1920-1940
Fram hefur komið að bærinn Múlakot hafi staðið í alfaraleið á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. Þeir sem ætluðu að ferðast lengra austur eða voru að koma að austan urðu að taka tillit til stærsta farartálma þessa svæðis, Markarfljóts. Þeir sóttust eftir gistingu og mat í Múlakoti en einnig fylgd hjá reyndum leiðsögumanni yfir ála Markarfljóts. Í Múlakoti bjuggu hjónin Guðbjörg A. Þorleifsdóttir og Túbal K. Magnússon sem voru foreldrar Ólafs Túbals (og þriggja systra hans, Ágústu, Lilju og Soffíu). Þau tóku við búinu eftir Suðurlandsskjálftann 1896 og byggðu bæinn upp. Túbal þótti afar traustur vatnamaður.
Hér fylgir teikning eftir Johannes Larsen af Túbal á leið yfir fljótið. Ágústa, dóttir hans, þekkti strax hatt föður síns.
Sveinn Runólfsson, þáverandi landgræðslustjóri, skrifaði ítarlega grein um Markarfljót sem birtist í Héraðsritinu Goðasteini 2011. Hann lýsir því að Markarfljót er eitt víðfeðmasta vatnsfall landsins. Það á upptök sín við Hrafntinnusker í nærri 1130 metra hæð yfir sjávarmáli og í það rennur fjöldi vatnsfalla á um 100 km langri leið þess til sjávar. Vatnasvið fljótsins er um 1200 ferkílómetrar.
Síðan fjallar Sveinn um baráttuna við að hemja Markarfljót. Hún tók áratugi og það þurfti óskaplega mikið skipulag og elju til að koma þessu máli áfram. Bændur voru kallaðir í sjálfboðavinnu og ekki voru önnur verkfæri en skóflur og hjólbörur lengi framan af. Mjög gott og lýsandi myndefni er í þessari grein og hvet ég alla til að lesa hana í heild sinni.
En árið 1934 var búið að vinna það þrekvirki að gera varnargarða frá Húsadal í Þórsmörk til sjávar og að brúa Markarfljót. Það gjörbreytti samgöngum á þessu blómlega svæði.
Danski listamaðurinn Johannes Larsen dvaldi tvívegis á Íslandi, 1927 og 1930, vegna teikninga sinna í viðhafnarútgáfu Íslendingasagna á Alþingishátíðarárinu 1930. Hann ferðaðist um landið, aðallega á hestum, en einnig í bílum á slæmum vegum. Ólafur Túbals í Múlakoti var fylgdarmaður hans í flestum ferðunum. Danski rithöfundurinn Vibeke Nørgård Nielsen skrifaði bók um ferðir Johannesar Larsen um Ísland sem kom út árið 2004 og bar titilinn „Sagafærden“. Ég þýddi þessa bók og kom hún út hjá Uglu útgáfu árið 2015 og bar titilinn „Listamaður á söguslóðum, Johannes Larsen á ferð um Ísland 1927 og 1930.“ Johannes Larsen skrifaði dagbækur þar sem hann lýsir mjög vel því sem fyrir augu bar, landslagi, fuglum og blómum, en einnig hvaða veitingar eru á borð bornar. Stundum er eins og maður upplifi að vera horfinn um 90 ár aftur í tímann, svo lifandi er frásögn hans.
Í öllum Íslendingasögunum eru kaflar sem gerðust á Þingvöllum, og eðlilega urðu til margar teikningar á þeim stað sem Íslendingar líta næstum á sem heilagan. Bæði í Reykjavík og á Þingvöllum bjó Johannes Larsen á hóteli. En nú er hann að fara í ferð um Njáluslóðir og fær gistingu á sveitabæjunum að íslenskum sið. Hér fylgja dagbókarfærslur hans frá ferðalagi hans frá Reykjavík og austur fyrir fjall. Í smáatriðum lýsir hann nýjum áhrifum og upplifunum. Við fylgjum honum fyrsta spölinn. Eftirfarandi birtist í bókinni um Johannes Larsen frá blaðsíðu 57:
Þriðjudagurinn 5. júlí 1927
„Til Fljótshlíðar. Með áætlunarbíl frá Lækjartorgi kl.10, þ.e.a.s. nær 11. Stór nýr Buick. Ragnar Ásgeirsson sækir mig á hótelið og fylgir mér að bílnum. Þegar hann birtist kemur í ljós að í bílnum eru tveir kunningjar hans, sem hann kynnir mig fyrir. Læknir, garðyrkjumaður og auk þess norsk hjúkrunarkona sem virðist vera kærasta garðyrkumannsins, öll í aftursætinu. Í miðjunni, þar sem ég fæ sæti hægra megin, situr nýstúdent vinstra megin og í miðjunni lítill, ungur nágungi. Áður en leiðin liggur út úr bænum kemur í bílinn farþegi sem sest hjá bílstjóranum, vegaeftirlitsmaður. Meðan við stöldrum við til að taka hann upp er einhver sem býður appelsínur og seinna er ýmislegt fleira í boði svo sem súkkulaði, sígarettur og tekin er upp hálf flaska af brennivíni sem sessunautur minn á. Lóur, spóar, kríur. Í Svínahrauni eru nokkrar sólskríkjur [tveir karlfuglar]. Spóar elta kjóa. Svolítinn spöl frá Kömbum stönsum við þar sem það sýður á bílnum. Kælivatnið. Á Kambabrún nemum við staðar og förum út til að virða fyrir okkur útsýnið. Það er glaða sólskin en mistur yfir Ölfusinu og þoka yfir hafinu svo við sjáum ekki Vestmannaeyjar. Svo ökum við niður beygjurnar 40 og þegar við erum komin niður hlíðina fer sessunautur minn að spila á munnhörpu. Stuttu seinna réttir hann mér munnhörpuna og spyr mig hvort ég vilji ekki spila. Síðan heldur hann ótrauður áfram fram til kl. 1.
Förum úr við Ölfusá til að borða lax. Maðurinn með munnhörpuna verður eftir þar. Ökum á flatlendinu frá Ölfusá að Þjórsá á 70, stundum 80 km hraða á klukkustund. Yfir Þjórsárbrú. Yfir brúna á Ytri-Rangá. Nú birtist eyðileg malarslétta. Þegar Eystri-Rangá er að baki, er aftur graslendi og Vestmannaeyjar eru í þokumóðu og þær ber við flatneskjuna. Stansað er við Stórólfshvol, bæþar sem eru kirkja, sýslumannssetur og læknisbústaður. Bíllinn heldur áfram en kemur, að því er mér skils, tilbaka til að sækja okkur. Á leiðinni sjást nokkrir kjóar, flestir dökkir en nokkrir með ljósa bringu. Svartbakur, nokkrar kríur, lóur og spóar, þúfutitlingar, steindeplar, maríuerlur.
Klukkan er langt gengin 4. Það er alskýjað. Dumbungsveður. Hrafn krunkar. Húsin standa á lágri grænni hæð með útsýni til Landeyja. Það er þokumóða í lofti og ef litið er tilbaka, í þá átt sem við komum úr, er naumlega hægt að greina Hestfjall en Ingólfsfjall og hin fjöllin lengra í burtu eru horfin í þokuna. Um kl. 5 stígum við, að undanskyldum lækninum og nýstúdentinum, upp í sama bíl og keyrum í 5 mínútur að bæ sem heitir eitthvað sem virðist vera Garðsauki og færum okkur þar yfir í vörubíl. Héðan má sjá yfir til Dímonar, yfir grænar sléttur, að baki hans sjást neðanverð Eyjafjöll en hið efra eru þau hulin skýjum. Þegar við höfum beðið í nokkra stund ökum við, mér til mikillar gremju, aftur að læknisbústaðnum, þar sem hnakkur er tekinn úr bílnum og kemur í ljós að hann er í eigu stúdentsins en þegar ég lít aftur í bílinn sé ég mér til hugarléttis minn eiginn farangur.
Áfram yfir lága hæð, Brekkuhvol, og inn í Fljótshlíð. Við ökum sunnan við græna brekku með Dímon beint framundan. Við bæinn Brekkur stönsum við og þar kemur ný stúlka um borð úr öðrum vörubíl sem bíður þar. Stuttu síðar stönsum við aftur þegar kemur í ljós að nokkrir menn hafa tekið gamla brú af stæði sínu og eru að koma fyrir nýrri brú. Þeir leggja nokkra planka og spýtur og síðan ökum við yfir. Það er að segja, ég fylgdist með því hvernig færi hinum megin frá og það gerðu hinir farþegarnir líka. Það var stórgaman að fylgjast með bílnum fara yfir. Í hvert sinn, sem dekk hitti spýtu, rakst hún upp í enda bílsins til skiptis til hvorrar hliðar, þetta gekk hratt og brúin var illa farin þegar bílinn var kominn yfir.
Við beygðum stuttu síðar til norðurs, engi er á vinstri hönd en ennþá er vegastæðið á hæðardragi út frá bænum í brekkunni en þangað liggur afleggjari frá veginum. Við stönsum við Breiðabólsstað og farþegi fer út og við Sámsstaði er fleygt út poka. Á enginu beggja vegna vegarins er kjarnmikið og hátt gras með fífu. Elting og hátt fjólublátt blágresi og sóleyjar. Hofblaðkan er á sínum stað og mikið af henni. Á hægri hönd er Þverá og handan hennar Dímon og Eyjafjallajökull sem enn hylur tind sinn í skýjum. Við ökum enn eftir völlunum en smám saman, þegar við nálgumst Hlíðarenda, verður landið ósléttara.
Á einum stað ökum við ofan í á og yfir hana, höldum síðan áfram eftir grýttum og þurrum árfarveginum og förum þrisvar til fjórum sinnum yfir ána og yfir á hinn bakkann. Þá komum við aftur upp á veginn. Hlíðin verður hærri og Þverá leggst nú alveg upp að veginum. Við stönsum á bakkanum fyrir neðan bæinn og kirkjuna á Hlíðarenda, hjá tjöldum þar sem símamenn eru að setja upp línu. Og hér förum við úr, garðyrkjumaðurinn og hjúkrunarkonan og maður sem kom með þegar við skiptum um bíl. Hann talar dönsku og þegar við komum að Hlíðarendakoti, þar sem ég á að búa, fæ ég hann með mér til að tala við fólkið. Ég er með bréf til mannsins eða konunnar frá Ragnari Ásgeirssyni. Maðurinn kemur út, tekur við bréfinu og fer inn aftur til að tala við konuna. Svo kemur hann út og segir að ég geti verið þar í nokkra daga. Ég kveð hina og er boðið inn. Bærinn stendur á túni alveg niður við Þverá, um 100 álnir frá bakkanum. Nokkru sunnar eru tóftir gamla bæjarins, rétt við bakkann. Þverá brýtur stöðugt af vesturbakkanum og við Hlíðarenda nær rofið upp í hlíðina og þar eru háir bakkar. Tjaldur fylgir okkur síðasta spölinn og situr nú fyrir utan og gargar. Klukkan er að verða átta þegar við komum þangað. Ég sest fyrir framan húsið til að teikna. Þverá og Dímon.“T
Lengra komst Johannes Larsen ekki á þessum langa degi enda náði bílvegurinn ekki lengra en að Hlíðarenda. Hann dvaldi í Hlíðarendakoti í tvo daga í góðu yfirlæti. En þá kemur vinur hans, Ragnar Ásgeirsson, og leggur til að þeir fari á næsta bæ, Múlakot, og fái þar hesta og leiðsögn yfir Markarfljót og síðan mat og gistingu. Fylgjumst þá áfram með lýsingu hans í dagbókinni:
7. júlí 1927. Á fætur kl. 7.
„Meðan ég er að klæða mig bankar konan á dyrnar, kaffið er tilbúið. Í dag er sulta ofan á smjörinu á jólakökunni. Fer út og teikna rigningarskúr yfir Goðalandsjökli. Þá kemur Ragnar Ásgeirsson og sækir mig. Ég pakka því nauðsynlegasta í bakpoka og fer í gúmmístígvélin og regnfrakkann. Hann ber bakpokann, ég er ekki ennþá góður af árans kvefinu sem ég fékk á Þingvöllum. Verð móður og sveittur og verður kalt þegar ég sit kyrr. Við göngum að Múlakoti framhjá mörgum litlum fossum og skömmu áður en við komum að bænum komum við að stærri fossi sem heitir Gluggafoss af því að hann kemur út úr gati með þremur gluggum. Núna kemur bara vatn úr miðglugganum og fellur lóðrétt niður í hringlaga skál og fer þaðan áfram niður hlíðina í Þverá. Múlakot eru tveir litlir bæir sem standa þétt saman, þekkt fyrir skrúðgarðinn sem er einstakur á Íslandi. Beint á móti í gili í Eyjafjöllum, fyrir austan bæinn Mörk, vex reyniviðartré, sem sagt er að sé svo stórkostlegt tré að það finnist ekki annað eins á Norðurlöndum. Af því hefur konan tekið nokkrar plöntur fyrir 30 árum síðan og það eru núna tré. Garðurinn er nú lítill reyniviðarlundur. En þar er líka fullt af blómum. Venusvagn, næstum jafnhár mér og var svo stór að ég hélt að þetta væri riddaraspori, og svo eru margar aðrar tegundir fjölærra blóma.
Við fáum fyrst kaffi með kökum og pönnukökum. Síðan nautakjöt, sósu og kartöflur og skyr. Og svo kemur bóndinn með hestana. Ég er svolítið hikandi þar sem ég hef ekki riðið út síðan ég reið til Skjold Tang í Nyborg. Þeir segjast hafa valið sérstaklega rólegan og traustan hest og við setjumst á bak og ríðum af stað. Þetta gengur bara vel en sá sem ég ríð getur ekki fylgt hinum í gangtegundum og af því leiðir að ég er á brokki helmingi meira en hinir. Ég dáist sérstaklega að hesti bóndans, hann er greinilega miklu fjörugri en hin hrossin. Bóndinn ríður heim að Barkarstöðum og ég fæ svipu Ragnars Ásgeirssonar til að dýrið geti frekar fylgt með. Það hafði sín áhrif. Brekkan hjá bænum sker sig úr við að það renna 11-12 litlir lækir niður hana. Við höldum okkar leið og maðurinn nær okkur fljótlega. Við ríðum meðfram Þverá að Markarfljóti og um það bil mitt á milli innsta bæjar í Fljótshlíð og Þórólfsfells ríðum við út í árfarveginn og komum fjótlega að fyrsta álnum. Bóndinn ríður fyrir framan og það er skrítið að sjá þetta leiruga, gráhvíta vatn sem æðir áfram með 90 km hraða undir hestunum og þegar það nær um það bil upp í nára og fossar um fæturna fær maður þá tilfinningu að við fljótum allir til hliðar á fljúgandi ferð.
Við förum yfir 4 eða 5 stóra, straumharða ála og nokkra minni með vatnsbörðu grjóti og erum þá komnir fyrir Markarfljót sem rennur sem stendur í norðanverðum fljótsfarveginum sem er víst um mílu breiður. Þrír kjóar hefja sig til flugs frá steini og hringsóla yfir okkur en einn situr kyrr eins og hann liggi á eggjum. Ég ríð í áttina til hans en þá flýgur hann líka. Við skriðjökulinn en úti í fljótsfarveginum er lágur steinn, Öldusteinn. Þar eru 6-8 svartbakar, nokkrir með gráar fjaðrir á öxlunum. Þegar við nálgumst fara nokkrir þeirra að fljúga í hringi og segja gak-gak. Stuttu seinna koma nokkrir kjóar. Hinir eru komnir nokkuð langt á undan og bilið vex þar sem ég get ekki látið bykkjuna brokka í lausri mölinni. Fram undan, til hliðar við jökulruðninginn við enda skriðjöklanna tveggja, sem skríða hér niður frá Eyjafjallajökli, eru stórir leirhaugar og þar sé ég þá ríða upp og er fljótlega kominn þangað til þeirra. Á flötinni þar sem þeir standa, liggja margir flatir steinar í lausum sandinum. Það eru leyfarnar af bæ Björns bónda í Mörk. Einhverjir reiðmenn hafa verið á eftir okkur en nú ríða þeir til austurs úti í árfarveginum og fara fram hjá okkur. Við ríðum niður brekkuna og höldum nú áfram meðfram suður bakkanum að skóginum í Þórsmörk og komum þangað milli þrjú og fjögur. Ríðum gegnum hlið.
Skógurinn er afgirtur fyrir kindunum. Þarna hleypur falleg rjúpa (kvenfugl) rétt fyrir framan okkur, næstum svört með hvíta vængi. Þá komum við upp á græna flöt ríðum aðeins lengra upp brekku en stígum því næst af hestunum á grænum bala með útsýni til vesturs yfir í Fljótshlíð. Hér sest ég og fer að teikna meðan hinir spretta af hestunum og ganga upp á fjallið til að sjá helli þar sem útilegumaður átti að hafa búið í mörg ár. Um leið og þeir eru farnir spásserar rjúpan út á grasflötina fyrir neðan og ég á mína gæðastund í um klukkutíma.
Þá heyri ég raddir á dönsku og stuttu seinna koma 5-6 ungir menn ríðandi með leiðsögumanni og aukahestum og fleygja sér í grasið fyrir neðan mig á meðan hestar þeirra fara að bíta gras rétt hjá mér og skyggja á útsýnið fyrir mér. Þá taka þeir eftir mér og koma fyrst tveir og eru mjög kurteisir og spyrja hvort hestarnir trufli mig og reka þá í burtu. Svo kíkja þeir á það sem ég er að teikna og einn þeirra segir ,,Þér hljótið að hafa fengið kennslu í þessu”og ég játa því. En þegar þeir þurfa að fá fleiri og fleiri svör – og hinir eru líka komnir – þá held ég teikningunni upp fyrir þá og fæ svo frið. Þeir hafa verið við Skógafoss og ætla til Hlíðarenda. Leiðsögumaður þeirra er bróðir bóndans þar. Þá eru mínir menn komnir aftur og skömmu síðar stinga þeir af nema Hlíðarendamaðurinn sem þarf fyrst að skemmta sér með því að tala við Ragnar Ásgeirsson og ég er núna að verða búinn með myndina. Og við förum að borða smurt nesti sem við höfðum með okkur, hver fær 2 flatkökur, aðra með kindakjöti, hina með osti skornar þvert yfir og lagt saman. Þau baka svona brauð á hverjum degi, rúgbrauðsdeig flatt út og bakað, fyrst á annari hliðinni og svo á hinni á hellunum á eldavélinni, nánast ristað.
Þegar við erum búnir að borða koma tveir reiðmenn í ljós á brekkubrúninni fyrir sunnan okkur. Maður og kona sem fara af baki og teyma hestana og koma til okkar. Það er bóndinn frá Hlíðarenda og konan hans, þau sem riðu framhjá okkur núna síðdegis. Þau höfðu farið út á móti hinum en höfðu sem sagt farist á mis við þá. Því riðu þau heim og stuttu seinna fórum við líka að tygja okkur af stað. Það kom mér skemmtilega á óvart að þeir höfðu nú lagt hnakkinn minn á viljuga hest bóndans og ég get sagt að það var sannarlega mikill munur og virkilega ánægjulegt. Þegar við fórum yfir hafði bóndinn, hann heitir Magnús, sagt að það verði meira vatn í fljótinu í kvöld þar sem vindurinn væri austanstæður og bræddi ísinn á jöklinum. Það reyndist rétt. Það var sannarlega mikill straumur og mikið í vötnunum. Einu sinni sagði hann okkur að bíða meðan hann reyndi sig, svo reið hann út í en þegar vatnið var allt í einu orðið svo djúpt að það náði upp á síður hestsins snéri hann honum en þá datt hann og hann varð að fara af baki og draga hestinn upp. Svo riðum við fram og aftur og reyndum að finna leið þangað til hann fann stað sem hann taldi að við kæmumst yfir. Svo reið hann á undan og þegar hann var kominn yfir hrópaði hann að við gætum komið líka. Það var sá síðasti af stóru álunum og við komum nú á engi þar sem við gátum gefið hestunum lausan taum þangað til við komum að Barkarstöðum þar sem við eigum að líta inn því Ragnar Ásgeirsson hefur farið hér um nokkrum sinnum. Við komum inn og fáum kaffi, kökur og pönnukökur. Hitti þar ljósmyndarann sem ég ferðaðist með úr Reykjavík í fyrradag. Hann ætlar í Þórsmörk á morgun. Milli 9 og 10 förum við af stað og ríðum á stökki að Múlakoti. Skyr, rjómi, í rúmið kl. 12.
8. júlí 1927
Það hefur verið rigning allt í kring en við höfum sloppið við skúrirnar. Þegar við erum að koma að Öldusteini kemur maðurinn auga á tvo svartbaksunga sem liggja á lítilli þúfu í mölinni. Sá gamli flýgur hræddur og gargandi yfir okkur þegar við stoppum við hreiðrið, annar unginn leggur tístandi af stað en hugsar sig um og snýr við aftur. Hinn liggur rólegur í hreiðrinu. Þeir eru líklega ekki meira en dags gamlir. Skömmu síðar kemur regnskúr sem líður fljótt hjá og þá skín sólin og myndar regnboga sem nær yfir allan dalinn frá Þórólfsfelli til Eyjafjalla. Það hefur verið dásamleg birta yfir jöklinum í dag, til skiptis stór hvít ský og dimmblátt loftið yfir snjóhettunni og silfurgráir skuggar í snjónum. Í birkiskóginum söng skógarþrösturinn stanslaust á meðan ég teiknaði og auk þess lítill söngfugl sem ég hef ekki haft tíma til að greina hvað heitir. Ég vaknaði kl. 7 þann 8. júlí og fór að skrifa þetta þar sem það er algjörlega hljótt í húsinu, sem ekki var raunin kl. 1 þegar ég sofnaði.
Það er skýjað og skúrir hér og þar. Kl. 9 fer ég á fætur og við fáum kaffi með sandköku og pönnukökur með sykri. Ragnar Ásgeirsson kemur inn og hefur samið við soninn á nágrannabænum um hesta og leiðsögumann í dag. Það er nauðsynlegt að hafa staðkunnugan með því árnar breyta farvegi sínum oft. Við ætlum þvert yfir dalinn yfir Þverá að Dímon og áfram yfir Markarfljót til Eyjafjalla. Ég geng út og teikna Gluggafoss. Í garðinum eru silfurskúfur, garðabrúða, venusvagn, stórir valmúar, burknar, blá centauríurós, maríuþistill, runnanellika, fagurfífill, blágresi (þetta hávaxna bláa sem vex villt hér) spánskur kerfill, skuggasteinbrjótur og mismunandi önnur einær blóm og túlípanar. Við gluggana rósatré (mörg), nellikur, begóníur og pelargóníur, birki, reyniviður, ribs og regnfang.
Það blæs og það falla skúrir. Það var erfitt að finna einn hestinn og því komumst við ekki af stað fyrr en kl. 1. Í dag er það sonurinn á nágrannabænum, Ólafur Túbals, sem er leiðsögumaður okkar (hann málar sjálfur). Nú ætlum við að fara yfir öll fjögur vötnin: Þverá, Affall, Ála og Markarfljót. Þegar við erum búnir að fara yfir tvö þau fyrstu erum við komnir í Landeyjarnar, stórt grænt svæði með fremur rýru grasi. Hér er mikið af kjóum, fjórir þeirra stilla sér upp fyrir framan okkur, blaka vængjunum og mjálma. Aðeins lengra liggur meðalstór kjói sem ég ríð til. Hann stendur upp og flýgur burt. Ekkert hreiður. Þetta var fallegur gamall fugl með alveg hvítgulan háls og hvíta bringu. Af hinum var aðeins einn með hvíta bringu. Hinir voru dökkir á lit. Ég teikna Hlíðarenda með Þríhyrning á bak við. Áfram í átt að Dímoni, hér renna Álarnir margskiptir í kvíslar. Ein dýpsta kvíslin hittir á Dímon, sem skiptir vatnsflauminum eins og það séu virkisgrafir þétt við rætur hans. Við verðum að fara suður fyrir til að komast í land. Ríðum svolítinn spöl upp brekkuna og sleppum hestunum.
Þar sem við höfum riðið dálítið förum við nú að krafsa okkur upp á við og þegar við erum komnir nokkuð langt áleiðis og höfum setið og litið í kíkinn m.a. eftir Bergþórshvoli sem Ólafur kom auga á en regnið, sem kemur utan af hafi gleypir hann síðan, ákveðum við að fara alla leið upp á toppinn, ákvörðun sem ég sá eftir, í hvert skipti sem ég varð að setjast vegna þess að ég gat hvorki lyft fótunum eða náð andanum og það var æði oft. Ragnar Ásgeirsson segir að Dímon sé jafn hár Péturskirkjunni, þetta er brattasta grasbrekka sem ég hef séð, en yndislegt, safaríkt gras alls staðar. Það liggja allmargir vængir af rjúpu í vetrarbúningi þarna. Það hefur sem sagt búið fálki hér í vetur. Nú birtist fuglalífið í hrafnafjölskyldu með stálpaða unga sem virðast afar ósattir við komu okkar og nokkrum steindeplum sem mata unga sína í hreiðrinu.
Þegar við erum komnir alveg upp er stórkostlegt útsýni yfir alla sléttuna upp að Fljótshlíð með eyjum og hólmum og þúsund læki og farvegi í svartri sandsorfinni mölinni. Í norðri er Fljótshlíðin með Þríhyrning og Tindafjöll, svo Þórsmörk og Goðalandsjökull og Eyjafjallajökul og þaðan sem Eyjafjöllin skaga lengst fram allur sjóndeildarhringurinn til Landeyja sem hverfa í rigningunni (annars væri það hafið með Vestmannaeyjum), þar til augað finnur aftur brekkurnar við Stórólfshvolog Brekkur. En hvað hestarnir eru pínulitlir niðri við rætur fellsins.
Ég er ekki alveg laus við svima, líklega mest vegna þess að ég treysti ekki á lúna fætur mína. Það gengur þó vel að komast niður, er töluvert þægilegra en að klifra upp. Við höfðum tala um að ríða áfram austur að Seljalandsfossi, en þar sem það er búið að rigna allan daginn á Eyjafjöllin og rigningin er nú komin til okkar á Dímon og með henni fylgja reiðilegar vindhviður, erum við sammála um að láta það eiga sig og ríða yfir Markarfljót að Mörk og fara í gilið þar sem gamla reyniviðartréð vex. Milli bæjarins og gilsins er mjög stórt engi með kindum á beit. Þar eru nokkuð margir (14-16) kjóar en aðeins tveir þeirra eru með hvíta bringu. Lengra í burtu er einmana hefðarkjói, fallegur gamall fugl.
Við förum af baki og klifrum upp í gilið andstætt þeirri hlið sem reyniviðurinn vex og þetta er sannarlega glæsilegt tré. Það vex í þverhníptum kletti 10-15 m yfir læk sem rennur í botni þröngs gilsins. Við sitjum í sömu hæð og rótin og Ragnar Ásgeirsson gengur á lágréttri grein yfir til að mæla bolinn. Sverasti bolurinn á stóra reyniviðnum við Mörk er 150 cm, annar 95 og enn annar 140 og einn 50 og einn 110 cm. Ragnar Ásgeirsson gekk á greinunum yfir gilið og mældi með málbandi. Lárétti bolurinn er 10 m hinir nokkru grennri. Tréð á rætur sínar í helli smá spotta frá stofninum, helli þar sem kindur hafa leitað skjóls frá fornu fari og Ragnar heldur að allur áburðurinn og að tréð er varið fyrir vindi og fær mikinn raka hafi orsakað aldur þess og stærð. Árni, maðurinn hér á bænum, er fæddur í Mörk og hann segir að tréð hafi á tímum föður hans og afa í 60 ár verið jafn stórt og núna. Við klifrum líka upp. Kindahellirinn er gróinn þéttri breiðu af fuglagrasi í botninum en í loftinu vaxa burknar á hvolfi.
Svo skríðum við niður í gilið og förum eftir grýttum lækjarfarveginum með því að hoppa milli steina inn eftir gilinu sem verður dýpra og dýpra efti því sem við komumst lengra inn í fjallið. Loks nemum við staðar við um 2 metra háan foss og sjáum glitta í lóðréttann foss sem fellur um 12 metrum lengra í burtu frá brúninni og alveg niður í botn gljúfursins. Þarna er mikill gróður: burknar, smári, hvönn og fleira. Úti á enginu blómstra brönugrös. Ólafur er farinn að sækja hestana og hefur sest niður að teikna en hættir þegar við komum og við ríðum síðan til Múlakots. Nú erum við hærra í landinu og þurfum aðeins að fara yfir Fljótið og Þverá. Það fyrra var þokkalegt en það var töluvert mikið í Þverá. Við sjáum kríur, spóa og nokkra óðinshana. Einnig sandlóu með unga. Þegar við riðum framhjá bænum Mörk sat tjaldur á þaki eins útihússins.“
Rómantík, fegurð, ævintýri og innreið bíla
Í Árbók Ferðafélags Íslands 2010 á bls. 232 hefst kafli um ferðamenningu Íslendinga á þriðja og fjórða áratug 20. aldarinnar sem skýrir svo margt:
Einkum er það unga kynslóðin sem vildi ferðast og með tilkomu bílanna og með vegabótum varð það gerlegt, jafnvel að komast inn á hálendið. Mikið munaði um ákvæði um sumarleyfi sem voru sett inn í kjarasamninga á fjórða áratugnum, þó að þau væru í upphafi stutt. Unga fólkið hafði brennandi áhuga á að kynnast landinu sínu og þar ýtti undir Ferðafélag Íslands sem var stofnað 1927 og Farfuglahreyfingin sem skaut hér rótum á svipuðum tíma.
Einnig má nefna unga myndlistarmenn sem brunnu í skinninu að túlka fegurð náttúrunnar, jafnt í byggð sem í óbyggð og á öræfum. Ungir ljósmyndarar fóru um landið til að taka myndir til að sýna löndum sínum það sem fyrir augu bar. Og skáld og rithöfundar slógust í hópinn.
Merk frænka mín, Margrét Árnadóttir, fædd 1909 í Landsveit, er góður fulltrúi þessa tímabils. Hún var fyrstu mánuði ævi sinnar sveitarómagi þar sem móðir hennar gat ekki haft hana hjá sér og faðirinn afneitaði henni. En þá kom hún til ömmu sinnar og ólst síðan upp hjá henni og móðurafa og ömmu í Ölversholtshjáleigu í Holtum. En Magga frænka, eins og við kölluðum hana, var forkur dugleg frá fyrstu tíð. Hún fór ung til Reykjavíkur og lærði klæðskeraiðn hjá Andrési og vann síðan sem saumakona. En hún var hrifin af landinu okkar og ferðalögum og nýtti vel þá daga sem voru leyfðir í sumarfrí. Þá fór hún með vinkonum sínum, stundum með leigubíl eða með langferðabíl á einhvern fallegan stað á landinu og þar dvöldu þær þar til þær voru sóttar, kannski viku eða 10 dögum síðar. Ég hef undir höndum fjölda mynda sem Magga frænka tók, þar á meðal eru myndir frá Múlakoti enda var það afar vinsæll áningastaður. Myndirnar sýna vel hvað þær stöllur nutu ferðanna. Alltaf voru þær fínar, í pilsum og ljósum blússum, en þegar komið var að á sem þurfti að vaða var bara lyft upp pilsum og lagt af stað.
Síðar varð Magga mikill stuðningsmaður Ferðafélags Íslands og ferðaðist mikið með þeim. Á ferðum sínum kynntist hún mörgum og hélt góðum vinatengslum alla tíð. Þar á meðal voru listamenn og átti hún gott safn listaverka þegar hún dó 95 ára gömul.