Sýning á verkum listmálarans Ólafs Túbals var haldin í Sögusetrinu á Hvolsvelli 22.10. – 9.11. 2006 á vegum Menningarmálanefndar Rangárþings eystra. Þau myndverk sem þar voru sýnd eiga sér sérstæða sögu. Í gestabók sýningarinnar eru 511 nöfn, en alltaf er umtalsverður fjöldi sem ekki skrifar.
Ólafur Túbals var fæddur í Múlakoti og ól þar allan sinn aldur. Hjónin Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson keyptu Múlakot í nóvember 2000. Þegar farið var að taka til í bænum kom brátt í leitirnar innan um blöð og tímarit, lítið olíumálverk, sem Ólafur málaði 1918 og smám saman fundust fleiri myndir.
Að húsabaki í Múlakoti er 50 fermetra hús, sem upphaflega var lítið trésmíðaverkstæði og geymsla en helmingur hússins var málarastofa Ólafs með stórum norðurglugga.
Þegar Ólafur lést breytti húsið um hlutverk og var notað sem geymsluhúsnæði og bílskúr.
Í kassa í dimmu skoti fannst upprúllað stórt olíumálverk, sem líklega hefur átt að verða altaristafla, en einnig voru í kassanum margar rúllur af umbúðapappír og fleira lauslegt.
Nokkrum mánuðum síðar þegar kassinn var athugaður gaumgæfilega kom í ljós að sumar rúllurnar innihéldu málverk, mörg mjög illa farin. Myndverkin voru hreinsuð og þurrkuð í samræmi við leiðbeiningar starfsmanna Morkinskinnu. Því miður hafði gólfraki og tímans tönn unnið svo á myndunum að á þær vantar töluvert og svo stökkar eru þær, að nauðsynlegt var að geyma þær undir gleri svo unnt væri að handfjatla þær.
Erfitt er að geta sér til um hvað Ólafur ætlaðist fyrir um allar þær myndir, sem fundust ófrágengnar í Múlakoti, e.t.v. hugðist hann halda yfirlitssýningu verka sinna en entist ekki aldur til þess.
Á sýningunni voru liðlega 60 málverk, 15 olíumálverk, 31vatnslitamynd, 13 blýantsmyndir, 2 gerðar með litkrít og ein tússmynd. Auk þess var sitthvað sem vísaði til ferða Ólafs, svo sem skissubók, þrjár ferðadagbækur, litaspjöld, ferðalitatöskur og ferðamyndatöskur. Einnig var sýnd bók Vibeke Nörgaard Nielsen, Sagaferden, um ferðir Johannes Larsen til Íslands þar sem Ólafur var aðstoðarmaður hans.