Málararnir í Múlakoti

Allir Listamenn

Á fyrri hluta tuttugustu aldar var Múlakot einkum þekkt fyrir þrennt, garðinn í Múlakoti, hótelið og listmálarana. Náttúrufegurðin í Fljótshlíðinni heillaði marga listamenn og viðmót húsráðenda og aðbúnaður allur laðaði að. Vitað er með vissu um 24 íslenska listamenn og fjóra erlenda, sem dvöldu í Múlakoti og stunduðu list sína. Frá 1926 eru gestabækur drýgstu heimildir um komu í Múlakot, en við það var ekki látið sitja, heldur leitaðar uppi heimildir í sýningaskrám og bókum til að staðfesta að ekki hafi aðeins verið um stutta heimsókn að ræða. Sjálfsagt máluðu fleiri listamenn í Múlakoti eða skrifuðu nöfn sín í gestabækur og vitað er um ýmsa listamenn sem unnu þar áður en gestabókarskrif hófust. Fróðlegt er að skoða listaverkaeign Listasafns Íslands sem tengist Múlakoti og Fljótshlíðinni. Mannlíf bls. 46 – 48.

Ásgrímur Jónsson  f. 1876 d. 1958 bar að margra áliti höfuð og herðar yfir aðra íslenska listamenn í upphafi 20. aldar. Hann hélt til Kaupmannahafnar árið 1897 og stundaði nám við Konunglega listaháskólann  á árunum 1900-1903. Hann ferðaðist síðan töluvert um Evrópu og dvaldi meðal annars á Ítalíu.

Ólafi Túbals sagðist svo frá að hann hefði fyrst séð eiginleg málverk sumarið 1909, þá 12 ára gamall. Hann var staddur í Vestmannaeyjum hjá frændfólki sínu. Þangað kom Ásgrímur frá Hornafirði með myndir sem hann hafði málað um sumarið og drengurinn Ólafur varð hugfanginn. Eins var Muggur, Guðmundur Thorsteinsson, staddur í Eyjum. Hann gaf sig að drengnum og sendi honum síðan vatnsliti og skissubók.

Ásgrímur kom fyrst í Fljótshlíðina vorið 1913 og dvaldi næstu tvö sumur í Múlakoti og  málaði af kappi. Sumarið 1916 kom hann enn í Múlakot og dvaldi þá um skeið í Þórsmörk. Hann mun oftar hafa komið í Múlakot, sé miðað við ártöl á ýmsum málverkum hans og í myndaalbúmi heimilisins er til ljósmynd af Ásgrími frá þessum árum.

Ásgrímur benti ýmsum vinum sínum á að gott væri að dvelja í Múlakoti og iðka þar listina.

Danski listmálarinn Johannes Larsen

Í tilefni af 1000 ára afmæli Alþingis 1930 ákváðu Danir að láta snúa nokkrum helstu Íslendingasögunum yfir á nútíma dönsku. Hugmyndina áttu rithöfundarnir Gunnar Gunnarsson og Johannes V Jensen.  Til að myndskreyta verkið valdist Johannes Larsen, einn helsti málari Dana, sem þá stóð á sextugu. Verkinu átti að ljúka á einu sumri, 1927. Larsen fór fyrst til Þingvalla en síðan í Fljótshlíðina á Njáluslóðir. Þar lágu leiðir Larsens og Ólafs saman og hann gerðist fylgdarmaður Larsens um Ísland, sem varð Ólafi mjög lærdómsríkt. Næst á eftir Ásgrími Jónssyni hafði Larsen óefað mest áhrif á listamannsferil hans. Ólafur málaði og teiknaði í ferðinni og hélt einnig ferðadagbók, sem hann teiknaði í myndir af ýmsu sem fyrir augu bar að hætti Larsens. Mannlíf bls 48-67.