Systurnar Lilja og Fjóla

 

Guðbjörg Lilja Ólafsdóttir var fædd í Múlakoti 20. ágúst 1928 Lést á Kópavogshæli 25. Júlí 1976.

Guðný Fjóla Ólafsdóttir var fædd í Múlakoti 1. janúar 1931 Lést á Landsspítalanum 30.maí 2005

 

Systurnar frá Múlakoti voru við fæðingu með þroskahömlun.

Þær ólust upp í Múlakoti við mikið ástríki foreldra, bróður, ættingja og vina enda mannmargt á heimilinu og mjög gestkvæmt.

Guðbjörg Lilja, alltaf kölluð Lillý, var mjög félagslynd og naut sín innan um gestina á meðan Guðný Fjóla, alltaf kölluð Fjóla, hélt sig til hlés og átti sinn stað í baðstofunni þar sem þær systur sváfu. Hún lék sér þar með dótið sitt , dúkkur og dúkkulísur og spil. Hún var samt glöð að fá einhvern í heimsókn til sín til að leika við sig. Ef enginn var til staðar bjó hún sér til sinn eigin heim með vinum sem voru að spila eða leika við hana. Henni leiddist aldrei.

Það var hreint ævintýri fyrir litla sveitastúlku að koma í baðstofuna og leika með dót þeirra systra.

Lillý var dugleg að hjálpa til á heimilinu. Hún bar á borð fyrir gesti ef vinnustúlkur voru ekki komnar. Hún afgreiddi stundum í sjoppunni en var duglegust við að þrífa til í garðinum, sérstaklega á vorin.

Þær systur voru mjög mannglöggar, þekktu gesti  með nöfnum ef þær voru einu sinni búnar að hitta þá.

Þær lærðu báðar að lesa og skrifa, foreldrarnir sáu til þess að þær fengju leiðsögn. Lillý lauk barnaskólaprófi i Barnaskóla Fljótshlíðar.

Einu sinni til tvisvar á ári fór Lára móðir þeirra í orlofsferð til Reykjavíkur, eins og það var kallað. Hún fór að heimsækja ættingja, fara í leikhús og til augnlæknis. Lillý fór alltaf með henni enda naut hún þess að vera í sviðsljósinu, hvort sem var heima eða að heiman.

Fjóla fór alltaf til mömmu minnar, Soffíu í Deild, Þar undi hún sér vel og spilaði Ólsen Ólsen við pabba. Fjóla var mjög jafnlynd og glöð og líktist mömmu sinni í skapferli.

Þær systur höfðu mikinn áhuga á tónlist, Lillý spilaði á orgel og gítar og Fjóla spilaði á harmonikku og orgel. Það var oft mjög kátt í vesturstofunni þegar þær sungu og spiluðu og þær áttu auðvelt með að læra texta.

Þær settu stundum upp leiksýningar, sérstaklega ef þær voru nýbúnar að fara á leiksýningu á Goðalandi. Pabbi þeirra tók oft þátt í þeim og þær fengu hjá honum handrit.  Það var oft kátt í Múlakoti.

  1. ágúst var afmælisdagur Lillýjar, þá var alltaf haldin stór veisla, ljósin komin í garðinn og setið þar og borðuð afmæliskaka.

Lillý söng með Kirkjukór Fljótshlíðar í mörg ár.

Ólafur deyr 1964 og þá er Lára orðin ein með börnin sín. Hún veikist svo skyndilega 1973 og var talið að þetta væri mjög alvarlegt, jafnvel berklar, sem það reyndist þó ekki vera.

Þá var fengið pláss fyrir þær systur á Kópavogshæli, þær fengu inni á deild 20 sem var eingöngu ætluð fyrir ung börn. Þarna leið þeim vel, yndislegt starfsfólk og þær fengu að hjálpa til með litlu börnin sem þeim þótti svo vænt um. Þarna fengu þær hlutverk.

Lillý hafði verið skorin upp við krabbameini nokkrum árum áður og var talið að hún væri komin yfir veikindin. Krabbinn tók sig hinsvegar upp og hún lést á Kópavogshæli 1976.

Þá var Fjóla orðin ein en naut sín samt.

Nokkrum árum síðar, uppúr 1980, er stofnað sambýli í Drekavogi 16 og fékk Fjóla þar inni. Þarna fékk hún herbergi fyrir sig eignaðist marga vini fyrir lífstíð, heimilisfólk og starfsfólk.

Á meðan Lára lifði og bjó í Múlakoti fór Fjóla alltaf í sumarfrí austur og nutu þær þess mæðgurnar að fá vera saman. Lára vissi að henni leið vel í Drekavogi og  samgladdist henni að fá að fara í tvær utanlandsferðir með heimilsfólkinu og margar ferðir innanlands. Var þá alltaf komið við í Múlakoti og í Deild. Seinna var komið til foreldra minna í Litlagerðið á Hvolsvelli eftir að þau fluttu þangað og Lára var látin.

Seinna var stofnað sjúkraheimili fyrir fatlaða í Viðarrima 42. Þangað fór Fjóla ásamt fleiri vistmönnum úr Drekavogi. Þar bjó hún sín síðustu árin.

Eftir að Lára féll frá fór Fjóla í sumarvistun hjá yndislegum hjónum, Lilju og Símoni, en þá var Fjóla komin í hjólastól og þurfti mikla aðhlynningu.

Meðan Fjóla hafði heilsu til, kom hún alltaf í barnaafmæli til mín. Það var svo skemmtilegt að sjá hve hún naut þess að leika við börnin og þau við hana.

Fjóla lést 2005.

Það voru forréttindi að vera frænka þeirra systra og í rauninni að alast upp með þeim.

það eru margir sem minnast þeirra með hlýju og söknuði.

Hrefna