Flestir þeir sem komu í Múlakot minnast raflýsingar garðsins. Oddgeir Guðjónsson í Tungu í Fljótshlíð sagði: „Það var fljótt vinsælt hjá ungmennum sveitarinnar að ríða út á sunnudögum og drekka svo kaffi í Múlakotsgarðinum, þegar rökkva tók. Það hafði ómæld áhrif á ástarlífið í sveitinni að sitja í kvöldhúminu í garðinum undir mislitum ljóskerjum.“
Ólafur Björn Guðmundsson lyfjafræðingur sagði um fyrstu heimsókn sína í Múlakot „ Það mun hafa verið síðsumars árið 1942, síðla dags. Þegar við komum fyrir múlann hjá Hlíðarenda blasti við okkur ljósum skreyttur garðurinn – eins og álfakirkja þjóðsagnanna. Það var ævintýri líkast að ganga um þennan garð í kvöldrökkrinu, innan um litrík blóm, undir ljósadýrðinni hátt uppi í krónum hnarreistra reynitrjánna.“