1940-1960
Hér vil ég sýna hluta af skemmtilegri frásögn sem Guðni Gíslason, Krossi í Landeyjum skrifaði og nefndi Ferð í Múlakot. Þessi svipmynd birtist í Tímanum þann 4. september 1947, bls. 2.
„Neðst í Hlíðinni eru hin fögru Núpstún, en svo hillir undir Breiðabólstað, og blasir þar við kirkjan og önnur vegleg hús. Staður þessi minnir okkur á þá mörgu merkispresta, er þar hafa verið á liðnum öldum og allt fram á þennan dag. Svo brunum við fram hjá ökrum og kornhlöðum Klemenzar á Sámsstöðum. Einhver spyr: hvaða bæir komi þar næstir. Það er Grjótá, þar sem Þráinn gisti forðum, og þar austan við nafnkunnan sögustað, Hlíðarenda, og þar innan við sér bæ þann, sem minnir okkur á skáldið góða, Þorstein Erlingsson. Það er Hlíðarendakot og í hugann flýgur kvæðið: „Fyrr var oft í koti kátt“, o.s.frv. -Þorsteinn er horfinn, en perlur hans glitra meðal þjóðarinnar.
Og brátt komum við að Múlakoti og garðinum fagra. Þegar bifreiðin okkar nemur staðar á hlaðinu í skjóli blómskrýddra trjánna, var sem þau kinkuðu kolli til okkar, er krónur þeirra bifuðust í hægum austanblænum. Brátt hittum við Guðbjörgu Þorleifsdóttur, konuna sem gert hefur garðinn frægan. Hún er glöð í anda og létt í spori, er hún sinnir gestum sínum. Og í raun réttri eru allir að finna Guðbjörgu, -er þeir koma til að skoða garðinn hennar. Þennan dag voru þarna allmargar bifreiðar hvaðanæva að. Ég taldi þarna milli 10 og 20 bifreiðar á bifreiðarstæðinu. Bifreiðarnar komu og fóru, og allur þessi gestaskari virtist koma til að skoða garðinn. En þarna var enginn dyravörður, sem krefst aðgöngueyris, en þess í stað kemur á móti okkur roskin en broshýr og skarpleit kona, sem leiðbeinir okkur um garðinn, og vonbráðar komum við að litlu en snotru húsi. Guðbjörg lýkur upp hurðinni og býður okkur inn. Þar er borð á miðju gólfi, skreytt blómum og sinn legubekkurinn til hvorrar handar, báðir klæddir heimaunnum áklæðum, er tala sínu máli um vinnubrögð Guðbjargar í þeirri grein. Í þessu húsi sefur hún á sumrin. Þarna er einkar vistlegt, og þar er blómailmur, en það merkilegasta sem þarna sést er það að upp úr gólfinu vex beinvaxin hrísla, sem breiðir lim sitt upp undir loftið. Það er eins og skógarhríslurnar elti Guðbjörgu – megi ekki af henni sjá. Þetta tré er eins og vörður við dyrnar, en það hefur lært það af fóstru sinni að veita ókeypis inngang. Mig minnir að Guðbjörg segði okkur, að þessi beinvaxna „dama“ væri 18 ára gömul. Bezt gæti ég trúað, að flestir – ef ekki allir – sem inn koma gefi henni hýrt auga, því hún er prúð og kemur til dyranna eins og hún er klædd, en það er oft bezta skartið, þegar innrætið er göfugt.“
Þórður Helgason flutti erindi af sinni alkunnu snilld á Ljósakvöldi í Múlakoti sumarið 2017 og birti ég hér brot;
„Múlakot var auðvitað sjálfsagður viðkomustaður á ferðum okkar strákanna. Það er nánast ógleymanlegt hvernig Lára tók á móti okkur, leiddi okkur eins og þjóðhöfðingja inn í hús og trakteraði okkur á appelsíni og öðru góðgæti. Þannig tók hún á móti öllum hefur mér skilist. Áður en við riðum úr hlaði keyptum við okkur Tópas í vesturglugganum og ef menn halda að Tópas sé bara Tópas er það alrangt. Það Tópas, sem þær Lilja eða Fjóla réttu okkur út um vesturgluggann, var bara allt annað og gómsætara en sú vara undir sama nafni sem ég hef síðan bragðað.
Einn góðan veðurdag lagði ungur bóndasonur leið sína í Múlakot í byrjun júní. Er heim kom mátti hann varla mæla, var meira og minna úti á þekju og lítt hæfur til útiverka, en gekk um í eins konar leiðslu. Og brátt spurðust tíðindin út og ferðum ungra manna í Múlakot fjölgaði. Í kaupfélaginu seldust upp á svipstundu ársbirgðir af brilliantíni, tannkremi, tannburstum og hárgreiðum og mælt er að kaupfélagsstjórinn hafi íhugað að selja Old Spice-rakspíra í mjólkurbrúsum. Ungir menn réttu úr bakinu og lögðu af gangtegundina þúfnagang og fengu nýtt og djarfmannlegt blik í augun, bónuðu gamla Willisa, fengu sér stælföt, settu héraðsmet í stökkum, spretthlaupum og pokahlaupi.
Öllu þessu ollu tvær kaupakonur sem komu vorið 1959 að Múlakoti, undurfagrar eins og gyðjur, þær Jónína og Ingibjörg. Sumir telja að þetta sumar hafi ís og snjór á Eyjafjallajökli tekið að hörfa og eru fá dæmi slíkarar útgeislunar kvenna að jöklar bráðni.“