Jónína Böðvarsdóttir fæddist 14.(15.) 4. 1881 og lést 22.12.1969.
Faðir hennar var Böðvar Jónsson f. 13.9.1853 d. 22.4. 1925. Samkvæmt manntalsbókum var hann í Giljum, Stórólfshvolssókn 1860, vinnumaður á Neðri-Þverá, Teigssókn 1880 og vinnumaður á Teigi, Fljótshlíðarhr. 1910.
Móðir Jónínu var fædd 1849 og er skráð niðursetningur í Nikulásarhúsi Teigssókn 1860. Vinnukona á sama stað 1870, en vinnukona á Nikulásarhúshjáleigu 1880.
Jónína ólst upp hjá foreldrum sínum til 6 ára aldurs þegar móðir hennar lést en fór þá í fóstur til hjónanna Höllu Jónsdóttur og Bárðar Sigurðssonar Stóra-Kollabæ. Á unglingsárum fluttist hún með dóttur Kollabæjarhjóna og hennar manni að Miðfelli í Hrunamannahreppi og var þar hjá þeim í tvö ár og síðan tvo ár á Galtafelli. Á efri árum minntist Jónína dvalarinnar á Galtafelli sem sælasta tíma ævinnar.
Jónína, sem alltaf var kölluð Nína, fluttist svo aftur á sínar æskuslóðir þegar hún gerðist vinnukona í Múlakoti vesturbæ. Þar dvaldist hún frá 1906 til dánardags 1969 eða liðlega 50 ár. Henni voru veitt vinnuhjúaverðlaun Búnaðarfélags Íslands fyrir langa og dygga þjónustu hjá Múlakotsfjölskyldunni. Nínu er af öllum borin einstaklega vel sagan. Hún var söngvin og létt í lund og öll börn hændust að henni. Hún var sívinnandi og taldi ekkert eftir sér hvort heldur voru þvottar eða umönnunarstörf. Guðbjörgu í Múlakoti annaðist hún sem besta hjúkrunarkona í veikindum hennar og Láru, konu Ólafs, var hún ómetanleg vinkona og hjálparhella.
Nína átti sinn vinnustað við vaskinn í eldhúsinu í Múlakoti. Þar sat hún mikinn hluta dagsins og þvoði upp. Á efri árum var mjög hölt en átti samt hvorki staf né hækju til að styðja sig við. Hún tók að sér þvottana en átti efalaust mjög erfitt með þá. Hún var samviskusöm og vann mikið í Múlakoti.
Hún var mjög góð systrunum Lillý og Fjólu og gaf þeim alltaf fallegar jólagjafir af sínum fáu krónum.
Þegar Soffía Gísladóttir kom í Múlakot á öðru ári svaf hún uppí hjá Nínu í baðstofunni. Það var alla tíð mjög kært með þeim. Börn Soffíu fengu líka jólagjafir frá Nínu. Hún vildi alla gleðja, sérstaklega börnin. Flestir litu á Nínu sem eina af fjölskyldunni í Múlakoti þótt hún væri ekki skyld þeim.
Hún átti góða vinkonu, Katrínu í Háamúla og þar dvaldi Nína oft þegar Lára fór i ,,orlofsferðir” til Reykjavíkur.