Garðurinn í Múlakoti – Guðbjörg Þorleifsdóttir

Garðurinn í Múlakoti – Guðbjörg Þorleifsdóttir

Greinin birtist fyrst í Búnaðarritinu, ársriti Búnaðarfélags Íslands, 35. árgangi árið 1921.

Haldið er upphaflegum rithætti.

 

„Snemma beygist krókurinn að því sem verða vill“, segir gamall málsháttur. Þegar jeg var lítið ban, man jeg vel hve einlæglega jeg fagnaði fyrstu sumarblómunum. Var jeg þá svo mikill óviti, að jeg sleit þau upp þegar í stað, því jeg varð sem fyrst að ná fundi mömmu minnar, og sýna henni þennan dýrgrip, er vorið hafði fært mjer; því endilega varð hún að sjá gleðiefni mitt, alt var ónýtt annars. Og þegar hún hafði nógsamlega lofað fegurð þess, var það vanalegt að jeg skreytti mig með því, ljet það í hár mitt, eða á brjóst mjer með nælu. Stundum fannst mjer jeg finna til með því, þegar það var að visna upp á brjósti mínu, en glysgirnin rjeði þó oftast betur, að þegar eitt var fölnað, tók jeg annað.

En tímarnir breytast, og börnin líka, eftir því sem árin fjölga; því þegar jeg fór ofurlítið að eldast, t.d. þegar jeg var 6-8 ára, fór jeg að brjóta heilann um það, hversu indælt mundi vera að eiga svolítinn blómagarð, er jeg gæti skreytt eftir vild.

Fyrir ofan bæinn minn er hátt hamrabelti, með mörgum smáum og stórum hamra-sillum, en neðan undir því eru brekkur, alsettar marglitum blómum. Fannst mjer því næsta heppileg að gera þar garð í námd við blómin, ekki stærri en svo, að jeg gat almennilega setið þar flötum beinum. Var það grasbekkur undurfagur, að mjer þótti, og hann þess verður að hann væri prýddur. Á þrjá vegu var sljett standberg, en mót sól var uppgangur, sem var liðug hæð mín, með þægilegum sporum í berginu, til að geta komist upp í þessa fögru paradis mína. Og þegar jeg hafði tekið þar heima, byrjaði jeg á verkinu, mældi stærð garðsins sem svaraði 1 alin (60 cm) á hvern veg, því meira pláss mátti ekki taka, girti jeg hann svo með smá steinvölum, er þar var gnægð af í kring, síðan bar jeg mold í hann, því grunnt var á klöppinni En nú var eftir að planta, kom sjer þá vel blómabrekkan neðan undir, notaði jeg hana líka, tíndi þar nú alls konar blóm, sleit þau af um miðjan stöngul; plantaði síðan í þennan nýja garð, þar til hann var alskipaður fegursta blómskrúði. Fannst mjer nú þetta svo dýrðlegur staður, að mjer fannst stór þörf, að velja honum tignarlegt nafn, og eftir langa leit í huga mínum hlaut hann nafnið Hamrahlíð; og hefði jeg ekki viljað láta þetta nýbýli mitt fyrir talsverða upphæð. En ekki leið á löngu þangað til jeg fór að kenna til óánægju yfir því, að blómin fölnuðu, þegar þau voru þangað komin, i stað þess að vaxa, en ástæðuna til þess fann jeg ekki þá, en nú skil jeg hana betur. Blómin voru slitin upp af rótinni, og þannig fór að jeg varð leið á þessu verki. Eftir nokkurn tíma fór mjer að detta í hug, hvort ekki myndi vera betra að setja blómin í vatn; fjekk mjer þvi einhver smá ílát, fyllti þau með nýjum blómum, skreytti nú á nýjan leik nýbýli mitt. Þetta gekk miklu betur. Jeg gat þannig haldið blómunum lifandi marga daga í senn, ef jeg skifti nógu oft um vatn á þeim. Þannig gekk um hríð. Þó fannst mjer þessu að einhverju leyti ábótavant; fór nú að slá slöku við þessa blómarækt mína og henti henni að mestu.

Liðu svo fram stundir, þar til jeg fór að hafa hugmynd um að ýmsir út um heiminn ljetu blóm vaxa í gluggum sínum og ljetu þau vaxa í leirpottum, en um slík ílát var nú ekki að tala hjá mjer, það fannst mjer óhugsandi. Datt mjer þá annað i hug. Á næsta bæ var piltur vel lagtækur. Bað jeg hann að smíða kassa mátulega langan í gluggann minn; hólfaði hann svo í sundur. En nú vantaði blómafræ. Tók jeg þá fyrir að týna ýmis fræ úr korni og sáði þeim í kassann, fjekk svo fyrir mestu náð að hafa kassann í glugganum, því að lítil prýði þótti að svartri moldinni. En brátt fór að skína i græna kolla; varð þá mikið um dýrðir, og svo fór, að um sumarið sprungu út margir fagrir blómknappar, sem veittu mjer ótakmarkaðan unað. Svona voru nú ættuð fyrstu gluggablómin mín og jurtapottarnir mínir, og við þetta var jeg að una nokkur ár. En einn góðan veðurdag um jónsmessuleyti kemur mamma heim úr kaupstaðarferð. Er þá venjulega mikið um dýrðir hjá börnum til sveita, og ekki síst, ef þau verða fyrir þeirri hamingju að eignast þann hlut, er þau hafa lengi þráð, og svo varð fyrir mjer í þetta sinn því mamma færði mjer tvo blómsturpotta og rósa-afleggjara í þá. Svo allir blómavinir geta hugsað sjer gleði mína í þetta sinn, og nú var ekkert að, nema að jeg gat hugsað mjer að gluggarnir yrðu allt of litlir fyrir vel þroskuð blóm, en um slíkt þýddi nú ekki að tala.

Langt var nú liðið síðan jeg bygði fyrsta blómagarðinn í sillunni fyrir ofan bæinn og ekkert sást nú eftir af honum. Nú var jeg löngu farin að lesa sögur og ævintýri, sem leiddu huga minn um fagra aldingarða, þar sem hann gat sveimað um skuggsæla trjáganga, þar sem trjen breiddu laufskrúð sitt yfir höfuð þeirra, sem þar leituðu yndis og friðar og teyguðu ilminn af fegursta blómskrúði, er naut skjóls undir hinum yndælu trjám. Jeg man vel, hversu þetta hreif allan hug minn. Dag og nótt gat jeg enga sælu á jörð hugsað mjer meiri en þá, að eiga eitthvað þessu líkt, en þó fannst mjer óhugsandi, að nokkuð svipað þessu ætti að verða mitt hlutskipti. Þó gat jeg ekki hætt að hugsa, – já einmitt hvort engin leið væri fyrir mig að mynda eitthvað þessu líkt. En oftast svaraði hugur minn: Nei, á því eru svo margar torfærur. En fegurðarþráin sagði: Reyndu að yfirstíga þær allar og byrjaðu.

Jeg er nú komin af barnsaldrinum, búin að missa föður minn fyrir löngu, gift kona og búin að eignast dóttur, sem mjer hefur þótt áríðandi að nefna sem eitt blómið, Lilju. Hún er þriggja ára. Þegar hjer er komið sögunni er móðir mín mjög biluð að heilsu; hún hefur ein búið með vinnumönnum sínum frá því hún misst föður minn og þar til jeg giftist, þá varð maðurinn minn ráðsmaður hjá henni; hann var það þangað til við tókum við búinu árið 1897. En vorið áður hafði jeg fengið ofurlítinn blett í garðinum fram undir glugganum, til þess að planta í nokkrum skrautjurtum. Bletturinn var tveir faðmar á lengd, hálfur annar á breidd (einn faðmur  = 167 cm) og girt utan um hann með gömlu silungsneti og birkilurkum. Safnaði jeg þar í ýmsum blómum, en nú tók jeg þau öll upp með rótum, enda döfnuðu þau ágætlega um sumarið og veittu mjer strax mikla ánægju. En um haustið sá jeg, að girðingin myndi ekki duga yfir veturinn. Þar eð engar timburbirgðir voru til hjá okkur, og síst til að eyða í slíkan óþarfa, fór jeg til kunningja míns, sem hafði rifið bæinn sinn um sumarið og byggt timburhús. Bað jeg hann að lána mjer nokkur ónýt sprek, sem jeg vissi að hann átti mikið af úr gamla bænum, og gerði hann það strax. Þannig gat jeg vendað blómin min yfir veturinn, og næsta ár stóð sú girðing.

Eins og fyrr var getið, tókumst við nú búskapinn á hendur hið tjeða ár. Var þá baðstofan komin að hruni. Tókum við það ráð, að rífa allan bæinn um haustið og settum upp timburhús, sem enn stendur í sama formi. Og hið sama vor fann jeg brýna nauðsyn til að sinna garðinum mínum litla, fannst hann endilega vanta eitthvað það, sem gerði hann að þeim bletti, er jeg fyndi í sanna sælu. Ja, hvað var nú það, sem svona mikilvægt verkefni gat flutt með sjer, – jú, það voru trje. Þau vantaði enn. Mitt trje, ef það heppnaðist vel, gat orðið þarna sem göfugur húsfaðir, er allir finna traust og tign að búa hjá. En þá var eftir að ná í plöntuna. Hinumegin Markarfljóts, beint á móti bænum mínum, var afar stórt reynitrje, sem margir hljóta að kannast við, en þar eð þetta fljót er ilt yfirferðar, gat jeg ekki bjargað mjer sjálf. Jeg átti bróðir er Eyjólfur hjet (nú dáinn); hann var mjög listelskur. Hjelt jeg best að biðja hann að fara í plöntuleit, ef ske kynni að þetta trje ætti sjer einhverja afkomendur. Mjer varð að trú minni, því bróðir minn færir mjer nokkru seinna þrjár reyniplöntur, og þótt þær væru ekki nema þumlungs háar, þá fannst mjer jeg hafa eignast stóran fjársjóð, sem jeg þyfti að varðveita eins og sjáaldur auga míns. Setti jeg nú þennan fjársjóð í litla garðinn minn með mestu nákvæmni, jeg hefi víst lesið yfir þeim allar mínar bestu bænir, en hvernig sem það var, döfnuðu þær vel um sumarið. Það sama vor fann jeg líka nokkrar birkiplöntur og færði þær þangað líka. Dafnaði nú allt vel, var jeg nú stórrík af ánægju yfir þessu og ekki minnkað hún hinn 13. júlí, er jeg eignaðist minn einka son, Ólaf Karl Óskar. Ekki skil jeg enn í því, að jeg skyldi ekki gefa honum eitthvert blómaheiti. Mjer hefur sjálfsagt þótt nóg komið, er nöfnin voru komin þrjú. Fjekk jeg nú nýtt verkefni, sem að líkindum hefir orðið að ganga fyrir öllu. Þó döfnuðu litlu blessuð börnin mín úti og brostu mjer blítt í hvert sinn er jeg gaf þeim að drekka eða hlúði að þeim. En það var oftast á kvöldin, þegar aðrir tóku á sig náðir. Þannig leið þetta sumar og veturinn eftir. Með nýju vori komu ný gleðiefni hjá mjer, þegar litlu kvistirnir mínir fóru að breiða út indælu grænu blómin hvert af öðru og blómkollanir að gægjast upp úr moldinni. Alt þetta færði mjer nýtt líf og fjör á hverjum morgni. En nú sá jeg að herbergið þeirra var alt of ljelegt og þurfti nýja umbót. Það sama sumar voru rifnar hjer tvær kirkjur og haldið uppboð á timburrusli úr þeim. Keypti jeg þar hentugt girðingarefni, grindverk, sem aðskildi kór og framkirkju. Gat jeg nú með þessu trygt framtíð þeirra. Var nú garðurinn minn litli loksins orðinn nógu snotur. Fóru ýmsir, er á ferð voru, að veita honum eftirtekt; að minnsta kosti að hugsa sem svo: hvað er nú annars þarna, sem svo vandlega er girt?

Svo liðu nú mörg ár, að jeg hugsaði um garðinn minn og teigaði ánægju úr honum. Nú voru plönturnar orðnar að laglegum hríslum, sem var orðið alltof þröngt um, því að á þessu timabili hafði jeg fengið mjer ripsvið og varð hann fljótt heimturfrekur. Fann jeg nú brýna þörf fyrir að færa út kvíarnar. Var það þrautin þyngri, því alt slíkt þótti fjöldanum óþörf aukageta. Þó varð það úr, að jeg gat stækkað hann til helminga. Fanst mjer nú jeg myndi alt af gera mig ánægða með þetta. En ekki voru mörg ár liðin áður en jeg fann sömu kend hreyfa sjer í bjósti mínu, að enn væri allt orðið of þjett, því eftir að trjen fóru að bera fullþroskaða ávexti, fór jeg að leita að nýjum plöntum, sem jeg fann loks eftir nákvæma leit, bæði reyn og björk, viðir og rips. Alt var nú krökt af þessu. Varð jeg þá víst eins glöð eins og sá maður, sem lengi hefur leitað að gulli og loks fundið. En þó varð önnur útkoman en hjá gullleitarmanninum, því nú átti jeg nóg börn, en ekki brauð handa þeim, en hann nóg efni fyrir brauð, en máske engin börn. Tók jeg nú það ráð, að fyrir utan garðinn tók jeg ofurlítinn blett, girti hann með hellum, þannig, að jeg reisti þær á rönd og myndaði beð, sem jeg kallaði Vöggu, því þangað flutti jeg litlu hvítvoðungana, sem voru að koma út úr fræinu og höfðu of lítið ljós undir laufþaki trjánna. Alt þetta var enn þá tómstundavinna, því jeg hefi altaf haft nokkuð stórt heimili á hendi, sem kallar oftast eftir kröftum húsmóðurinnar, og sjerstaklega ef þeir eru eitthvað gallaðir af heilsubresti. Jeg hefi um margra ára skeið gengið með snert af magasári, en með því að varast alla ofnautn, hefi jeg oftast gegnt mínum skyldustörfum. Nú er komið út fyrir efnið, segir þú, lesari góður. Jæja, þegar þannig var komið að alt var að verða of þröngt, bað jeg manninn minn að gefa mjer eftir allan garðinn, sem var 18 álnir á lengd og 26 álnir á lengd (um 180 fermetrar). Gerði hann þetta fyrir mig. Bygði svo garð annarsstaðar, til þess að garðuppskeran ekki þyrfti að minka. Ja, nú var í stórt ráðist. Jeg hafði einhvernveginn eignast 20 krónur i peningum og þar eð ferð lá fyrir til Reykjavíkur um vorið, sendi jeg þær þangað og ljet kaupa fyrir þær eina rullu af vírneti. Gat jeg nú nokkurn veginn friðað allan þennan blett með þessu; stendur sú girðing enn, en er þó nokkuð farin að bila, og þar að auki hefur maðurinn minn hjálpað mjer með frágang á honum. Tvisvar hefi jeg sótt um styrk í trjáræktarsjóð Friðriks konungs áttunda og fengið þaðan í allt eitthvað um hálft þriðja hundrað krónur. En mjer leiðast slíkar bónorðsferðir og að líkindum fæst jeg ekki um þær oftar, nema brýn þörf knýi mig til þess. Þegar jeg nú hafði fengið þetta mikið pláss, tók jeg til óspilltra málanna, vakti nú oft langt fram á nætur, til að planta og reyta illgresið, sem var áleitið fyrsta kastið, en hvergi máti það þrífast hjá litlu plöntunum, þá voru þær búnar að missa ljós og dauðanum ofurseldar. Oft hafði jeg hjá mjer elstu dóttur mína Lilju, því hinar voru svo ungar, að þær máttu ekki missa svefn. Og aldrei var jeg svo þreytt eftir dagstritið, ef gott var veður, að jeg kysi fremur að fara að hátta, en að ganga út í garðinn minn svo sem klukkutíma, eða hvað það gat dregist, að hlúa þar eitthvað að. Svona liðu árin, garðurinn smáfylltist og allt dafnaði, jafnvel blómabeð, blómgirtur laufskáli, sem vaxinn er langt yfir höfuð manni, og ýmsir fleiri verustaðir, sem búnir eru að veita bæði mjer og öðrum marga ógleymanlega ánægjustund. Hefi jeg nú náð hærra takmarki í þessu efni en jeg gat nokkurntíma í fyrstu gert mjer hugmynd um. Og enn þá er þessi garður of þjett skipaður, svo enn þyrfti jeg að stækka, og enn er þráin sú sama, að halda áfram. En við stærri garð en þennan duga nú ekki tómstundirnar einar. Enda legg jeg nú árar í bát nema eitthvað skipist betur. Vildi jeg þó helst byrja strax á miklu stærra garði en þessum, sem nú stendur alskipaður í besta blóma. En í slíkum garði byrja jeg ekki jafn hjálparlítil og fyr, þvi nú fer að líða á síðari hluta æfinnar og þegar heilsan er tæp, þá minkar þrekið fljótlega. Jeg verð þó að geta þess að endingu að út fyrir garðinn hefi jeg á ný teygt mig með nokkuð hundruð trjáplöntur, ef þæt gætu orðið einhverjum til ánægju í framtíðinni. En þær plöntur á jeg erfitt að verja fyrir skepnuágangi. Marga tugi hundruða er jeg búin að láta í burtu síðan jeg byrjaði að planta út, en því miður held jeg að sorglega margar af þeim hafi misst lífið og sofnað svefninum langa. Þó er á stöku stað hjer kominn laglegur vísir og sumsstaðar fallegir garðar, svo sem hjá nábúahjónum mínum, Árna Einarssyni og Þórunni Ólafsdóttur. Sá garður er 10 árum yngri en mín elstu trje; er ljómandi vel vaxinn og hirtur, og svo er á nokkrum stöðum víðar, allstaðar þar sem góð rækt er lögð við það.

Þannig er nú sögð sagan af blómaást minni og tilraunum mínum til þess að þroska hana.