Ávarp Margrétar Ísleifsdóttur

Minningar frá Múlakoti

Það er gaman að fá að vera með ykkur hérna í dag í fæðingarsveit minni. Ég óska ykkur innilega til hamingju með það að standa að uppbyggingu  gamla bæjarins í Múlakoti og ekki spillir fyrir að hæfismenn eru þar að verki. Þegar hún Sigríður Hjartar bað mig um að segja eitthvað frá kynnum mínum af Múlakoti fann ég til vanmáttar en þegar ég er vel beðin þá á ég erfitt með að neita. Mínar fyrstu minningar um Múlakot eru ljósin í garðinum hennar Guðbjargar sem sáust svo vel frá Miðkoti mér sýndist þetta vera ævintýraheimur. Milli foreldra minna og systkinanna í Múlakoti, Lilju og Ólafs var þvílík tryggð að ég hef ekki öðru eins kynnst og ég naut alltaf góðs af. Þegar ég fór sjálf að búa á Hvolsvelli þá komu þessi systkin að heimsækja mig og þau skildu alltaf eftir sólskin í sálinni þegar þau fóru. En ég ætla að segja ykkur frá því hvernig ég kynntist sjálfu heimilinu í Múlakoti. Í janúar 1941 var ég sextán ára gömul, það er orðið langt síðan, þá var ég beðin að koma að Múlakoti til að kenna dætrunum Lilju og Fjólu að lesa eða segja þeim til á öðrum sviðum. Þær voru mjög á eftir sínum jafnöldrum. Þessu boði gat ég ekki neitað og ég fer full áhuga og gleði til þessara starfa og ekki vantaði það að góðar voru móttökurnar í Múlakoti. Á heimilinu voru tvenn hjón, Túbal og Guðbjörg og Ólafur og Lára og börn þeirra þrjú, Reynir, Lilja og Fjóla. Svo var þar hún Jónína Böðvarsdóttir, hún Nína mín, sem að var eins og góður engill með opinn faðm á móti okkur öllum. Svo varð ég fljótlega eins og bara ein af þessari fjölskyldu. Þegar á fyrsta daginn leið var mér boðið til gömlu stofu sem er í huga mínum alveg dýrðarheimur þar átti ég að sofa við norðurvegginn. Í stofunni var uppbúið rúm og allur veggurinn var málverk og málverkið var Bleiksárgljúfur og mér er það aldeilis ógleymanlegt. Ég sé fyrir mér bæði í vöku og svefni, þessa mynd. Fljótlega fór ég nú að verða eitthvað daufari í dálkinn en ætlast var nú til en þá kemur Ólafur til mín og segir: „Magga komdu nú og sjáðu bókaskápinn minn, hér er fullt af bókum og þú mátt lesa allt sem þú vilt.“ Mér fannst þetta vel boðið og þetta hressti nú hugann. Svo náttúrulega verð ég að byrja að segja frá því hvernig hver dagur byrjaði. Við fengum morgunverðurinn og það var ekki að spyrja að því, það var hafragrautur, skyr og brauð og svo var það lýsið. Lýsi hafði ég aldrei getað tekið en hún Guðbjörg sem stjórnaði nú öllu best, hún náttúrlega gaf mér það ekki eftir, lýsi skyldi ég taka og lýsið fór upp í mig. Svo kom hún bara með kalt kaffi og segir mér að skella þessu í mig. Þetta gekk náttúrlega með látum fyrst en svo hlýddi ég og um það hef ég ekkert nema gott að segja. Eftir hádegi þá var það mjög venjulegt að Guðbjörg tók fram stóra röndótta trefilinn sinn og þá vissi maður alveg hvað til síns friðar heyrði þá átti að fara út og hreyfa sig. Þannig var hún langt á undan sinni samtíð eins og bara á öllum sviðum. Þessi kona sem að mér finnst hafa stjórnað öllu hún þurfti aldrei að hækka róminn en það sem hún sagði það voru lög og eftir því var farið.

Jæja svo kemur nú að kennslustundunum það var dálítið erfitt að fá systkinin til þess að fylgjast með og áhuginn var lítill og kennarinn náttúrlega ungur. Það var helst þegar þau gátu lært einhverjar vísur og gátu sungið þær þá vantaði ekki áhugann. Þær voru mjög lagvissar enda var það nú ættgengt og stundum veit ég ekki hvort voru þau meira að kenna mér, en allavega reyndi ég að gera það sem ég gat og ég var nú svo heppin að heyra það eftir að ég var farin frá Múlakoti að það hafi verið fenginn prófdómari til þess að fara yfir kennslustörfin og hann sagði: „Þeim hefur farið fram.“ Og þetta var nú gott.

Og nú langar mig að lýsa Múlakotsbænum. Fyrir utan þessa elskulegu gömlu stofu sem ég hélt nú mest upp á. Baðstofan var alveg einstaklega hlýleg, þar voru rúm sinn hvoru megin við gluggann, í öðru rúminu svaf Guðbjörg en hinu Jónína og svo voru önnur rúm aftan við þessi fyrri sem ég nefndi. En í litla herberginu bakvið baðstofuna var Túbal, þar svaf hann og var þar oftast að deginum. Hann var ekki vel frískur þennan vetur sem ég var í Múlakoti og það fór lítið fyrir honum en maður vissi samt alltaf af honum. Á rúnunum voru mjög fallegar ábreiður þær voru í sauðalitunum og þær voru ofnar af húsfreyjunni Guðbjörgu. Það var sama hvað hún gerði, það var snilldin ein. Venjuleg á daginn þá sátu þær á rúmunum sínum Guðbjörg og Jónína og þær voru ýmist að spinna á rokkana sína eða bara að prjóna, ekki var nú iðjuleysið þar á bæ. Þegar að leið á tímann þá fannst mér að við þyrftum nú eitthvað að fara að reyna að gera af viti, framfarir voru ekki miklar svo ég fór að spyrja hvort að ég gæti ekki gert eitthvað til þarfa. Jú, jú, jú ég mundi geta prjónað, já ég gat alveg prjónað. Þá var komið með þennan fína rauðbrúna lopa og ég átti að prjóna peysu á listmálarann sjálfan. Mér fannst þetta bara mikil tiltrú og tók mig til, mig minnir nú að Guðbjörg hafi fytjað upp fyrir mig en stroffið prjónaði ég og svo þegar stroffinu lauk þá kom mynstrið og það var einfalt eins og perluprjón og sléttprjón og þessi peysa var þannig að hún var með v-hálsmáli. Svo var listi hann var frekar fínn. Mig minnir að hún mamma mín hafi prjónað hann fyrir mig í prjónavél og sett þetta saman. Þetta var hin hlýlegasta flík og það gladdi mig innilega hve mörg ár listmálarinn gat verið í þessari peysu. Svo var mér nú sett annað verkefni fyrir og það var að lesa Passíusálmana á föstunni. Ég færðist nú undan en það var alveg sama hvað var, hún Guðbjörg stjórnaði því sem öðru. Ég skyldi lesa þessa sálma og það varð mér til bjargar að heima hjá mér í Miðkotinu voru ævinlega lesnir Passíusálmar og ég hálfkunni þessa sálma, svoleiðis að ég komst nú yfir þetta og í lok föstunnar fékk ég fimm krónur í gjöf frá Guðbjörgu fyrir þennan lestur. Það var í fyrsta sinni sem ég fékk borgað fyrir lestrarstörf og mér fannst nú gott að ég skyldi geta haft það.

Þegar ég hugsa um Múlakotsheimilið þá er mér það svo minnisstætt að sjá hvað þar var allt sérstakt. Þarna var alltaf fullt af gestum og hvað sem komu margir þá var svo mikil gleði yfir því og það var svo stórkostlegt að upplifa þetta.

Þegar ég var aðeins eldri þá fórum við unga fólkið í Fljótshlíðinni inn á Þórsmörk og þegar við komum ósofin að mestu (hver sefur yfir bjarta vornóttina?) við fórum á hestum yfir vötnin og allt gekk þetta vel og við komum að Múlakoti. Þar erum við drifin inn í kaffi og við vorum orðin þannig að við hlógum að öllu. Maður hélt varla kaffinu í munninum við vorum orðin svo syfjuð og galsinn svo mikill en móttökurnar eru aldeilis ógleymanlegar. Þannig gekk þetta alltaf til enda var þetta einstakt. Þegar ég svo á orðið börn og buru þá förum við hjónin þarna mjög oft og ég hef heyrt dætur mínar sérstaklega tala um það að þetta hafi verið skemmtilegar stundir. En það sem ég ætlaði að segja ykkur í sambandi við Passíusálmana að þegar það var búið að lesa sálminn að þá voru sungin svona tvö, þrjú vers og þeir stóðu fremst í því Túbal og Ólafur báðir með fjarskalega góðar raddir og mér er ógleymanleg röddin hans Túbals, hún var einstaklega falleg.

Þetta eru nú svona minningarnar en ég er svona að velta því fyrir mér hvort ég eigi að segja ykkur hérna brandara það kannski passar ekki. Þannig var að í austurbænum í Múlakoti var ungur piltur ég held að hann hafi verið tveimur árum eldri en ég og okkur fór að detta það í hug á kvöldin að spila inni í stofu og þetta gekk ágætlega þrjú kvöld við spiluðum þarna ég man ekki hvort við spiluðum Ólsen Ólsen eða  Marías og hlóum náttúrlega eins og gengur og gerist en þá kom Guðbjörg og hún sagði bara að það væri svo mikil fjósalykt af drengnum að það væri bara ekki hægt að hafa hann í húsinu ég hafði ekki fundið eina einustu fjósalykt en þar með var þessu sambandi lokið. Hvort hún hefur haldið að ég væri í einhverri hættu veit ég ekki en svona gekk þetta til. Svo kannski ætla ég að segja ykkur aðra sögu. Þannig var að Reynir minn blessaður tók nú stundum upp á ýmsu og einhvern tíma gerði hann það skammarstrik að pabbi hans verður alveg æfur og segir honum að fara til fjandans. Mér alveg krossbrá hafði bara aldrei heyrt svona orðbragð en það leið ekki löng stund þar til piltur fer og nær sér í hest og leggur hnakk á hestinn galar til mín: „Biður þú ekki að heilsa,“ „til fjandans“, segi ég, „neeei.“ Þá segir hann „hei, ég er að fara út að Miðkoti.“

Auðvitað bað ég fyrir kveðju þangað. Svo kom hann aftur seinnipart dagsins og þá var allt gleymt.

Þetta er nú bara svona í upprifjun og er náttúrlega ekkert í sögur færandi en ég ætla í lokin að lesa afmælisvísur sem hann Ólafur orti til hennar Láru, þær segja ákaflega mikið.

Til afmælisvísunnar elskan mín

ég alla hollvini kalla

og dýrðlegar perlur og djásn til þín

sem dropa úr lofti falla.

Þá bjartasta sól á brautu skín

blessi þér daga alla.

Ég þakka þér vina þetta ár

og þakka þér alla daga.

Ég veit að ég hef ekki vökvað brár

og verið þér oft til ama.

En þú kannt að gleyma og græða sár

gleðja, prýða og laga.