Garðurinn á 21. öld

 

 

Garðurinn á 21. öld

Nýir eigendur tóku við Múlakoti í nóvemberlok árið 2000. Mikil verkefni voru framundan við hreinsunarstarf innan húss og utan.

Garðurinn hafði verið vanræktur um áratugi og illgresi tekið yfirhöndina.

 

 

Rusl sem fyllti fjóra stóra heyvagna var fjarlægt úr garðinum fyrsta sumarið og sá varla högg á vatni.

Baráttan við illgresið var löng og mikið þurfti að fjarlægja af dauðum trjágreinum.

 

 

 

 

 

 

 

Grasflatir voru eitt svað og lítið var eftir af gömlum blómgróðri. Þó var eldliljan vinsæla enn á sínum stað  og rifsið þroskaði ber sem fyrr  .

Það var ekki fyrr en að fimm til sex árum liðnum sem unnt var að sinna eiginlegum ræktunarstörfum. Jóhann Pálsson grasafræðingur, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, kom nokkrum sinnum í heimsókn og gaf góð ráð um hvert stefna skyldi. Ákveðið var að reyna að finna sem mest af gömlum plöntum í garðinum og flytja ekki í garðinn plöntur, sem hafa komið til landsins eftir lát Guðbjargar. Enn þarf að fylgjast vel með illgresinu og bregðast skjótt við skjóti það upp kollinum, því gífurlegur fræbanki leynist í moldu.

 

 

 

 

Jafnframt var unnið að því að hreinsa landareignina, fjarlægja ónýtar girðingar og ónýta kofa.

Garðurinn hefur líka orðið fyrir áföllum á undanförnum árum. Veturinn 2009 reið gífurlegur stormur yfir og reif upp með rótum stórt birki og glæsilegt gamalt fjallagullregn sannkallaða garðaprýði.

  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eldgosið í Eyjafjallajökli vorið 2010 spúði ösku yfir innhluta Fljótshlíðar og Múlakot fékk sinn skerf.

Sveitarfélagið sendi liðstyrk á bæi til að hreinsa þök og náttúran sá um að þvo gróðurinn.

Grasflatir gréru smám saman og trjágróðurinn rétti úr kútnum.

Garðurinn í júlí 2015

Tilboð LbhÍ, garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi, þegar Sjálfseignarstofnunin um gamla bæinn í Múlakoti var stofnuð, um að skólinn kæmi að gamla garðinum sem nemendaverkefni, var himnasending.