Umsagnir um styrkveitingar til Guðbjargar

Umsagnir:

Túbal sótti um styrk f.h. konu sinnar 1912: Guðbjörg fékk kr 125.

Hér með leyfi jeg mjer undirritaður virðingarfyllst, fyrir hönd konu minnar Guðbjargar Þorleifsdóttur í Múlakoti í Fljótshlíð, að óska þess að hinu háa Stjórnarráði Íslands, mætti þóknast að veita henni styrk, allt að 150 kr – eitt hundrað og fimmtíu krónur – til skóggræslu, úr skógræktarsjóði Friðriks konungs 8, af því fé, sem úthlutað verður úr nefndum sjóði á þessu ári.

Hún hefir stundað skógrækt s.l. 14 ár með mjög góðum árangri og á nú orðið fallegan trjágarð við heimii okkar, sem hún selur nú orðið úr árlega um 200 trjáplöntur.

Meðmæli skógræktarstjóra A.F. Kofoed Hansen : Til Stjórnarráðsins: Hjermeð leyfi jeg mjer að stinga upp á því að veita neðannefndum styrk úr skógræktarsjóði Friðriks konungs VIII.

frú Guðbjörgu Aðalheiði Þorleifsdóttur, konu Karls Túbals Magnússonar, bónda á Múlakoti í Fljótshlíð, Rangárvallasýslu. Hún hefur fyrir 12 árum tekið smáar plöntur af reyniviði og birki í Nauthúsagilinu og plantað þær í garði við íbúðarhúsið, og standa þar nú um 2 falleg trje, 1 reyniviður  12 fet á hæð og 1 björk 11 fet á hæð. Af reyniviðnum hef ég tvisvar fengið ágætt fræ til sáningar í græðireitum. Líka skilur hún vel að rækta plöntur er spretta upp úr fræi undir trjánum og hafði í fyrravor reyniviðarplöntur til sölu.

Hún óskar nú að stækka garðinn og vil jeg mæla fram með að veita henni 100 kr styrk til þess.

Tryggvi Gunnarsson skrifar: Konan Guðbjörg Þorleifsdóttir í Múlakoti í Fljótshlíð hefur beðið mig að sækja um styrk fyrir sig úr sjóði konungs Friðriks 8da til þess að hún geti haldið áfram að planta reynivið o.fl. viðartegundum og koma upp girðingum kringum viðarreitinn, til þess að verja hann fyrir skemmdum af skepnum.

Henni hefur orðið talsvert ágegnt; hún hefur nú nokkra álna há reynitrje og hjálpar nágrönnum sínum um reyni og víði-plöntur, sem hún sjálf elur upp, af fræi, sem hún tekur af eigin trjám.

Greinar um alúð hennar við trjáplöntur standa bæði í ritinu „Freyr“ og dagblaðinu „Suðurland“. Jeg geri því af fúsu geði, að mæla með því, að hún geti fengið af nefndum sjóði 100 til 150 kr styrk þ.á.

Virðingarfyllst TG

 

Guðbjörg sækir sjálf um styrk  fyrir árið 1914 og fær kr 100.

Jeg undirrituð, Guðbjörg A. Þorleifsdóttir húsfrú í Múlakoti í Fljótshlíð leyfi mjer hjer með, allra virðingarfyllst, að óska þess, að hinu háa Stjórnarráði mætti þóknast að veita mjer 150-200 krónu styrk til aukinnar skógræktunar af Styrktarsjóði Friðriks konungs VIII. Jeg skal taka það fram að í allmörg undanfarin ár hefi jeg stundað skógrækt á heimili mínu og hafa bæði skógræktarstjóri, skógarvörður og aðrir lokið lofsyrði á þann árangur sem tilraunir mínar í þessum efnum hafa haft.

Blettur sá sem jeg hefi haft undir hendi til þess að gjöra tilraunir mínar á er ca 250 fermetrar og er hann nú fullkommlega plantaður út og þannig of lítill orðinn. – Til þess nú að geta haldið áfram og aukið skógræktartilraunir mínar, finn jeg þessvegna nauðsyn á, að taka nýtt eða stærra stykki til ræktunar. En til þess að leggja í þann kostnað sem til þess útheimtist, bæði að því er girðinguna og undirbúning jarðvegsins snertir, finn jeg mig ekki færa hjálparlaust. En hins vegar gjöri jeg mjer von um, ef jeg gæti orðið aðnjótandi hins umbeðna styrks, að tilraunir mínar gætu hjereftir sem hingað til borið góðan árangur  og að jeg yrði fær til að láta af hendi fyrir lítið verð, plöntur til ýmissa nágranna minna, sem jeg veit að hafa áhuga á að byrja á skógrækt á heimilum sínum, en geta ekki komið því við einmitt sakir skorts á hæfilegum lifandi plöntum. Og þar sem það hlýtur að vera einhuga álit allra, að skilyrði fyrir rætun skógar sjeu hvergi hjer á landi betri en í Fljótshlíð og yfir höfuð Rangárvallasýslu, þá virðist að svo mætti fara, að þessi styrkur, ef hinu háa Stjórnarráði þóknaðist að veita mjer hann, gæti komið til þess að bera tiltölulega mikinn árangur, að því er skógræktina snertir.

Allra virðingarfyllst, Múlakoti 14. apríl 1914 GAÞ

Meðmæli A.F. Kofoed-Hansen: Samkvæmt beiðni frá frú Guðbjörgu Þorleifsdóttur, Múlakoti, Fljótshlíð, við jeg hjermeð leyfa mjer að mæla fram um að veita henni styrkinn, sem hún hefir sótt um. Jeg hef skoðað gróðrarstöðina í Múlakoti í vor, og get vottað, að vinna sú, sem þar hefir verið framkvæmd, hefir borið góðan árangur.

Ásgrímur Jónsson málari skrifar: Húsfrú Guðbjörg Þorleifsdóttir í Múlakoti í Fljótshlíð sækir um styrk til þess að stækka trjágarð sinn, og væri æskilegt að stjórnin veitti henni þennan umrædda styrk. Guðbjög hefir sýnt það í verkinu að hún er fullkomlega fær um að rækta trje. Hún fór þegar á unga aldri að planta blómum og jurtum og seinna byrjaði hún á trjárækt og nú er hún búin að koma upp trjágarði, sem er hreinasta fyrirmynd og einsdæmi upp til sveita, en þetta hefir kostað hana bæði mikinn tíma og peninga en hún er fátæk, en stór vinningur væri það fyrir skógræktina að hún gæti haldið áfram starfi sínu og stækkað garðinn sinn og vil jeg eindregið mæla með því að stjórnin veiti henni sem ríflegastan styrk.

 

1918 er veittur styrkur kr 150.

Hannes Thorsteinsson sækir um skv. umboði Guðbjargar: Samkvæmt hjálögðu umboði leyfi jeg mjer hjermeð að sækja um styrk til skógræktar úr Styrktarsjóði Frederiks konungs hins áttunda handa húsfrú Guðbjörgu Aðalheiði Þorleifsdóttur í Múlakoti í Fljótshlíð.

Guðbjörg húsfreyja hefir, sjerstaklega síðustu árin, lagt mikla rækt við að koma upp reyniviðarplöntum og birkiplöntum af fræi, sem hefir þroskast hjá henni. Ennfremur hefir hún gróðursett hjá sjer gulvíði og margt fleira.

Jeg efast ekki um að hún  fremur flestum verðskuldi að fá svo mikinn styrk til skógræktar sem hægt er að veita, og vona að þau tilmæli megi fá bestu áheyrn. Því fremur sem hjálögð meðmæli ráðunauts búnaðarfjelagsins herra Einars Helgasonar og herra skógarvarðar Einars Sæmundssonar mæla svo eindregið með álitlegum styrki.

Þótt jeg sje eigi fagmaður leyfi jeg mjer að geta þess, að þá er jeg kom að Múlakoti í fyrra haust varð jeg hissa á að sjá, hvað nýgræðingur húsfreyjunna var vel vaxinn, kröptugur og fallegur, og jeg hygg, að það sje ekkert efamál, að hvergi er hjer á landi efnilegri nýgræðingur en í Múlakoti.

Til marks um þetta skal jeg geta þess að eftir því sem mjer mældist voru:

1 árs reyniviðarplöntur ca 20 cm á hæð

2 ára                                   55

3 ára                                  120

Af birki mældi jeg að vísu ekki nema eina 4 ára plöntu, en hún var líka 148 cm á hæð, en þar af hafði hún um sumarið vaxið 65 cm.

Hinn ræktaði reitur ber með sér mikla hirðusemi og ástundun eigandans. Og svo mikið er þar af trjáungviði, að gróðursetja mætti í landareigninni víðáttu mikið af skóglendi, ef fje væri fyrir hendi til friðunar, svo mikið, að þar að auki mætti miðla öðrum, er hafa vildu.

Lotningarfyllst, H.T.

Kofoed-Hansen skrifar:

Undirritaður vill hjer með leyfa sjer að mæla fram með að veita frú Guðbjörgu Þorleifsdóttur í Múlakoti í Fljótshlíð Rangárvallasýslu styrk úr skógræktarsjóði Friðriks konungs VIII.

Hlutaðeigandi hefir gert mikið fyrir garðrækt í sveitinni, og skógræktarstjórinn hefir haft talsvert gagn af starfi hennar, þar sem alltaf hefir verið hægt að fá reyniviðarfræ úr garði þeim sem hún hefir stofnað. Hinn bóndinn í Múlakoti hefir fylgt dæmi hennar, og stofnað hjá sjer garð.

Jeg álit heppileg að stofna í Múlakoti græðireit, í því skyni að útvega mönnum þar í sveit plöntur til stofnunar af görðum og að hafa þar plöntuforða, ef til þess kæmi, að plantað verði í stórum stíl á Hvolsvelli

Einar Helgason skrifar:

Um nokkur ár hefir mjer verið kunn garðræktarstarfsemi Guðbjargar Þorleifsdóttur í Múlakoti í Fljótshlíð  og á síðastliðnu sumri kom jeg til hennar og sá garðinn hennar, þar sem hún ræktar ýmiskonar trjátegundir og blómjurtir. Mest um vert er að sjá ungu reyniviðartrjen, er hún hefir alið upp af fræi, og fargar hún árlega mörgum slíkum plöntum. Þessi stafsemi Guðbjargar er svo mikils verð, að jeg tel hana fyllilega maklega til að hljóta verðlaun úr sjóði Friðriks konungs 8. og vildi jeg með þessum línum mæla sem best með því að hún yrði þeirra verrðlauna aðnjótandi.

Einar Sæmundsen skrifar:

Guðbjörg Þorleifsdóttir húsfreyja í Múlakoti í Fljótshlíð í Rangárvallasýslu hefir beðið mig að mæla með umsókn sinni um styrk úr skógræktarsjóði Friðriks konungs VIII.

Það er mjer ljúft að gera því eftir því sem mjer er kunnugast veit jeg engan þann hjer á landi vera, er verðugri væri til að verða styrks þessa aðnjótandi heldur en Guðbjörgu í Múlakoti. Svo mikinn áhuga hefir hún sýnt trjárækt og svo mikið hefir henni þegar orðið ágegnt í því efni, eins og hver og einn getur sannfærst sem sem kemur að Múlakoti. Síðustu árin hefir hún lagt mika alúð við að ala upp plöntur og tekist það svo vel, að það hafa ekki aðrir betur gert. Og með þessu dæmi hefir hún vakið fjölda manna, bæði í kringum sig og víðar, til þess að starfa að trjárækt og koma á fót skrúðgörðum við heimili sín. Hefir hún mörgum hjálpað um plöntur og gefið þeim hinum sömu óteljandi ráð og leiðbeiningar viðvíkjandi trjáræktinni. – Nú er mjer kunnugt um að hana langar til að færa út kvíarnar, en sjer fram á getuleysi í því efni. Þess vegna væri vel að hún fari ekki bónleið til búðar.