á móti gestum.
En það voru ekki eingöngu útlendingar á ferðinni. Nemar úr fimmta bekk Menntaskólans á Akureyri héldu í langferð. Fyrst var farið með skipi til Reykjavíkur en svo akandi um Reykjanes og austur í Fljótshlíð. Eins tóku nemendur þátt í Alþingishátíðinni á Þingvöllum.
Úr gestabók Múlakots, sumarið 1930
Auðvitað brást gestabók Múlakots ekki trausti mínu. 22. júní skrifa 13 norðanmenn í gestabókina. Brynjólfur Sveinsson kennari, 9 sem skrá sig stud. art, sem er miklu flottara en menntaskólanemi, 2 sem skrifa stud. mag, þeir Steindór Steindórsson og Sverrir Kristjánsson. 2 konur eru í hópnum, Guðrún Jónsdóttir stud. art. og Þórdís Haraldsdóttir.
Myndir úr bókinni er birt með leyfi höfundar og fjölskyldu