Vigdís Eyjólfsdóttir (1893-1977)

 

Vigdís Eyleif Eyjólfsdóttir

Fædd 26. ágúst 1893, dáin 3. maí 1977.

Fædd að Snjallsteinshöfðahjáleigu  í Rangárvallasýslu. Foreldrar hennar voru  hjónin  Guðrún Einarsdóttir frá Geldingarlæk og Eyjólfur Þorleifsson, smiður, frá Múlakoti í Fljótshlíð. Í manntali 1890 eru Eyjólfur og Guðrún búsett í Gunnarsholti.

Guðrún (1849-1894) móðir Vigdísar var dóttir Vigdísar Jónsdóttur (1815-1894) og Einars Guðmundssonar (1820-1861) er bjuggu í Geldingalæk vestri á Rangárvöllum. Einar drukknaði 1861, honum er lýst sem ljúfmenni, stilltum og nærgætnum. Vigdís og Einar eignuðust 8 börn og dóu fjögur þeirra fyrir fertugt. Önnur dóttir þeirra, Þuríður Einarsdóttir, var móðir Einars Jónssonar, alþingismanns til 16 ára, hann drukknaði einnig.

Eyjólfur (1863-1919)  faðir Vigdísar var flinkur trésmiður, útskurðarmaður og bóndi, sonur Þuríðar Jónsdóttur (1832-1908) og Þorleifs Eyjólfssonar (1831-1887) bónda og silfursmiðs í Múlakoti. Af 10 börnum foreldra Þorleifs, þ.e. Eyjólfs (Eyúlfs) og Guðrúnar í Fljótsdal náðu fimm þeirra fullorðinsaldri. Það voru Þuríður, Oddur, Guðbjörg, Magnús og Þorleifur. Guðbjörg Eyjólfsdóttir systir Þorleifs bjó í Fljótsdal. Eftirmæli um hana eru þau að hún var búkona góð, orðlögð fyrir fagran og vandaðan ullariðnað og hannyrðir, listgefin og hugvitssöm og unni öllu fögru.

Magnús bróðir Þorleifs var faðir Túbals. Guðbjörg Þorleifsdóttir, föðursystir Vigdísar Eyjólfsdóttur, ábúandi í Múlakoti og Túbal Karl Magnús Magnússon, eiginmaður hennar voru  því bræðrabörn.

Um Þuríði og Þorleif, foreldra Eyjólfs, eru rituð eftirfarandi eftirmæli sem hanga í Hlíðarendakirkju: „Þau áttu 7 börn, en aðeins tvö lifa móður sína. Hún varð ekkja 25. júní  1887. Hún bjó eftir það 9 ár og uppfóstraði 2 munaðarlaus börn. Hún brá búi  1896 vegna veikinda og var síðan hjá dóttur sinni. Hún andaðist 19. okt. 1908. Hún var hjartfólgin hugprúðum maka; braut á blessunar börn sín leiddi; heimilisins sól; hjálpfús og ör; sig á Guðs vald gaf í gleði og þrautum.“

Af börnum Þuríðar og Þorleifs komust tvö komust til fullorðinsára eins og sagði í áðurnefndum eftirmælum, Eyjólfur og yngri systir hans Guðbjörg Aðalheiður.

Eyjólfur Þorleifsson og Guðrún Einarsdóttir giftu sig 17. júlí 1892 og hófu búskap í Snjallsteinshöfðahjáleigu. Þau eignuðust eina dóttur, Vigdísi Eyleifi, sem fæddist 26. ágúst 1893, en Guðrún móðir hennar var orðin 44 ára er hún eignaðist hana.  Guðrún lést þremur dögum fyrir eins árs afmæli Vigdísar dóttur sinnar og jafnframt hafði móðuramma  Vigdísar og nafna, húsfreyjan í Gunnarsholti,  dáið, hálfu ári áður.  Einar faðir Guðrúnar hafði drukknað 41 árs, 31 ári áður.

Eyjólfur stóð því uppi sem ekkill 31 árs (hann var töluvert yngri en eiginkonan), með eins árs gamla dóttur sína og augastein. Hann brá búi í Snjallsteinshöfðahjáleigu og flutti heim til Þuríðar móður sinnar (sem þá var 62 ára)  í Múlakot með dóttur sína. Vigdís ólst upp í skjóli föðurömmu sinnar Þuríðar Jónsdóttur og fékk að kalla hana mömmu.

Vigdís (1815-1894) móðuramma  hennar og Þuríður (1832-1908) föðuramma hennar voru samfeðra og voru því hjónin Guðrún og Eyjólfur náskyld, eða börn hálfsystra. Faðir þeirra var Jón Jónsson frá Skíðabakka í Landeyjum, bóndi alla ævi í Kaldrananesi, Reynissókn.

Vigdís var orðin 15 ára þegar Þuríður amma hennar dó. Hún átti góða og glaða bernsku og var alin upp við leik og störf í Múlakoti með frændsystkinum sínum, börnum Guðbjargar föðursystur sinnar og Túbals Karls Magnúsar Magnússonar manns hennar. Þau voru í aldursröð Guðbjörg Lilja, Ólafur Karl Óskar, Þuríður Soffía og Ragnheiður Ágústa.  Múlakot var rómað fyrir myndarskap og þar var fyrsta skrúðgarðinum utan Reykjavíkur komið á fót 1897; stóð Guðbjörg Þorleifsdóttir fyrir því.

Nokkru eftir að amma hennar dó sendi Eyjólfur Vigdísi dóttur sína í læri að Odda á Rangárvöllum, en prestssetrið og menntasetrið þar þótti góður skóli fyrir ungar heimasætur. Í manntalinu 1910 er Vigdís skráð til heimilis í Odda og titluð námsstúlka, ein af níu námsstúlkum það árið. Frá Odda fór hún að prestssetrinu Holti undir Eyjafjöllum til séra Kjartans Lárussonar og konu hans, til að nema hannyrðir og sauma.