Húsfriðun

Byggingarár: 1898 til 1946

Friðlýsing:

Friðlýst af forsætisráðherra 28. maí 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til staðarins í heild innan afmarkaðs svæðis, gamla íbúðar- og gistihússins  og annarra uppistandandi staðarhúsa, rústa útihúsa og annrarra fornminja, garðsins framan við húsið og lysthússins í garðinum.

Byggingar í Múlakoti, rústir útihúsa, garðurinn framan við húsin ásamt lysthúsinu mynda eina, órofa minjaheild sem mikilvægt er að verði varðveitt til komandi kynslóða. Bæjarhúsin voru reist í áföngum á árunum 1898 til 1946 á rústum torfbæjar sem enn má sjá í kjallara undir húsinu. Hlutar hússins frá ólíkum tímaskeiðum hafa varðveist í nánast upprunalegri mynd og vitna um samfellda búsetusögu margra kynslóða. Múlakot hefur sérstakt menningarsögulegt gildi sem einn elsti gisti- og greiðasölustaður héraðsins sem jafnframt var sveitaheimili og aðsetur listamannsins Ólafs Túbals. Staðurinn hefur sérstaka tengingu við íslenska listasögu en nokkrir af helstu myndlistarmönnum þjóðarinnar dvöldu þar og máluðu þjóðkunn málverk af staðnum og umhverfi hans. Loks er garður Guðbjargar Þorleifsdóttur frá 1897 einn elsti og merkasti einkagarður landsins.

Texti tekinn af vef Minjastofnunar.