1960 – 1980

1960-1980

Grein sem birtist í Héraðsritinu Goðasteini 2017 eftir Sigurlín Sveinbjarnardóttur:

„Sumarið 1962 var ég að vinna í Múlakoti í Fljótshlíð. Þá var ég 15 ára og hafði verið í Skógaskóla um veturinn. Móðir mín, Ásta Ingibjörg Árnadóttir, var einnig að vinna þar sem ráðskona enda mjög mikið að gera á sumarhótelinu. Það var alltaf gott veður, margt fólk og endalaust gaman. Þetta var næstsíðasta sumarið sem Ólafur Túbals lifði en hann var í fullu fjöri, tók höfðinglega á móti gestum, var hrókur alls fagnaðar, söngmaður og hagyrðingur auk þess sem hann málaði af kappi. Lára kona hans var alltaf á þönum; hún gekk aldrei heldur hljóp við fót og var alltaf í góðu skapi. Þegar aðrir fóru að sofa upp úr miðnætti fór Lára að baka eða gera annað sem ekki hafði unnist tími til þann daginn og einnig fór hún fyrst á fætur. Aldrei man ég eftir að hún settist niður að borða heldur var hún alltaf að þjóna öðrum.

Reynir sonur þeirra hjóna sá um búskapinn að mestu og systurnar Lillý og Fjóla voru alltaf glaðar og kátar og hjálpuðu til við létt störf. Systurnar voru ekki eins og fólk er flest eins og sagt var þá, en þó fór alla vega Lillý í skólann og lærði að lesa og fleira. Og mikið höfðu þær báðar gaman af tónlist og söng. Nína var hin trúfasta vinnukona sem var allan daginn í eldhúsinu og átti sitt sæti við vaskinn. Hún var yndisleg og ljúf manneskja sem enginn getur gleymt. Það var mikill hlýleiki og umhyggja sem ríkti á þessu heimili og öllum sem komu þar leið vel hjá þessu góða og skemmtilega fólki.

Ég gekk í öll möguleg störf enda ólöt og vön að vinna. Mestan tíma tók þó að afgreiða gos og sælgæti út um gluggann vinstra megin á vesturgafli hússins. Nú er talið að þetta hafi verið ein fyrsta lúgusjoppan á landinu. Það var mitt starf að afgreiða og það var ekkert lokað eða opið á ákveðnum tímum. Ef gestur kom á bílaplanið og vildi versla, þá var opið. Trjágarður Guðbjargar var orðinn mjög þekktur og margir lögðu leið sína í Múlakot til að skoða hann. Það voru líka margir hópbílar komnir til sögunnar og mér fannst stundum mannmergð fyrir framan lúguna mína. En allt gekk þetta vel, enginn að flýta sér sérstaklega mikið og ekki man ég til þess að fólk hafi farið í biðröð heldur stóð það og spjallaði í rólegheitum.

Oft var svo mikið að gera hjá mér að afgreiða sælgæti að ég hafði ekki tíma til að fara inn í eldhús og fá mér eitthvað að borða. Þá var ekki annað að gera en að fá sér súkkulaði eða annað til að lifa af daginn. Ég hafði ekki fengið mikið sælgæti í uppvextinum og var reyndar með allar tennur heilar á þessum aldri. Mér fannst gos og sælgæti bara ekkert gott og það endaði með að ég nærðist mest á malti þetta sumar. Það er skemmtilegt að til er handskrifuð verðskrá frá þessum tíma. Þar sést hvaða tegundir voru á boðstólum og hvað þær kostuðu. Sem dæmi má nefna að sinalkó,  appelsín og kók kostuðu 16 krónur, malt 20 kónur og pilsner 19. Síríussúkkulaði kostaði 60 krónur, tópas 13 og karamella 2 krónur. Fauna-vindlingar kostuðu 110.

Eina minningu á ég sérstaklega um Ólaf Túbals. Mér fannst hann gamansamur og ljúfur maður. Hann var einstaklega góður við dætur sínar og blíður við konu sína.  Á góðviðrisdegi í ágúst var ég úti í garði að tína ribsber í sultu. Hann var með pensla og trönur og var að fara að mála. Ég var áhugasöm um að skoða hvernig hann bæri sig að og hann vildi gjarnan kenna mér. Svo hvarf hann inn í hús en kom fljótt aftur út, pakkaði öllu saman og fór. Ég komst svo að því að hann hafði farið inn til að spyrja móður mína hvort hann mætti mála mig. En hún hafði talið það vera eitthvað ósiðlegt og harðneitað. Mér fannst það miður og skildi ekkert í henni. Hún kom sem sagt í veg fyrir að ég yrði ódauðleg í málverki eftir Ólaf Túbals.

Þegar skyggja tók á kvöldin var kveikt á mislitum perum í trjánum í garðinum. Þar safnaðist unga fólkið í sveitinni saman á hlýjum og góðum kvöldum. Mér fannst þetta vera ævintýraheimur. Sumir strákarnir voru jafnvel komnir með bílpróf og fengu lánaða Willys-jeppa feðra sinna. Þá var hægt að skreppa í stutta bíltúra. Ég þurfti samt að afgreiða í lúgunni svo það gátu aðeins orðið mjög stuttir hringir. Ég keyrði reyndar sjálf jeppann hans pabba frá 14 ára aldri svo þetta var ekkert svo nýtt fyrir mér.

Mér finnst í minningunni að þetta hafi verið mjög þroskandi og skemmtilegt sumar fyrir mig. Auk launanna minna gaf Ólafur mér málverk sem bónus. Um haustið fluttu foreldrar mínir og systir til Reykjavíkur þar sem þeir höfðu keypt íbúð til þess að við systur gætum farið í menntaskóla án þess að þurfa að flytja að heiman. Ég fór aftur í Skógaskóla og lauk þar landsprófi. Heimilisfólkið í Múlakoti varð á þessum tíma nánir vinir fjölskyldu minnar og hélst sú vinátta alla tíð.

Sem merki um þessa traustu vináttu fékk pabbi minn, Sveinbjörn Sigurjónsson, leyfi hjá fjölskyldunni í Múlakoti til að flytja lítinn bústað á land þeirra um ári síðar. Þá hafði hann 1. apríl 1963 stofnað Austurleið hf. ásamt Óskari bróður sínum og fleirum. Pabbi hafði frá árinu 1943 átt vörubíla, sem ávallt báru númerið L 10. Það var rífandi vinnu að hafa í vegagerð og  þetta fyrsta atvinnutæki sitt greiddi hann upp á einu ári. Pabbi átti síðan nýlega og góða bíla en þegar hann stofnaði Austurleið lagði hann allt sitt í fyrirtækið og keyrði sjálfur mest bens, L 502. Var hann aðallega í áætlunarakstri úr Reykjavík og inn Fljótshlíð með endastöð í Múlakoti. Oftast var fullt á hótelinu og það var ástæðan fyrir því að pabbi bað um leyfi fyrir litla bústaðnum undir brekkunni austan við Gluggafoss.

Við, dætur Ástu og Sveinbjörns, og síðar barnabörn þeirra, litum alltaf á þennan stað sem sumarbústaðinn okkar. Þarna er ólýsanleg náttúrufegurð og velinnréttaður og hlýr bústaðurinn, sem einfaldlega var kallaður „Litla húsið“, átti fastan sess í hjörtum okkar. Við fórum mjög oft með rútunni austur og dvöldum þar einhverja daga. Ég held að það hafi hjálpað töluvert upp á geðheilsu okkar því okkur leiddist mikið eftir að við fluttum til Reykjavíkur. Við mamma fórum þá að hjálpa Láru í hótelrekstrinum því alltaf var jafn mikið að gera. Svo dró úr því smátt og smátt við fráfall Ólafs Túbals og hrakandi heilsu Láru. Við héldum alla tíð miklu sambandi, þau dvöldu oft hjá okkur þegar þau komu til Reykjavíkur og við vorum alltaf með annan fótinn í Múlakoti. Reynir Túbals, sem bjó áfram búi sínu, var alltaf kominn til okkar um leið og hann varð var við mannaferðir. Mamma hafði sérstaka unun af að gefa honum eitthvað gott að borða enda var hún sannfærð um að hann væri alltaf svangur. Eins man ég að hún gaf honum oft sokka og peysur. Þessum kafla í lífi okkar lauk svo árið 2000 þegar Reynir dó en þá hafði Litla húsið líka þjónað hlutverki sínu í 37 ár.

Ég hef í rúmlega 20 ár, ásamt vinkonu minni Vibeke Nørgård Nielsen, unnið við að skipuleggja ferðir um Ísland fyrir danska ferðamenn. Þar hef ég mikið stuðst við frásagnir úr dagbókum danska listmálarans Johannesar Larsen sem ferðaðist um Ísland árin 1927 og 1930 til að myndskreyta nýja útgáfu Íslendingasagna sem kom út hjá Gyldendahl. Ólafur Túbals var leiðsögumaður hans á þessum ferðum sem helst voru á hestum en þó stundum í bílum á afar lélegum vegum. Ólafur skrifaði líka dagbækur og lærði eflaust margt af þessum danska listamanni. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að geta miðlað fróðleik frá okkar fallega landi til þessara gesta og jafnframt eins og litið aftur í tímann og séð hvernig allt var fyrir 80-90 árum síðan. Vibeke skrifaði bók um þessar ferðir listamannanna árið 2004 og kom sú bók út í íslenskri þýðingu minni árið 2015 hjá Uglu útgáfu og ber titilinn Listamaður á söguslóðum. Þar er m.a. að finna sérstakan kafla um Múlakot.“


Mynd af hóp fyrir framan litla húsið

Ferðir í Múlakot auglýstar í blöðum:

Þegar leitað er í Tímarit.is koma upp skemmtilegar auglýsingar sem segja sína sögu. Þegar danski listamaðurinn Johannes Larsen var á leið úr Reykjavík í Múlakot sumarið 1927 endaði bílvegurinn við Hlíðarenda og Larsen varð að ganga með farangur sinn, fyrst að Hlíðarendakoti og síðan í Múlakot. En í maí 1928 birtist auglýsing í Alþýðublaðinu um að Nýja-bifreiðastöðin í Kolasundi fari fastar ferðir milli Reykjavíkur og Fljótshlíðar það sumar, á hverjum degi austur og hverjum degi að austan. Afgreiðslustaðir í Fljótshlíð eru Breiðabólstaður og Múlakot. „Enn fremur útvegum vér ferðafólki hesta, fylgdarmenn og gistingu hjá Túbals í Múlakoti“ segir í auglýsingunni.

Ári síðar, í júní 1929, er það Bifreiðastöð: Jakob & Brandur, Laugavegi 43, sem auglýsir í Alþýðublaðinu daglegar ferðir að Breiðabólstað og í Múlakot í Fljótshlíð. Það eru auglýstar ferðir tvisvar í viku austur í Vík í Mýrdal og einnig tvisvar í viku á Gullfoss og Geysi.

Árið 1939 stendur í Leiðabók II að farnar verði tvær ferðir í viku frá Reykjavík í Múlakot: Frá Reykjavík miðvikudaga og laugardaga kl. 10 og frá Múlakoti fimmtudaga og sunnudaga kl. 8. Undir auglýsinguna skrifar Guðmundur Hlíðdal.

Í maí og júní 1958 eru auglýstar, bæði í Morgunblaðinu og Tímanum, fjórar ferðir í viku frá Reykjavík í Múlakot yfir sumarið og það er Kaupfélag Rangæinga sem auglýsir. Sams konar auglýsing birtist 1960 í Tímanum.

Árið 1963 birtist stór auglýsing í Morgunblaðinu þann 12. nóvember frá Austurleið hf. Þar er ekki bara verið að kynna sumarferðir heldur er kynnt metnaðarfull ferðaáætlun frá Reykjavík, austur í Múlakot en einnig austur í Vík og að Kirkjubæjarklaustri. Þar segir m.a.: Ferðist með Austurleið hf. Fleiri farþegar – betri þjónusta.

Um Austurleið: Óskar Sigurjónsson, föðurbróðir minn, hafði fengið sérleyfi fyrir ferðir frá Reykjavík og inn í Fljótshlíð um 1960 en Kaupfélagið hafði haft það áður. Mikil samkeppni var á þessum tíma um alla flutninga. Mjólkurbúið átti marga hálfkassa bíla sem fóru um sveitir Suðurlands. Varla var stundum pláss fyrir mjólkurbrúsana fyrir farþegum og vörum. Árið 1962 kom faðir minn, Sveinbjörn Sigurjónsson, inn í reksturinn. Fyrirtækið Austurleið hf. var stofnað vorið 1963. Þá var keyptur nýr bíl, vörubíl af Benz-gerð, en hann var yfirbyggður og tók 34 farþega. Það fór svo miklu betur um farþegana í almennilegri rútu en í kassabílunum svo það varð fljótt vinsælt.

Faðir minn ók mjög oft áætlunarbílnum úr Reykjavík með endastöð í Múlakoti en það var farið síðdegis austur en að morgni til Reykjavíkur aftur. Við fjölskyldan vorum þá flutt til Reykjavíkur en við reyndum að fara með honum austur eins oft og kostur var, því það var líka eina ráðið til að vera eitthvað með pabba. Synir mínir voru líka stórhrifnir af afa sínum og fengu aldrei nóg af að sitja í hjá honum. Vissulega voru líka einhverjir vöruflutningar með rútunni og ég man eftir að pabbi var stundum að reyna að velja tvinna eða garn fyrir konurnar í sveitinni eða varahluti í einhverja vél fyrir karlana.

Austurleið stækkaði og dafnaði næstu áratugina og svæðið sem þjónustað var náði alla leið austur á land. Ennfremur varð mikil uppbygging í Húsadal í Þórsmörk með daglegum ferðum yfir sumarið frá árinu 1981. Einnig var þar aragrúi af hópum.

Lokaorð

Af mörgu er að taka og lengi hægt að bæta við fróðleiksmolum. En eftir fráfall Ólafs Túbals og með hrakandi heilsu Láru konu hans verða umsvifin minni í hótelrekstri í Múlakoti. Ekki er heldur hlúð að sögufrægum garðinum eins og þurft hefði. Sú breyting hafði líka orðið í Fljótshlíðinni að margir völdu að bregða búi og flytja í þéttbýli, annað hvort á Suðurlandi eða til Reykjavíkur. Þannig fækkaði mjög fólki í Hlíðinni fríðu á þessum tíma. Jarðir voru litlar og voru nú nytjaðar af nágrannabýlum. Með fólksfækkun fylgdu færri áætlunarferðir rútunnar og Múlakot var ekki lengur endastöð heldur Hvolsvöllur sem var orðinn góður þjónustukjarni fyrir héraðið. Fleiri og fleiri áttu eigin bíla og hópbílum fjölgaði. Þetta er þróun sem orðið hefur um allt land. En saga Múlakots er merk og mun vonandi lifa áfram.