Sjónvarpsdagskráin

Það skyldi þó ekki vera farið að slá alvarlega  út í fyrir mér að vera farin að fjalla um sjónvarpsdagskrána, hvað ætli verði þá næst, fótbolti, eða veðrið, ja, það er nú alltaf hægt að tala um veðrið. En sjónvarpsdagskráin verður samt fyrir valinu og það ekki að ástæðulausu.

Á miðvikudagskvöldið 15. janúar kl. 20.20 verður á dagskrá þáttur sem heitir: „Hver stund með þér“ þar sem flutt verða lög Önnu Maríu Björnsdóttur við ljóð sem afi hennar orti til  ömmu hennar yfir 60 ára tímabil.

Og þetta fólk tengist Múlakoti heldur betur: amman, Elín Maríusdóttir, var dóttir Vigdísar Eyjólfsdóttur,  bróðurdóttur Guðbjargar, sem var alin upp í Múlakoti hjá Þuríði ömmu sinni. Elín var mörg sumur í sveit í Múlakoti og tengdist staðnum svo sterkum böndum að hún gifti sig í garðinum. Eiginmaðurinn, Ólafur Björn Guðmundsson lyfjafræðingur, var eins og sérvalinn fyrir Múlakot, þar sem hann var ræktunarmaður af guðs náð, já, svo mikill ræktunarmaður, að hann fékk að snyrta trén í garðinum hennar Guðbjargar, en það fékk ekki hver sem var. Ólafur sagði mér reyndar að þá hefði Guðbjörg farið upp í rúm, dregið sængina yfir höfuð og grátið. Þessi fallegu hjón voru ástfangin alla ævi, eins og ljóðin hans Ólafs bera með sér og það var mannbætandi að þekkja þau.

„Hver stund með þér“ er fyrsta sólóplata Önnu Maríu og samhliða henni var gerð heimildamynd með sama nafni. Við hvetjum ykkur til að hlusta og njóta.

Elín Maríusdóttir og Ólafur Björn Guðmundsson