Gestir

Gestabækur

Fyrstu lög um veitinga- og gistihúsarekstur voru sett árið 1926. Í júlí það ár hefjast gestabókarskrif í Múlakoti. Á fyrsta degi bókarinnar skrifuðu 14 manns nöfn sín og í ágúst sama ár skrifuðu 318 gestir, þar af 9 útlendingar. K

Kápa gestabókarinnar frá 1926

Fyrsta síða gestabókarinnar frá 1926

Ári síðar er ákveðið að byggja sérstakt veitinga- og gistihús í Múlakoti. Gestagangurinn er líka með ólíkindum, það ár eru 1178 nöfn skráð í gestabókina og árið 1928 meðan húsbyggingu er alls ekki lokið eru gestir sem skrifa 1843, þar af 43 útlendingar. Þessi skrif spanna maí til september en umferðin er langmest sumarmánuðina þrjá.

Hverjir eru það svo sem ferðast? Með því að rýna í gestabækurnar má sjá ákveðna drætti.

Töluvert hefur varðveist af gestabókum fá Múlakoti, sem eru í geymslu í Héraðsskjalasafninu á Skógum. Þetta eru þó erfiðar heimildir, bæði vantar allmörg ár í og eins sýna gestabækur lágmarksfjölda gesta. Sjálfsagt er best fylgt eftir að menn skrifi nöfn sín fyrstu árin því gestafjöldi virðist mjög breytilegur. Eins sést ekki hvort gestirnir dvelja í Múlakoti eða koma þar aðeins við eina dagstund.

Fyrstu árin er gestafjöldinn með ólíkindum. Í júlí 1926 koma 58 gestir einn daginn og er þá öruggt að húsakynni eru aðeins litla íbúðarhúsið. Sumarið eftir eru 90 – 110 manns á dag ekkert einsdæmi.

Bílaeign landsmanna er greinilega ekki orðin algeng, því það starfsheiti sem oftast er skráð er bílstjóri. Menn virðast hafa tekið á leigu bíl með bílstjóra til að fara í skemmtiferð í Múlakot.

Í fyrsta hópnum sem skráir nöfn sín árið 1926 eru bræðurnir Jón Kaldal ljósmyndari og Leifur Kaldal gullsmiður. Leifur virðist hafa bundið tryggð við staðinn, því nafni hans bregður annað veifið fyrir í gestabókum, síðast sumarið 1974. Jón Leifs tónskáld, náfrændi Leifs, finnst ekki í bókinni, en hann er á ljósmynd úti í garði ásamt Ólafi Túbals. 

Ragnar Ásgeirsson garðyrkjuráðunautur er þó sá sem skrifar oftast í gestabækur Múlakots, ekki bara sumarið 1926. Hann kom iðulega með erlenda gesti sem hann vildi sýna eitthvað markvert á ræktunarsviðinu. KSumarið 1927 kom hann með danskan gest, Johannes Larsen listmálara. Sú heimsókn átti eftir að hafa mikil áhrif á Ólaf, soninn á heimilinu.

Bróðir Ragnars, Ásgeir Ásgeirsson, kom fyrst í heimsókn ásamt eiginkonu sinni, frú Dóru, sumarið 1928. Áratugum síðar, sumarið 1953 þegar Ásgeir var orðinn forseti Íslands og þau hjón komu í opinbera heimsókn í Rangárvallasýslu, gistu þau í Múlakoti. Þeim virðist hafa líkað dvölin vel því örfáum árum síðar komu þau til dvalar með barnabörnin.

Sumarið 1927 er auðséð að tæknin hefur knúið dyra i Fljótshlíðinni. Guðmundur Hlíðdal símaverkfræðingur ásamt ýmsum tæknimönnum er nokkrum sinnum á ferðinni, enda var verið að leggja síma um sveitina það sumar. Eins var Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri á ferðinni því nú var öld smávirkjana bænda gengin í garð.

Það voru bæði háir og lágir sem komu í Múlakot. Kirkjunnar menn, stjórnmálamenn, erlendir sendifulltrúar og ræðismenn, bændur og búalið, læknar og verkfræðingar, kaupmenn og heildsalar, börn og gamalmenni. Ýmsir listamenn lögðu leið sína í Múlakot, svo sem leikarar, sögvarar og tónskáld, að ógleymdum öllum listmálurum, sem sumir dvöldu vikum saman. Það leiðir hugann að fjölskyldu ljóðskáldsins góða, Þorsteins Erlingssonar, sem ólst upp á næsta bæ, Hlíðarendakoti. Ekkja hans, Guðrún Erlings, kom iðulega í heimsókn ásamt börnum sínum.

Hópar sem lögðu leið sína í Múlakot voru margskonar. Sumarið 1928 komu sex hópar úr Árnessýslu.

Eins kom iðulega fyrir að nýstúdentar héldu upp á námsafrek sín, eins og sumarið 1929 þegar Gunnar Thoroddsen og Jón Á Gissurarson voru í broddi fylkingar.

Furðu vekur ferðagleði ísfirskra nemenda. Sumurin 1934, 1936 og 1939 koma samtals um 100 nemendur ásamt kennurum í heimsókn. Ferðalag frá Ísafirði hlýtur að hafa verið kostnaðarsamt eins og samgöngum var háttað á þeim árum. Og þetta var í kreppunni á fjórða áratugnum.

Alltaf var slangur erlendra gesta í Múlakoti, sumarið 1930 sker sig þó úr. Erlendu gestirnir voru alls 112, af einstöku þjóðerni voru flestir frá Kanada. Mikil hátíð var haldin á Þingvöllum til að minnast 1000 ára afmælis alþingis. Þá daga var ekki örtröð í Múlakoti, gestirnir aðeins fjórir samtals. K

Miðað við allan þennan gestagang hlýtur oft að hafa verið þröng á þingi. Þýski jarðfræðingurinn Bruno Schweiser ferðaðist um Ísland sumarið 1935. Í III bindi bókarinnar Úr torfbæjum inn í tækniöld kemur fram að á meðan hann dvaldi í Múlakoti voru næturgestir um 15 talsins. Hann var þó heppinn, fékk eigið hús sem hann gisti í, lysthúsið í garðinum.