Soffía Gísladóttir

 

Soffía Gísladóttir fæddist í Vestmannaeyjum 31. desember 1915.

Móðir hennar var Guðleif Kristjánsdóttir f. 13.október 1886 dáin 22. Janúar 1917.

Foreldrar hennar voru Kristján Fídelíus Jónsson og Bóel Erlendsdóttur í Auraseli í Fljótshlíð.

Faðir hennar var Gísli Þórðarson f. 5. desember 1877, dáinn 7. nóvember 1943.  Foreldrar hans voru Þórður Ívarsson og Sigríður Gunnlaugsdóttir frá Ormskoti í Fljótshlíð.

Guðleif, móðir Soffíu missti yngsta barnið, Ástu, í fæðingu og í kjölfarið fékk Guðleif mislinga og lést rúmlega 30 ára frá manni og 6 börnum.

Gísli varð að taka þá erfiðu ákvörðun að sigla með hópinn sinn upp í Landeyjasand og koma þeim fyrir á bæjum þar sem hann þekkti til en Kristján Belló fékk að fylgja föður sínum.

Soffía sem var á öðru ári, og Haraldur sem var 10 ára fóru að Múlakoti í Fljótshlíð. Var bæði skyldleiki við Guðleifu móður þeirra og mikill vinskapur. Var Soffía m.a. skírð í höfuðið á Soffíu Túbals.

Fjölskyldan í Múlakoti varð þarna fjölskylda Soffíu. Guðbjörgu og Túbal urðu mamma og pabbi og systkinin, sem öll voru talsvert eldri, urðu systkini hennar.

Hún hafði lítið sem ekkert samband við blóðsystkini sín fyrr en hún var orðin fullorðin. Pabbi hennar kom einstaka sinnum í heimsókn en hún var alltaf feimin við hann og kynntist honum lítið fyrr en seinna.

Henni leið mjög vel í Múlakoti, þetta var skemmtilegt heimili og alltaf mikið um að vera.  Hún talaði oft um hve heppin hún hafi verið að lenda þarna og eignast þessa góðu fjölskyldu.

Í Múlakot ræður sig ungur maður í vinnu, Jón Ingi Jónsson, ættaður frá Dufþaksholti í Hvolhreppi.  Þau Soffía giftu sig 1939 og fluttu til Vestmannaeyja og byrjuði sinn búskap þar. Þau eignuðust þar  2 börn, Þröst f. 1940 og Hrefnu f. 1945. Á sumrin fóru þau alltaf heim og unnu bæði við skógræktina i Múlakoti og á Tumastöðum sem var þá að byrja.

Árið 1946 ákváðu þau svo að flytja upp á land, eins og sagt var, og fengu bæði húsnæði  og vinnu á Tumastöðum, hann við skógræktina en hún ráðskona.

Árið 1950 tóku þau svo stóra ákvörðun, að gerast bændur. Þau tóku á leigu jörðina Fljótsdal, innsta bæinn í Fljótshlíðinni, sem hafði verið í eyði síðan í Heklugosinu 1947 og byrjuðu þar sinn búskap. Þau voru leyst út með gjöfum frá Múlakoti, bæði austur og vesturbæ. Voru það kýr, kindur og hestur.

Fjölskyldan átti þarna mjög góð ár. Í Fljótsdal er einstök náttúrufegurð og þaðan var afi Soffíu líka ættaður.

Þau vildu kaupa jörðina en það gekk ekki eftir. Þá bentu hjónin á Efri Þverá,  Ágústa fóstursystir hennar og Hjörleifur maður hennar, þeim á  að jörðin Deild væri laus til ábúðar en það var næsti bær við Efri Þverá.

Þetta var gæfuspor, þarna bjuggu þau í 35 ár í nágrenni við yndisleg fólk, bæði fyrir austan og vestan. Þetta var einnig þægilegra vegna barnanna sem gátu nú tekið mjólkurbílinn í skólann en þeim hafði verið komið fyrir í Múlakoti á meðan þau bjuggu í Fljótsdal því það fór hvorki skólabíll né mjólkurbíll þangað.

Í Deild voru hjá þeim mörg sumarbörn sem héldu sambandi við þau á meðan þau lifðu.

Árið 1989 hættu þau búskap og keyptu sér hús á Hvolsvelli. Þar leið þeim vel.

Jón Ingi lést 1996 og var hún þá orðin ein í húsinu. Hún áttu samt góða vini í götunni sem fylgdust með henni og hún gat hitt daglega.

Hún fékk pláss á Ljósheimum á Selfossi þegar heilsan var farin að gefa sig og þar lést hún 14. september 2003.