Heimildarmynd um ferðir Johannesar Larsen um íslenskar söguslóðir

Heimildarmynd um ferðir danska málarans Johannesar Larsen um íslenskar söguslóðir verður synd 21. júní kl. 20:00 í Norræna húsinu.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir! Ath. að viðburðurinn fer fram á dönsku.

Danski kvikmyndasmiðurinn Erik Skibsted hefur nú í samvinnu við rithöf­undinn Vibeke Nør­gaard Nielsen lokið gerð fallegrar heimildar­myndar um ferðir listmálarans Johannesar Larsen um slóðir Íslendinga sagna á árunum 1927 og 1930. Höfundarnir sýna myndina í Norræna húsinu 21. júní nk. og færa hana Íslendingum að gjöf á aldarafmæli fullveldis­ins.

Það voru þeir Gunnar Gunnarsson skáld og danski rithöfundurinn Johannes V. Jensen sem höfðu frumkvæði að þriggja binda viðhafnarútgáfu Íslendinga sagna á dönsku í tilefni af þúsund ára afmæli Alþingis, De islandske Sagaer, 1930-1932. Þeir fengu listmálarann Johannes Larsen til að prýða verkið með pennateikningum af vettvangi sagnanna eins og hinir fornu sögu­­staðir komu honum fyrir sjónir. Í tvö sumur fór Larsen um landið með fylgdar­manni sínum, Ólafi Túbals bónda og málara í Múlakoti, og lauk þá alls við rúmlega 300 teikningar. En Larsen gerði fleira, hann hélt einnig dag­bækur. Með eftirrit þeirra í höndum kom Vibeke Nør­gaard Nielsen hingað og þræddi fótspor Larsens. Það tók hana fimm sumur. Að því loknu skrifaði hún bók um Íslandsferðir Larsens, Sagafærden, 2004. Bókin kom út á íslensku í þýðingu Sigurlínar Sveinbjarnardóttur, Lista­maður á sögu­slóðum, 2015. Síðar varð kvikmyndasmiðurinn Erik Skibsted á vegi bókar­höfundar, og með þeim tókst samvinna um gerð myndarinnar Sagafærden sem fjallar um Johannes Larsen og Íslandsdvöl hans. Sýning myndar­innar tekur 75 mínútur, og þar ber margt fyrir augu, heimili Larsens í Kerte­minde og ferða­leiðir hans hér frá Vík í suðri norður til Mývatns.

Í kvikmyndinni er einnig getið um bók, Martin A. Hansens og Sven Havsteens Mikkelsens, sem var þýdd á Íslensku, 1984, af Hirti Pálssyni, Á ferð um Ísland. Árið 1930 kom Sven Havsteen Mikkelsen mjög ungur til Kerteminde, til þess að nema hjá Johannesi Larsen og Fritz Syberg. Þá sá hann, sem einn af þeim fyrstu, Larsens teikningar frá Íslandi. Árið 1948 kemur Sven Havsteen Mikkelsen aftur til Kerteminde. Að þessu sinni til að nema tréskurð. Sven Havsteen Mikkelsen fór svo seinna, saman með Martin A. Hansen til Íslands, til þess að teikna fyrir bókina “Rejse paa Ísland”. Þeir heimsóttu fyrir ferðina, Johannes Larsen og lánuðu dagbækur hans og kort frá sögu ferðalaginu árin 1927 og 1930.

Erik Skibsted hefur næma tilfinningu fyrir myndefninu og tekst í verki sínu að fanga náttúru landsins og íslenskt andrúm með þeim hætti að úr verður hugstæð mynd um kynni hins danska listmálara af landinu.