Munir frá Múlakoti

Í Skógasafni má finna mikið og stórt safn minja úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Þar er talsvert af gripum frá Múlakoti í Fljótshlíð enda var það eitt helsta menningarsetur landsins á sínum tíma. Skógasafn hefur notið góðs af viðleitni og gjafmildi ábúenda Múlakots og það er ánægjulegt að geta sýnt gestum og gangandi þessa muni. Í þessum pistli verður fjallað um nokkra valda muni frá Múlakoti sem varðveittir eru í Skógasafni.

Málverk Ólafs Túbals

Þegar gengið er um Skógasafn má sjá mörg listaverk eftir Ólaf Túbalsson eða Ólaf Túbals. Hann var sonur Guðbjargar Þorleifsdóttur og Túbals Magnússonar í Múlakoti. Ólafur var afkastamikill listamaður og málaði bæði með olíu og vatnslitum landslags- og portrettmálverk.

Málverkin eftir Ólaf Túbals sem eru til sýnis í Skógasafni eru af öllum stærðum og gerðum. Eitt málverka hans er staðsett í Sjóminjasal safnsins og ber af öðrum í stærð. Málverkið er 4,8 m á lengd og 1,2 m á hæð og sýnir menn á hestbaki að smala kindahjörð. Málverkið var til sýnis í Búnaðarbanka Íslands í Austurstræti 5 í Reykjavík á árunum 1935 – 1948 en þá flutti bankinn í nýtt húsnæði og málverkið ekki sett upp á nýjan leik heldur rúllað upp og geymt. Þetta er olíumálverk á striga og kemur úr einkasafni Haralds Ólafssonar sem hann færði Skógasafni hluta af. Þegar gengið er niður í kjallara safnhússins má sjá mörg portrett olíumálverk eftir Ólaf Túbals, meðal annars af eiginkonu hans Láru Eyjólfsdóttur, tvö verk af móður hans og sjálfsmynd ásamt fleiri verkum. 

Textílverk frá Múlakoti

Guðbjörg Þorleifsdóttir húsfreyja í Múlakoti var ekki eingöngu þekkt fyrir trjá- og blómarækt hún var einnig annálaður vefari og hannyrðarkona. Talsvert af textílverkum eftir hana eru í Skógasafni. 

Árið 2020 fór fram hátíð í Múlakoti til að minnast 150 ára afmæli Guðbjargar Þorleifsdóttur en hún fæddist þann 27. júlí 1870. Þar voru flutt ávörp og boðið upp á kaffiveitingar. Skógasafn lánaði nokkra gripi á hátíðina, vefnað Guðbjargar og málverk af henni eftir Ólaf son hennar. Stór salúnsofin rúmteppi og alklæðnaður var hafður til sýnis í baðstofunni í gamla bænum og gátu gestir virt fyrir sér handbragð Guðbjargar. Í safnkosti Skógasafns er einnig að finna handverk eftir tengdadóttur hennar, Láru Eyjólfsdóttur.

Skeggbolli

Einn af sérkennilegri munum safnsins sem vekur alltaf talsverða athygli er skeggbolli Túbals Magnússonar. Bollinn er úr postulíni með gylltum rósum og á honum er áletrun á þýsku: „Deinen schönen Bart zu schutzen soll Dir diese Tasse nützen.“ Það myndi útleggjast á íslensku: „Til að verja fallega skeggið þitt ættir þú að nota þennan bolla.“ Hugmyndafræðin bak við hönnunina er að koma í veg fyrir að skeggið komist í snertingu við heitan vökva og einnig var gjarnan notað vax í skegg og heit gufan gat afmyndað það. Soffía Túbals gaf Þórði Tómassyni bollann þann 10. desember 1960.

Lyklasylgja úr eigu Túbals Magnússonar

Húsfreyjur fyrr á tímum fóru vanalega með lyklavöld bæjarins og báru þær lyklana um mitti sér á lyklasylgjum eða lyklahringjum. Í Skógasafni er að finna forláta lyklasylgju sem var í eigu Túbals Magnússonar í Múlakoti. Munurinn kemur úr einkasafni Haralds Ólafssonar en hann gaf um 2.000 muni úr því til Skógasafns. Lyklasylgjan er úr látúni, 7,5 cm í þvermál, skreytt blaðamunstri og áletrun. Ólafur Túbals færði Haraldi Ólafssyni gripinn en Túbal hafði tjáð syni sínum að þetta væri reiðaskjöldur af söðli, kominn frá Stóru-Borg undir Eyjafjöllum. Þá var áletrunin á gripnum enn óráðin og um árabil var gripurinn geymdur með öðrum reiðtygjum í safni Haraldar. Svo dreymir hann að fasmikil höfðingsleg kona í fornum klæðnaði vitjar hans í draumi og segir skjöldinn ekki vera á réttum stað. Í kjölfarið rannsakar Haraldur gripinn nánar og finnur mynd af svipuðum grip í bókinni Myndir úr menningarsögu Íslands. Þá fyrst réði Haraldur í áletrunina og komst að því að á sylgjunni stendur; „B.Y.V.A.R.I G.U.Ð B.R.U.D.U.R.I.N.N. S.U. S.E.M. B.E.R. M.I.G. U.P.P. A. S.Y.Ð.U“ eða: „Bivari Guð brúðurinn sú, sem ber mig upp á síðu.“ Haraldur taldi konuna sem vitjaði hans í draumi vera Önnu Vigfúsdóttur frá Stóru-Borg og að þetta hafi verið lykjasylgjan hennar.[1]

Menning og listir blómstruðu á bænum Múlakoti í Fljótshlíð og bærinn varð þekktur fyrir það víða um land. Í Skógasafni eru varðveittir á áttunda tug muna frá Múlakoti ásamt talsverðu magni af skjölum og ljósmyndum. Ekki eru allir munirnir frá Múlakoti á sýningu en málverk Ólafs Túbals og fleiri munir þaðan setja sinn brag á safnið.

Andri Guðmundsson

forstöðumaður Skógasafns


[1] Minjasafn Haraldar Ólafssonar. Minjabók 1; Þórður Tómasson, Sýnisbók safnamanns, bls. 103-106.