Johannes Larsen

Danski listmálarinn Johannes Larsen

Í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis 1930 ákváðu Danir að láta snúa nokkrum helstu Íslendingasögunum yfir á nútíma dönsku. Hugmyndina áttu rithöfundarnir Gunnar Gunnarsson og Johannes V Jensen.  Til að myndskreyta verkið valdist Johannes Larsen, einn helsti málari Dana, sem þá stóð á sextugu. Verkinu átti að ljúka á einu sumri, 1927. Larsen fór fyrst til Þingvalla en síðan í Fljótshlíðina á Njáluslóðir. Þar lágu leiðir Larsens og Ólafs saman og hann gerðist fylgdarmaður Larsens um Ísland, sem varð Ólafi mjög lærdómsríkt. Næst á eftir Ásgrími Jónssyni hafði Larsen óefað mest áhrif á listamannsferil hans. Ólafur málaði og teiknaði í ferðinni og hélt einnig ferðadagbók, sem hann teiknaði í myndir af ýmsu sem fyrir augu bar að hætti Larsens. Mannlíf bls 48-67.

Síðla ágústmánaðar dvöldu þeir í Stykkishólmi eftir að hafa ferðast um Borgarfjörð og Snæfellsnes. Þar tók Hans Svane apótekari þeim mjög vel. Þegar átti að halda ferðinni áfram til Norðurlands barst Larsen símskeyti um að snúa sem snarast heim, kona hans væri dauðvona. Þeir Ólafur riðu sem skjótast í Borgarnes til að taka skip til Reykjavíkur, en Svane apótekari var samferða þangað til að taka á móti konu sinni og fimm ára gömlum syni úr Danmerkurdvöl.

Larsen tók aftur upp þráðinn sumarið 1930 og afrakstur ferðanna reyndist vera 300 pennateikningar. Enn var haldið til Stykkishólms og apótekarinn tók vel á móti þeim. Hann keypti af Ólafi þrjár vatnslitamyndir, tvær úr Breiðafjarðareyjum og eina úr Álftafirði. Þessar myndir hafa verið í eigu fjölskyldunnar síðan. Litli drengurinn apótekarans, Hans, tók stúdentspróf á Íslandi árið 1941, lærði læknisfræði í Danmörku og settist þar að. Myndirnar komu í hans hlut. Nú eru þær komnar aftur til Íslands og eru í eigu Guðrúnar Maríu Svavarsdóttur, en Hans Svane apótekari var langafi hennar.

Fróðlegt er að geta tímasett og rakið feril myndanna svona vel og sjá hvernig Ólafur höndlaði vatnslitina rúmlega þrítugur að aldri.

Frá Stykkishólmi var haldið norður í land og farið alla leið að Mývatni. Í þessum síðasta hluta ferðarinnar var sjónum einkum beint að sögusviði Grettis sögu, Kormáks sögu, Hallfreðar sögu vandræðaskálds og Víga-Glúmssögu.

Johannes Larsen kom ekki aftur til Íslands en ýmsir afkomendur hans hafa heimsótt landið.

Fæðingarstað hans, Möllebakken í Kerteminde á Fjóni hefur nú verið breytt í safn.

Sjá www.johanneslarsenmuseet.dk

Afkomendur Larsens og Ísland

Larsen i Bandaríkjunum

Kamilla Talbot og Michael 2015

Ane Talbot 2017

Danski rithöfundurinn Vibeke Nörgaard Nielsen hefur rannsakað ferðir Larsens á Íslandi mjög vel og skrifað um það bókina SAGAFÆRDEN  sem hefur komið út í íslenskri þýðingu undir heitinu LISTAMAÐUR Á SÖGUSLÓÐUM. Hún hefur einnig verið fararstjóri í fjölmörgum ferðum Dana sem fetað hafa í fótspor Larsens. Fyrsta ferðin var farin sumarið 1999, þá var Jens Larsen, barnabarn Larsens, þátttakandi. Sumarið 2017 voru farnar tvær ferðir, í þeirri síðari tók Ane Talbot þátt, en hún er líka barnabarn listmálarans.