Ávarp Sigurðar Sigurðarsonar

Stofnfundur vinafélags Múlakots í Fljótshlíð 21.2.2015

Góðir fundarmenn!

Ég óska okkur, vinum Múlakots, til hamingju með framtak Stefáns og Sigríðar við uppbygginguna, sem hafin er í Múlakoti með tilstyrk Rangárþings eystra og Skógasafns. Þetta er undirstrikað hér í dag á Goðalandi með stofnun félags vina og stuðningsmanna. Ég geng glaður í þeirra raðir og hvet ykkur öll sem hér eruð til þess sama.

Ég var beðinn um að ávarpa ykkur sem nágranni. – Ég var 10 ára gamall haustið 1949, þegar við Skúli Jón bróðir minn, þá 11 ára gerðumst nágrannar Fljótshlíðinga. Móðir okkar, Kristín Skúladóttir flutti þá með okkur að Hemlu í Landeyjum ásamt móður sinni, Svanborgu Lýðsdóttur og gekk að eiga Ágúst Andréson ekkjumann þar. Fyrri kona hans var Ingibjörg Magnúsdóttir frá Vatnsdal í Fljótshlíð. Við áttum áður heima á Keldum á Rangárvöllum. Langafi, langafa míns, Stefán sonur Bjarna Halldórssonar og Guðríðar Eyjólfsdóttur frá Víkingslæk, bjó þar um skeið, fyrstur forfeðra minna, fyrir 250 árum en síðar á Árbæ á Rangárvöllum til 1801. Langafi minn, Guðmundur Bry jólfsson og afi, Skúli Guðmundsson, bjuggu þar 50 ár hvor. Við bræður lifum einir þeirra, sem áttu heima í gamla torfbænum á Keldum og höfum því sérstakar tilfinningar gagnvart staðnum og gömlu byggingunum.

Á Keldum voru fornsögurnar mikils metnar. Njálssaga gekk næst Biblíunni. Menn þekktu efni hennar og vissu að hún byggði á sögum af fólki, sem lifað hafði og atburðum sem höfðu gerst. Flestir skildu þó, að það var ekki orðréttur sannleikur, en höfundurinn hefði farið listrænum höndum um efnið. Langa kafla og tilsvör kunnu menn utanað. Í Hemlu, á suðurbakka Þverár á mörkum Landeyja og Fljótshlíðar, var ég kominn inn í miðja Njálssögu. Frægustu sögustaðirnir: Bergþórshvoll og Hlíðarendi blöstu við augum dag hvern. Hemla, Eyjarhverfi og Strandarhöfði áttu kirkjusókn að Breiðabólsstað. Við fórum þangað börnin til spurninga á hestum. Mörg fermingarsystkin okkar voru úr Fljótshlíð. Við hittum Múlakotsfólk stundum við kirkju, en kynntumst því ekki að ráði. Múlakot átti kirkjusókn að Hlíðarenda. Ólafi Túbals kynntumst við seinna er hann kom að Hemlu ásamt Gunnlaugi Scheving í leit að stað, þar sem gott væri að mála Fljótshlíð úr fjarska. Hemla var kjörinn staður. Ólafur Túbals kom oft í heimsókn.

Bærinn Hemla stendur á hól, ekki háum. Hann er samt einn hæsti punktur í hinum flötu Landeyjum. Mikið og fagurt útsýni er heiman frá bænum. Í útsuðri sér til Bergþórshvols, í suðri til Vestmannaeyja. ,,Við austur gnæfir sú hin mikla mynd” Eyjafjallajökull, … ,,með silfurbláan Eyjafjallatind”. Í austri er Goðaland og norður af Þórsmörk teygja sig fannhvít og glæsileg Tindfjöllin til himins ofan Fljótshlíðar innanverðrar, síðan taka við heiðalönd og Þríhyrningur með Þríhyrningshálsa á báðar hliðar. Frá Hemlu sér inn í opinn Flosadal uppi í Þríhyrningi, þar sem Flosi faldist með 100 menn og 200 hross eftir Njálsbrennu. Í landnorðri frá Hemlu séð, teygir sig hæsti Heklutindur yfir Vatnsdalsfjall. Annað kastið rauk úr honum haustið 1949, eftirhreytur af Heklugosinu sem hófst árla morguns í marslok 1947 meðan ég enn átti heima á Keldum og vakti mig með jarðskjálfta, sem hnykkti rúminu mínu fram á gólf. Kotamannafjall er næst, svo Hvolsfjall. Þá taka við fjöllin í uppsveitum Árnessýslu. Það er hrífandi útsýni allan hringinn og mikið myndefni að festa á léreft. Gunnlaugur Scheving dvaldi lengi í Hemlu og málaði. Ég veit ekki hvort Ólafur Túbals málaði þar.

Fögur er Hlíðin. Hún hallar móti suðri og sól. Við lærðum að þekkja marga bæi í Fljótshlíð frá Hemlu. Ég nefni nokkra þeirra. Innstur var Fljótsdalur, þá komu Barkarstaðir, Múlabæir og Árkvörn. Andrés bróðir Hálfdánar Sæmundssonar bónda á Keldum bjó í Eyvindarmúla á Sturlungaöld og tók til sín hluta af viðunum úr Keldnaklaustri 1223. Jón Loftsson sá mikli höfðingi byggði klaustrið, sem var helgað Jóhannesi skírara. Hann ætlaði sér sess þar, en entist ekki aldur til. Klausturhald á Keldum entist heldur ekki lengi, enda var biskup andsnúinn því. Nú kann einhver að segja ,,Allt er þetta ósannað um klausturhald á Keldum” og það er satt, en signet Sveins Príors Pálssonar sem Vigfús Guðmundsson afabróðir minn fann 1891 í húsarúst við Hólavöll á Keldum, sem nú er blásin burt og perlur líklega úr talnabandi og klausturbyggingin segja sína sögu. Næst er Múlakot, sem við minnumst og heiðrum hér í dag, þá Hlíðarendakot. Allir þekkja Þorstein Erlingsson, sem ólst þar upp. Hlíðarendi er frægur að fornu úr Njálssögu og langt fram eftir öldum. Þar bjó fyrstur Baugur Rauðsson faðir Gunnars í Gunnarsholti, langafi Gunnars á Hlíðarenda. Næst er Teigur, stórbýli, þar sem Anna Vigfúsdóttir frá Stóruborg bjó á efri árum seint á sextándu öld með Hjalta sínum ,,Barna-Hjalta”, sem um skeið faldist í Paradísarhelli. Nokkru vestar og ofar er Grjótá, þar sem Þráinn Sigfússon bjó. Kirkjulækur er mikil bújörð. Þar er einnig setur Hvítasunnumanna. Þá er Kollabær, svo Tumastaðir, miðstöð skógræktar lengi. og Torfastaðir. Sámsstaði eru frægir á seinni árum fyrir kornækt og bleika akra Klemenzar frá Þverspyrnu í Hrepp, svo Breiðabólsstaður, kirkjustaðurinn okkar. Þar sat sá sem allir virtu fyrir skarpleika í hugsun og málsnilli, klerkurinn Sveinbjörn Högnason. Landnám Baugs Rauðssonar endaði við Flókastaðaá vestan Breiðabólsstaðar, en Fljótshlíðin náði lengra. Núpur var vestastur bæja í Fljótshlíð. Katrín húsfreyja í austurbænum og móðir mín þekktust og mátu mikils hvor aðra. Ýmsan fróðleik sagði móðir mín um Fljótshlíð og við horfðum oft upp til Hlíðarinnar.

Múlakot hlaut frægð fyrir störf og myndarskap húsfreyjunnar Guðbjargar Þorleifsdóttur, sem kom á legg skrúðgarði 1897, merkasta einkagarði landsins. Þar var fjölbreyttur gróður og fágætt trjáaval. Staðurinn hlaut frægð einnig fyrir listmálarann Ólaf Túbals, son Guðbjargar og Túbals manns hennar og fyrir gistihúsið og listamennina, sem þangað sóttu. Að gistihúsinu í Múlakoti voru áætlunarferðir úr Reykjavík, Hlíðarrútan svokölluð. Í Hvolsvelli var símstöð og þangað hringdu menn ,,þrjár stuttar” til að fá samband við önnur svæði og leita upplýsinga um eitt og annað. Þar stjórnaði Árni Einarsson frá Hallgeirsey, hægur maður og orðvar, þægilegur og hjálpsamur. Öllum þótti vænt um hann. Hann svaraði með eins atkvæðis orðum, sagði jim í stað þess að segja ,,ætli það ekki”. Nú hringir maður í miðstöð og Árni kemur í símann. Maðurinn spyr: Er Hlíðarrútan komin? Nei. Viltu láta mig vita, þegar hún fer inn að Múlakoti, ég þarf nauðsynlega að komast með henni suður. –Jimm. Eftir langan tíma hringir sami maður aftur og spyr. Er Hlíðarrútan komin? –Jimm. Er hún farin inn eftir? –Jimm. Er hún komin aftur? –Jimm, og kannske farin suður? –Jimm. Fari hún til helvítis. –Jimm. Og far þú líka til helvítis fyrir svikin. –Jimm. Þetta heyrði einhver sem lá á línunni og sagði frá. Eftir þetta var Árni kallaður Jimm, en mönnum þótti enn vænna um hann eftir þetta fyrir stillinguna. Allir vissu að engum þótti leiðara en honum að hafa gleymt sér.

Málverk Ólafs skreyta hýbýli manna víða um land, einkum á Suðurlandi. Ég á eitt málverk eftir Ólaf Túbals. Af málverkinu er þessi saga: Föðursystir mín María Jónsdóttir frá Sigurðarstöðum í Bárðardal giftist norskum manni og flutti til Álasunds. Systkini hennar gáfu henni málverk, sem henni þótti mjög vænt um, af Eyjafjallajökli og Þórsmörk eftir Ólaf Túbals. Það var í veglegum ramma. Móðir mín vildi, að hún hefði með sér til Noregs fegursta hluta Íslands á fallegu málverki. Um það bil fjórðungi aldar síðar spurðist eg fyrir um málverkið til að kaupa það, ef falt væri. María frænka mín í Álasundi var þá dáin og hafði nokkru áður misst mann sinn. Málverkið fannst, en hafði verið skorið úr rammanum, rúllað saman og sett í geymslu og hafði skaddast en annað málverk af heimaslóð í Noregi sett þess í stað í rammannn. Ég átti 400 kr norskar og greiddi þær glaður fyrir málverk Ólafs Túbals.

Viðauki:

Nú er tími minn þrotinn, en hér er svolítil viðbót: Við höfum ekki staðið okkur vel í að varðveita menningararf okkar, sem felst í fornum byggingum. Uppbyggingin í Múlakoti er því gleðiefni.

Í sumar er fyrirhugað að kalla saman til málþings í Gunnarsholti til að ræða ástand, aðgerðir og framtíð Keldna á Rangárvöllum. Á Keldum er einstæð bæjarheild, rúmlega 20 mannvirki, garðar og hús gerð úr torfi grjóti og timbri, sem vel uppgerð myndi sóma sér á heimsminjaskrá. Stefna ber að því að það geti orðið. Þar eru leynigöng og lækningalind ,,Maríubrunnurinn”. Bærinn hefur verið vanræktur vegna fjárskorts og sum útihúsin með stórmerkilegt byggingarlag frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar eru að sökkva í jörð. Niðursetningsbragur er á þeim. Á Framtúni eru bæjarrústir, sem er sléttað yfir af sandi. Þar er kannske landnámsbýlið Keldur. Hér þarf að taka til hendi eins og í Múlakoti, skoða með jarðsjá, grafa upp og aldursgreina. Fordæmi Múlakotshjóna er aðdáunarvert. Við viljum læra af því. Undirbúningur okkar Keldnamanna er hafinn. Á borði út við dyr eru nokkrar bækur, sem eg fekk að taka með mér hingað og hafa til sýnis. Þar er yndisleg bók með 195 teikningum móður minnar frá Keldum og ævintýrum frá æsku hennar, sem hún sagði sonum sínum. Þar er einnig Keldnakver um sögu staðar, kirkjunnar, ábúenda og sagt er frá Víkingslækjarætt og útgáfu niðjatals Bjarna og Guðríðar frá Víkingslæk, sem hefur stöðvast vegna gjaldþrota útgáfufyrirtækja. Þessar bækur geta þeir keypt á sanngjörnu verði með áritun eftir þennan fund, sem það vilja.