Landbúnaðarháskólinn og Guðbjargargarður

Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti var stofnað 21. febrúar 2015. Stofnfundurinn var haldinn á Goðalandi í Fljótshlíð og fundarstjóri var Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum í Ölfusi. Guðríður færði Vinafélaginu veglega gjöf þegar hún bauð fram sérfræðiþekkingu kennara og starfsorku nemanda til að vina að endurreisn gamla garðsins í Múlakoti. Þetta væri hagur beggja, nemendur kynntust af eigin raun hugsunarhætti og vinnubrögðum, sem beita þyrfti við endurnýjun gamalla garða eins og Múlakotsgarðsins, eins elsta garðs landsins. Þessu tilboði LbhÍ – Garðyrkjuskólans á Reykjum var tekið fagnandi. Garðurinn var kominn í algjöra vanhirðu þegar eigendaskipti urðu á jörðinni um áramót 2000-2001. Nýir eigendur jarðarinnar höfðu lagt mikla vinnu í að hreinsa rusl og uppræta það illgresi  sem hafði lagt undir sig garðinn. Fyrsta sumarið eftir eigendaskiptin var ekið burtu rusli sem fyllti 4 heyvagna. Minna hafði farið fyrir snyrtingu trjáa, en garðurinn engu að síður kominn í þokkalegt horf

Síðsumars komu tveir kennarar skólans í heimsókn til að móta hugmyndir og skipuleggja fyrstu vinnuferð nemanda í Múlakot. Von var á stórum hópi nýnema og fátt hristir fólk betur saman en ferð, þar sem blandað er saman fræðslu, hæfilegri áreynslu og náttúruupplifun.

2. september 2015 kom liðlega 40 manna hópur nemenda og kennara og tekið var til óspilltra málanna. Hópnum var skipt upp, einn hópurinn fékk sem verkefni aðkomuna að garðinum, annar fjölæringabeð, sá þriðji hugaði að trjám og runnum en fjórði heimsótti Trjásafn Skógræktarinnar, og svo skiptust hóparnir á að sinna hinum ólíku verkefnum. Blómabeð, þar sem plönturnar höfðu ekki virt takmörk girðingarinnar fékk að kenna á skóflum nemenda.

Eins var fjölæringabeð grisjað og settir göngustígar meðfram því.

Þar sem komið var fram á haust var ekki talið rétt að fara í stórfelldar klippingar á trjám eða runnum vegna hættu á sveppasýkingu, en þó heilfellt tré og fjarlægðar nokkrar trjágreinar, sem ógnuðu umhverfinu.

Stundum er sagt að hámark allra ferðalaga sé að borða saman og til að halda starfsorkunni var gert hádegisverðarhlé, snædd staðgóð súpa í gamla matsalnum í hótelinu, þar sem þröngt var setinn bekkurinn eins og oft áður. Félagar Vinafélagsins önnuðust matseldina eins og reyndar í öllum nemendaheimsóknum.

15. apríl 2016 komu nemendur LbhÍ aftur í heimsókn, um 15 manna kjarni frá haustinu áður. Nú var tekið til óspilltra málanna og einbeitt sér að trjágróðrinum. Gráölurinn, sem er stakstæður og mjög áberandi i garðinum, fékk létta greinasnyrtingu en reynitré sem hafði komið sér upp fjölmörgum stofnum fékk heldur betur að kenna á söginni. Sérstökum skaftlöngum klippum var beitt við að grisja háar trjákrónur og limgerði og afgamlir rifsberjarunnar klippt.

Gráölur fær létta greinasnyrtingu
Reynirinn klipptur óspart
Grisjun hátt í trjákrónu
Limgerði og afgamlir rifsberjarunnar klipptir

Sumarið 2016 lét Sjálfseignarstofnunin endurnýja girðinguna umhverfis nýjasta hluta garðsins. Fjölmenni var í þriðju heimsókn nemenda þá um haustið, liðlega 40 manns. Þeir einbeittu sér að því að gera umhverfi girðingarinnar auðvelt í umhirðu og grófu djúpa og breiða rás meðfram henni sem þeir fylltu af möl svo gras næði ekki fyrirhafnarlaust að vaxa upp í girðinguna. Við þetta varð gamli grjóthlaðni garðurinn sýnilegur umhverfis vestasta hluta garðsins.

Liðlega 40 manna hópur nemenda
Grafin rás og fyllt af möl
Gamli grjóthlaðni garðurinn

Sumarið 2018 viðraði illa til garðvinnu, stöðugt votviðri uns ágúst gekk í garð. Næg verkefni blöstu þó við. Þeim reynivið, sem féll til við trjáfellingar og snyrtingu í fyrri heimsóknum nemenda, hafði verið haldið til haga. Þeim var síðan flett síðsumars 2017 og veturinn 2017-18 smíðaði Skúli Jónsson á Kirkjubæjarklaustri borð og bekki úr 100 ára gömlum reyniviðnum, sæti fyrir nær 50 manns. Þessum glæsilegu garðhúsgögnum var valinn staður í elsta hluta garðsins, þar sem áður hafði verið setukrókur mótaður úr torfi og grjóti. Það var fjarlægt en helluleggja þurfti  svæðið fyrir nýju garðhúsgögnin og tyrfa svo garðinn að nýju.

Harmonikkubekkurinn
Torf og hellur bíða

Þann 27. ágúst  komu nemendur LbhÍ í sína fjórðu heimsókn. Þetta var liðlega 50 manna hópur og nú var aldeilis handagangur í öskjunni við að helluleggja, leggja þökur, móta ný blómabeð í yngsta hluta garðsins og gróðursetja í þau. Loks komu nemendur nýju húsgögnunum fyrir á hellulögninni og fengu sér sæti rétt til að hvíla lúin bein.

Hellulögn
Mótun beða
Hópurinn á nýju garðhúsgögnunum

Nú er stórframkvæmdum að mestu lokið í garðinum. Eftir er þó að endurbyggja lysthúsið, en sökkull þess var steyptur sumarið 2018.