Garðurinn í Múlakoti er elsti garður utan Reykjavíkur sem er opinn almenningi. 120 ára afmælis garðsins var minnst sumarið 2017, þar sem árið 1897 er talið stofnár garðsins.
Guðbjörg Þorleifsdóttir, konan sem gerði garðinn, eins og sagt var, og Túbal Magnússon , eiginmaður hennar, tóku þá við búsforráðum í Múlakoti af Þuríði móður hennar. Garðræktin hófst þó ári fyrr, en Guðbjörg vildi miða aldur garðsins við gróðursetningu fyrstu trjáhríslanna. Það voru örsmáar reyniplöntur, sem Eyjólfur bróðir Guðbjargar sótti í Nauthúsagil, handan Markarfljóts. Auk þess rötuðu smáplöntur af birki í garðinn.
Þetta var naumast meira en vísir að garði, innan við 10 fermetrar, en máltækið mjór er mikils vísir átti svo sannarlega við, því garðurinn var stækkaður í áföngum í tæpa 1000 fermetra í tíð Guðbjargar. Hún var einstaklega natin við ræktunina og bar af öðrum ræktendum, þótt hún væri ómenntuð á því sviði. Garðurinn varð víðfrægur fyrir blómskrúð og fjölbreytileika og dró að sér gesti víðsvegar að. Í Múlakoti var rekið hótel og einkar vinsælt var að njóta veitinga úti í garði, einkum á síðkvöldum, þegar garðurinn var upplýstur með mislitum rafljósum. Guðbjörg var sæmd Fálkaorðunni í tilefni að sjötugsafmæli sínu. Hún lést árið 1958.