Framkvæmdir
Forsagan
Við eigendaskiptin í lok árs 2000 var tekin ákvörðun um að ekki yrði búið áfram í gamla íbúðarhúsinu / hótelinu í Múlakoti heldur byggt nýtt íbúðarhús. Ákvörðun um framtíð gamla hússins var skotið á frest enda önnur verkefni á jörðinni næg, auk húsbyggingar þurfti að hreinsa til, bæði ónýtar byggingar og girðingar og svo beið garðurinn.
Fyrsta skrefið var að láta teikna og mæla húsið og tryggja þannig að vitneskjan um gerð þess varðveittist. Vorið 2010, þegar gosið í Fimmvörðuhálsi og síðar Eyjafjallajökli stóð sem hæst, mældi Jón Pálsson arkitekt húsakynni og vann síðan teikningar sem voru hreint listaverk. Þessi vinna tók 6 vikur.
Minjastofnun Íslands hafði lengi fylgst með húsakynnum og arkitektar hennar komið í vettvangsferðir, því lá áhugi starfsmanna þar á varðveislu staðarins ljós fyrir og fjárhagslegur stuðningur fékkst vorið 2013 þegar ákveðið var að Hjörleifur Stefánsson arkitekt yrði fenginn til að gera skýrslu um ástand og endurbyggingu hússins.
Eitt leiddi af öðru, verkefnið að endurbæta húsakynni reyndist viðameira en svo að einstaklingar réðu við það. Brátt kom sveitarfélagið Rangárþing eystra og Skógasafn að umræðunni. Friðlýsingu húsakynna bar æ oftar á góma og í september 2013 var haldinn í Múlakoti mikilvægur fundur eigenda jarðarinnar með fornminjaverði, forstöðumanni Minjastofnunar, fulltrúum sveitarfélagsins, Skógasafns og fjórum arkitektum. Þar varð ljóst að friðlýsa þurfti húsakynnin svo fjárhagsstuðningur yrði mögulegur.
Framkvæmdir máttu ekki dragast lengur því jarðvegsþrýstingur á elstu byggingar hafði laskað skúrbygginguna norðan við elsta húsið og fært það fram á sökklinum. Skúrarnir voru rifnir og norðurhlið lokað til bráðabirgða.
Forsætisráðherra veitti höfðinglegan styrk til framhaldsins og húsin voru formlega friðuð vorið 2014.
2014
Ákveðið var að sjálfseignarstofnun yrði komið á fót en aðilar að henni voru eigendur Múlakots, sem gáfu hús, garð og land, sveitarfélagið Rangárþing eystra og Skógasafn. Verkefnið var kynnt í nóvemberbyrjun árið 2014 með kynningarbækling, staðarskoðun í Múlakoti og málstofu í Goðalandi þar sem mættir voru nær 100 gestir. Haldin voru mörg stutt erindi og stofnskráin undirrituð í vitna viðurvist.
Nú var hafist handa við endurbyggingu húsakynna; vinnuaðstöðu smiða komið upp byggður var veðurhjúpur yfir austurgafl og suðurhlið og veggir opnaðir og þar gaf heldur betur á að líta. Viðir í veggjum voru endurnýjaðir, komið fyrir einangrun og hugað að endurhleðslu sökkuls. Unnið var fram að jólum. Allir þeir sem komið hafa að verkinu eru búsettir í sveitarfélaginu.
2015
Vinafélag var stofnað í febrúar 2015, stofnendur voru 40 en í ársbyrjun 2019 voru þeir 105 og sex fyrirtæki stuðningsaðilar að auki. Félagar hafa verið mjög virkir, aðstoðað við móttöku vinnuhópa Garðyrkjuskólans og stórra skoðunarhópa og séð um veitingar á Ljósakvöldum svo nokkuð sé nefnt.
Vinna við húsið hófst í júnílok. Nú var unnið við endurhleðslu sökkuls, frágang glugga og klæðningu suðurhliðar og austurgafls með bárujárni. Vinnu lauk um miðjan september en þá var unnt að fjarlægja veðurhjúpinn. Nemendur og kennarar Garðyrkjuskólans á Reykjum – LbhÍ komu í fyrstu vinnuheimsóknina í september, en fjallað er sérstaklega um hlut skólans í sér kafla.
2016
Ætlunin hafði verið að halda áfram vinnu við endurnýjun útveggja elsta hússins en ekkert var unnið við það vegna veikinda yfirsmiðs. Smíðaverkefni voru þó næg.
Umhverfis eldri hluta garðsins hafði verið gerð voldug girðing á árunum um eða rétt á eftir 1930, ekkert var til sparað, steyptar undirstöður og girðingarstólpar, smíðajárnsgrindur og veglegt hlið snéri að húsinu Girðingin umhverfis yngri hluta garðsins var ekki eins vönduð og var að falli komin. Nú var hún endursmíðuð eftir eldri fyrirmynd og máluð í lit sem sást á málverkum Ásgríms Jónssonar og Ólafs Túbals af garðinum. Í haustheimsókn Garðyrkjuskólans var umhverfi girðingarinnar snyrt.
2017
Sumarið 2017 gerðist margt óvænt. Þegar jarðvegur var tekinn frá norðurvegg sást að hann hafði verið byggður á mold en ekki grjóthleðslu. Þetta breytti verkframkvæmd. Ætlunin hafði verið að helga vinnuna endurbótum á elsta húsinu, láta skúrana við norðurhúsið bíða. Nauðsynlegt var að steypa bita undir vegginn. Ákveðið var að skipta þá um jarðveg, steypa plötu og veggi og fá þannig samfellu í steypuvinnu og jarðvegsviðspyrnu um leið. Frá þakinu á skúrnum var gengið til bráðabirgða, svo unnt væri að loka byggingunni fyrir veturinn.
Eins kom í ljós að undir nýjasta húsinu var 50 m-3 rými, gömul rotþró, sem líklega hafði verið gerð þegar miðhúsið, veitingahúsið, var reist. Þessi rotþró hafði ekki verið notuð í áratugi og hún var fyllt af möl.
2018
Nú var verkefni sumarsins að skipta um þakviði eftir þörfum á elsta húsinu, endurnýja vesturgafl þess, þak bíslagsins eða milligangsins og svo austurgafl miðhússins.
Enn kom ýmislegt óvænt í leitirnar þegar veggir voru opnaðir og þak fjarlægt. Í norðurvegg baðstofu leyndust meðal annars slitnir sauðskinnsskór, þvottaklemma og „silfurgaffall“. Uppi á háalofti hafði verið stúkað af örlítið herbergi, sem gekk undir ýmsum nöfnum, svo sem kaupakonukamersið eða Ágústu herbergi.
Þar kom í ljós skemmtilegur „vindpappi“ sem reyndist vera síða úr dönsku kvennablaði frá 1913, með tískumyndum og góðum ráðum fyrir hina hagsýnu húsmóður. Á háaloftinu, innundir kverkinni, fannst fagurlega útskorinn „rammi“ sem vakið hefur mikla athygli og vangaveltur. Áður höfðu fundist á loftinu barnaleikföng, svo sem líkan af Hlíðarendakirkju, brúðuhúsgögn og dúkkulísur.
Auðvitað voru sumir þakviðir illa á sig komnir og þurftu endurnýjunar við, syllan á norðurhlið reyndist hafa verið sett saman með einskonar frönskum lás, sem þurfti að lagfæra, en á öllu mátti sigrast. Nýir gluggar, sem Árni Sigurðsson á Sámsstöðum hafði smíðað, sómdu sér vel á göflunum.
Það var komið fram í nóvember þegar verkefnum sumarsins var lokið.