1900 – 1920

1900 – 1920

Fyrst vil ég fjalla um merka grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þann 17. maí 1997 eftir Pálma Eyjólfsson á Hvolsvelli. Þar rekur hann þróun samgangna og áfangastaða í Rangárþingi á fyrrihluta síðustu aldar. Fyrirsögnin segir sína sögu: Bílarnir komu á undan vegunum.

Hann segir: „Þjórsárbrúin 1895 markaði tímamót fyrir samgöngur í Rangárþingi og Markarfljótsbrúin 1934 fyrir bílaumferð áfram austur.“

„Talið er að haustið 1896 hafi verið fyrst farið með hestvagn um Suðurlandsundirlendið, þegar börn voru flutt af jarðskjálftasvæðunum suður yfir Hellisheiði til Reykjavíkur meðan hresst var uppá hrunin bæjarhús, eða þau endurbyggð.“

„Áætlunarferðir með hestvögnum hófust 17. júní 1900. Þorsteinn Davíðsson annaðist þessa flutninga og hafði til þess póstvagn á fjórum allstórum, en nokkuð mjóum hjólum. Vagninn var yfirbyggður með blæjum; rúmaði 4-5 farþega og gat flutt 600-800 pund.“

Smjörflutningar til Englands hófust eftir aldamótin 1900. Það var erfitt að binda smjörið á klakka og flytja það langar leiðir. Þá voru notaðir fjórhjóla vagnar eða kerrur. Í framhaldi af því fóru að sjást auglýsingar um áætlunarferðir austur, fyrir fólk og varning. En brúarsmíði var mikilvæg, hvort sem um var að ræða fyrir hestvagna eða síðar bíla. Þann 31. ágúst 1912 var fyrri brúin yfir Ytri-Rangá vígð og síðan liðu tvö ár þar til byggð hafði verið brú yfir Eystri-Rangá.

„Fyrsti bíllinn í Rangárþingi…

Sæmundur bóndi í Eystri-Garðsauka var fyrsti Rangæingurinn, sem eignaðist bíl og lét skrásetja hann í héraði. Þetta var nýr Ford blæjubíll og hlaut skrásetningarnúmerið R.Á 1. Sæmundur ók ekki sjálfur en fékk Guðmund Jónsson, sem síðar varð bóndi að Ytri-Hóli í Vestur-Landeyjum til að aka farartækinu. Guðmundur var venjulega 4-6 tíma á leiðinni til Reykjavíkur; kveðst þó hafa komist einu sinni á hálfum fjórða tíma og þótti það ótrúlegur hraði.“

„Út um allan Hvolsvöll voru vegaslóðar og djúpar moldargötur. Þar eins og víðar mátti sjá að bílarnir komu á undan vegunum. Gömlu bílstjórarnir ruddu brautina og höfðu stundum með sér járnkalla til þess að losa steina en í mólendinu við Hvolsvöll þurfti þess ekki.“

„Áður en vatnasvæði Markarfljóts var brúað, óku áætlunarbílar frá Reykjavík austur í Fljótshlíð. Bifreiðastöð Reykjavíkur og bílakóngurinn Steindór Einarsson önnuðust þá fólksflutninga þangað. Í þessar ferðir notaði BSR oft sjö manna bíla, Studebaker eða Buick. Farþegar voru síðan fluttir á hestum úr Fljótshlíðinni austur að Seljalandi.“

Meistararitgerð Ástu Friðriksdóttur í Listfræði frá HÍ  2016 fjallar um listamenn í Múlakoti (Skemman: http://hdl.handle.net/1946/26220). Þar er mikinn fróðleik að finna. Í útdrætti segir:

„Meginviðfangsefni þessarar meistararitgerðar í listfræði við Háskóla Íslands er um tengsl menningar og lista við bæinn Múlakot í Fljótshlíð á fyrri hluta 20. aldar. Leitast er við að svara því hver var ástæða þess að svo margir listamenn, auk annarra er létu sig menningu og listir varða, lögðu leið sína í Múlakot á þessum umbrotatímum í íslensku samfélagi meðan sjálfstæðisbarátta Íslendinga stóð sem hæst. Í upphafi er fjallað um áhrif heimsókna erlendra vísindaleiðangra og bættra samgangna á upphafsárum íslenskrar myndlistarsögu með tengingu við vinsældir heimsókna í Fljótshlíð og bæinn Múlakot. Sýnt er fram á aðdráttarafl staðarins með því að fara yfir sögu Múlakots ásamt lýsingu á rekstri gistiheimilisins og lífsins á bænum. Dregið er fram aðdráttarafl lystigarðs Guðbjargar húsfreyju ásamt öðru sem henni var til lista lagt og laðaði fólk jafnframt að staðnum. Myndlistarmenn sem fyrstir héldu utan til náms í list sinni á fyrri hluta aldarinnar fá sérstaka umfjöllun og tengsl þeirra við Múlakot rakin, ásamt þeim áhrifum sem staðurinn hafði á þá og kynni þeirra við fjölskylduna á bænum. Til að mynda er varpað ljósi á hlutverk Ásgríms Jónssonar, heimsóknir hans í Múlakot og þau áhrif sem þau kynni höfðu á Ólaf Túbals. Jafnframt er lítillega fjallað um bæinn Húsafell í Borgarfirði og tengingu hans við listamenn á fyrri hluta 20. aldar, auk kynna Ólafs Túbals og Ragnars Ásgeirssonar landbúnaðarráðunautar og garðyrkjumanns, vináttu Ólafs við Johannes Larsen myndlistamann og áhrif hins síðarnefnda á líf Ólafs. Alþingishátíðin og tenging hennar við sögu íslenskrar myndlistar er reifuð og fjallað um umhverfi íslenskra myndlistarmanna á fyrri hluta aldarinnar. Sagt er frá námsárum Ólafs í Danmörku og kynnum hans við aðra listamenn sem áttu eftir að dvelja í Múlakoti og ferill hans sem listmálara rakinn. Þá er sagt frá nokkrum helstu myndlistarmönnum sem viðdvöl áttu í Múlakoti og unnu þar að verkum sínum.
Niðurstaðan sem helst er dregin af efnistökum er að aðdráttarafl Múlakots fyrir listamenn hafi verið samspil margra þátta. Má þar meðal annars nefna að bærinn á þessum tíma var í alfaraleið, náttúrufegurðin mikil, garðurinn við húsið einstakur og fjölskyldan í Múlakoti sérlega listfeng og gestrisin. Listamenn upplifðu sig velkomna, virðing var borin fyrir list þeirra óháð hvaða stefnu þeir aðhylltust og í Múlakoti fengu þeir næði til að sinna henni að vild.“


Mynd eftir Ásgrím frá 1920-1922