Reynir Ólafsson

Reynir Ólafsson

Þegar rætt er um mannlíf í Múlakoti fortíðarinnar  verður að gera honum Reyni sæmileg skil. Hans hlutur var nefnilega ekki smár þann tíma sem hann var og hét. Og það var æði langur tími. Hann fæddist í Múlakoti 11. júní 1925 og þar ól hann svo til allan sinn aldur. Síðustu misserin hafði hann samt vistað sig á Kirkjuhvoli, dvalarheimili aldraðra í Hvolsvelli. Hann kvaddi lífið 29. júní 2000 á Sjúkrahúsinu á Selfossi. Þegar Reynir var að vaxa upp var „stórheimili“ í Múlakoti. Þar bjuggu saman þrír ættliðir. Það var nokkuð algengt fyrirkomulag í þá tíð. Foreldrar hans, Ólafur og Lára, héldu þar heimili með foreldrum Ólafs en tóku svo við búskapnum í fyllingu tímans. Þá hefur Reynir líklega verið orðinn tíu ára. Hann varð snemma hændur að afa sínum, Túbal, og hefur farið að fylgjast með honum í verkum. Faðir hans stundaði lítt eða ekki bústörf, svo ekki hefur verið um að ræða mikið samstarf hjá þeim, enda voru þeir nú alltaf nokkuð sitt á hvorum pól. En það var líka alltaf eitthvað af vinnufólki og alltaf mikill gestagangur svo hann ólst ekki upp í neinu fásinni enda varð hann djarfur við ókunnuga og nokkuð laus við feimni. Í Múlakoti eins og annarsstaðar til sveita fækkaði fólki þegar kom fram á fimmta áratuginn svo bústörfin lentu nokkuð sjálfkrafa á herðum Reynis. Þá var ekki orðið öðrum að ýta. Ekki verður lagður dómur á hvort það hafi hentað honum. Hitt er víst að hann hafði ósköp litla ánægju af störfum sínum, nema hann hafði gaman af kindum. Þegar hann var kominn í fjárrag var hann fjári handtakagóður, allt að því kappsamur, en við önnur störf sýndi hann mikil rólegheit. Hann stundaði mjög heimsóknir á aðra bæ og leit á alla sem stórvini sína enda var hann allstaðar auðfúsugestur. Hann hafði líka þægilega nærveru, var fjarskalega greiðvikinn og sérlega umtalsfrómur. Framanaf ferðaðist hann sem aðrir á hestum en eftir að faðir hans fékk jeppabifreið, á öndverðu ári 1947 gerðist hann bílstjóri  og fór nú allra sinna ferða á bíl. Átti hann um það er lauk að baki langan og farsælan bílstjóraferil þó ökunámið hafi verið í knappara lagi. En það var nú ekkert einsdæmi í þá daga. Eina tilraun gerði Reynir til að vinna annarsstaðar en í Múlakoti. Það var um haustið 1949 sem hann var ráðinn til Kaupfélagsins á Hellu. Þar var hann settur i útkeyrslu á vörum og fór vítt og breitt um héraðið á vörubíl. Ráðningartíminn var einungis tveir mánuðir svo ekki varð um lengri vinnu að ræða. Þetta var í minningunni skemmtilegur tími sem hann hafði alltaf gaman að rifja upp. Líklegt er að hann hafi viljað vera lengur en ráðningartíminn var ekki lengri svo hann hvarf aftur til bústarfanna. Pabbi hans mátti teljast framkvæmdastjóri búskaparins meðan hans naut við en hann féll frá 1964. Þá hafði ýmsu verið breytt til bóta. Þá urðu mótorvélar ráðandi í búskapnum og keyptar voru dráttarvélar og tæki þeim tilheyrandi. Sú þróun hélt áfram eftir að Reynir var orðinn einráður. Hann var alltaf töluverður tækjakall og vildi fylgjast með nýjungum. Honum veitti heldur ekki af því. Hann var orðinn einn í verkum nema hann hafði lengst af unglinga til að hjálpa sér á sumrin. En fólkinu fækkaði hægt og bítandi, við því var ekkert að gera. Þegar systur hans, sem voru öryrkjar, hurfu til Reykjavíkur voru ekki eftir í Múlakoti nema Reynir og mamma hans. Þegar hana þraut heilsu dvaldi hún um tíma á sjúkrahúsi þar til hún féll frá 1984. Þá var Reynir orðinn einn í kotinu og við það mátti hann búa þar til að hann lagði niður búskap og fór á elliheimilið. Reyndar gerði hann tilraun að búa með ráðskonu en það gekk ekki sem skyldi svo hann reyndi það ekki aftur. Þó hann væri einbúi á annan áratug átti það í raun illa við hann. Líklega var hann ekki laus við myrkfælni og innanhúsverk létu honum ekki vel. En þetta lét hann sig hafa og aldrei heyrðist hann kvarta. Hann gat borið sig illa ef fékk einhverja minniháttar kvilla en allt sem meira var þagði hann í hel.

Þannig leið ævin hans Reynis. Hann komst í gegnum lífið án þess að vera mikið upp á samfélagið kominn. Hann var lengst af miklu frekar veitandi en þiggjandi. Hann barst aldrei mikið á og var ekki þurftafrekur. Hann mátti teljast hófsmaður, reykti nokkuð á yngri árum en lagði það niður í tíma. Eitthvað lítilsháttar skvetti hann í sig á yngri árum, en var víst drýgri við að stríða sínu heimafólki með því að þykjast vera fullur. Sagan segir að honum hafi tekist nokkuð vel upp í því. Hann lifði umbrotatíma og var þátttakandi í mikilli þróun sem undir það síðasta varð honum ekki hagstæð. Því virtist hann taka sem sjálfsögðum hlut enda var hann enginn umbrotamaður. En samt tókst honum alla tíð að setja svip sinn á samfélagið. Hann var einstakur, hann var nefnilega alltaf hann sjálfur.

Daði Sigurðsson Barkarstöðum