Ábúendur

 

Jörðin Múlakot, eignarhald og ábúendur

Múlakot er eitt af 8 afbýlum úr landnámsjörðinni Eyvindarmúla, sem getið er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín árið 1710. Jörðin var þá þegar tvíbýlisjörð.

Á 19. öld átti sr. Stefán Thorarensen frá Hlíðarenda Múlakot. 1869 urðu ábúendur í Múlakoti – vesturbæ hjónin Þorleifur Eyjólfsson (f. 11.7. 1831 d. 25.6. 1887) og Þuríður Jónsdóttir f. 15.12. 1832 d. 19.10. 1908). Þá áttu þau synina Ólaf ( dó um tvítugt) og Eyjólf. Þorleifur átti ættir í Fljótshlíðina en Þuríður var úr Mýrdal. Dóttirin Guðbjörg Aðalheiður fæddist  27.júlí 1870 í Múlakoti. Eftir lát Þorleifs var Þuríður ábúandi. Guðbjörg giftist Túbal Karli Magnúsi Magnússyni (f. 31.12. 1867 d. 9.5. 1946).  Þau tóku við ábúð 1897 og keyptu jörðina árið 1916 af dánarbúi sr. Stefáns og konu hans. Túbal og Guðbjörg voru bræðrabörn.

Börn Guðbjargar og Túbals voru þrjár dætur og einn sonur .  Ólafur (f. 13.7.1897 d. 27.4. 1964) og Lára Eyjólfsdóttir (f. 1.4. 1902 d. 24.9. 1984) kona hans tóku við búi 1935. Þau eignuðust 3 börn. Ólafur lést 1964 en Lára bjó áfram til dánardags 1984 með liðstyrk Reynis, sem bjó í Múlakoti uns hann lést árið 2000.

Reynir og Fjóla seldu Stefáni Guðbergssyni og Sigríði Hjartar Múlakot. Þau fengu jörðina afhenta í árslok árið 2000.