Saga bæjarins

Húsakynni

Húsakynni í Múlakoti eru byggð í mörgum áföngum, en í stórum dráttum má skipta þeim í þrennt, íbúðarhúsið frá 1897, veitingahúsið frá 1928 og gistihúsið frá 1946.

Guðbjörg og Túbal tóku við búi í Múlakoti árið 1897. Í grein hennar um garðinn í Múlakoti kemur fram að baðstofan hafi þá verið að falli komin og því hafi þau rifið allan bæinn um  haustið og sett upp timburhús.

Íbúðarhúsið

Í riti Þorvaldar Thoroddsen um jarðskjálfta á Suðurlandi sést að í skjálftanum mikla í ágústlok 1896 skemmdust bæjarhús í Múlakoti verulega, eitt bæjarhúsa gjörféll, en 6 voru mjög skemmd. Því var brýnt að hýsa bæinn að nýju. Það voru hæg heimatökin að fá góðan trésmið. Eyjólfur Þorleifsson, bróðir Guðbjargar, hafði flust með dóttur sína aftur heim í föðurhús, þegar kona hans lést nokkrum árum áður. Eyjólfur var flinkur trésmiður og útskurðarmaður og íbúðarhúsið, sem reis á haustdögum, bar handbragði hans fagurt vitni.

Húsið var aðeins um 40 femetrar að grunnfleti, að viðbættri skúrbyggingu (Múlakot í Fljótshlíð Áætlun um viðhald bls.2-5). Í austurenda hennar var þiljað af lítið herbergi, sem var gjarnan kallað eftir íbúanum; Soffu herbergi, Túbals herbergi, Nínu herbergi. Í risinu var svo örlítil skonsa, sem stundum var kölluð kaupakonukompan.

Heimilisfólkið var 8-10 manns, fullorðnir og börn, og gestagangur mikill.

Veitingahúsið

Sumarið 1927 hófst rafvæðing Múlakotsbæjanna og ákveðið var að byggja sérstakt veitingahús. Þvílíkar framkvæmdir kosta sitt og um 10 ár voru síðan tekið var lán vegna jarðarkaupanna sem ekki var búið að greiða upp. Gera þurfti sérstaka úttekt á jörðinni og byggingum áður en lánið var veitt í janúar 1928.

Yfirsmiður er talinn hafa verið Guðmundur Þórðarson frá Lambalæk (sjá Múlakot í Fljótshlíð Áætlun um viðhald bls 6-7). Matsalurinn sem er panelklæddur í hólf og gólf heldur enn sínu fallega yfirbragði. Eins og herbergjaskipan er nú háttað gætu 20-30 manns borðað þar samtímis, en grunnflötur veitingahússins er alls um 60 fermetrar. Á loftinu voru síðan tvö gistiherbergi. Til er skrá yfir útlagðan kostnað við húsbygginguna, sem Ólafur færði, skemmtileg aflestrar, en óvíst er hvort hún sé tæmandi. Vestan við veitingahúsið var byggð 60 rúmmetra safnþró árið 1937. Í tengslum við hana var veglegur útikamar, sem gat rúmað fleiri en einn.

Gistihúsið

Eftir heimstyrjöldina síðari ríkti bjartsýni meðal íslensku þjóðarinnar og sú bjartsýni náði til heimafólks í Múlakoti. Ólafur hafði tekið við búsforráðum af foreldrum sínum árið 1935, en naut aðstoðar þeirra meðan þau lifðu. Nú skyldi vera unnt að taka við vaxandi ferðamannastraumi og stækka gistirýmið, þannig að unnt væri að hýsa með góðu móti a.m.k. 20 næturgesti (Sjá Múlakot i Fljótshlíð Áætlun um viðhald bls.8-9).

Fjármögnun var ekki einföld, nú var leitað á náðir Alþingis. Ingólfur Jónsson á Hellu var þingmaður Rangæinga. Við gerð fjárlaga fyrir árið 1946 bar hann fram tillögu um að Alþingi legði fram 30 þúsund sem styrk til byggingar gistihúss, en reikna mætti með að heildarkostnaður húsbyggingarinnar væri a.m.k. 150 þúsund krónur. Eftir nokkrar umræður var samþykktur styrkur sem nam kr. 20.000.- Eins fékkst 10.000.- kr. styrkur frá vegamála-, póst- og símamálastjórum(Sjá Mannlíf í Múlakoti bls 41-42).

 Húsið, sem var að grunnfleti 65 fermetrar, reis. Á hæðinni voru þrjú gestaherbergi, skrifstofa og setustofa gesta. Á efri hæð voru tvö eins manns herbergi, tvö tveggja manna og eitt stórt fjölskylduherbergi, sem á síðari árum hefur hlotið nafnið forsetasvítan. Snyrtingar með vatnssalerni voru á báðum hæðum. Á byggingartíma hússins var erfitt um vik með öflun byggingarefnis og húsið ber það með sér.