Framvinda smíðavinnu í Múlakoti

Smiðirnir okkar hafa unnið af kappi undanfarnar vikur en nú taka þeir sér nokkurt hlé því næst er nauðsyn að mála.

Leitað er í dyrum og dyngjum að málara sem kann listina við að nota gamaldags linoleum-málningu, því varla er við hæfi að mála hús sem er byggt 1897 með plast-málningu.

En nú vil ég bjóða ykkur að ganga í bæinn.

Þið munið flest sjálfsagt eftir milljón krónu hurðinni sem var smíðuð í fyrra fyrir bíslagið  eða milliganginn á milli elsta hússins og veitingahússins. Það er sú hurð sem sést á fyrstu myndinni. Vegginn umhverfis þurfti að endursmíða og sömuleiðis loftið. Næst er ykkur boðið að ganga til stofu. Erfitt er að taka mynd af nýsmíði og endurnotun gluggaramma að innanverðu, en fallegir eru þeir. Þá kemur  hornið í stofunni, hurðin, sveigurinn umhverfis millivegginn og hvíti listinn á mótum kverkar og lofts þar má sjá móta fyrir útlínum viðarteinungsins – að hluta til. Næsta mynd sýnir loftið í ganginum frá stofu í hin herbergin. Þar stóð ekki steinn yfir steini þótt ég ætti frekar að segja spýta yfir spýtu. Litbrigði loftapanelsins segja frá útsjónarsemi smiðanna okkar við að endurnota það sem heillegt er. Við endum á baðstofunni. Þar þurfti líka að endurnýja mörg spjöld í „stokkaklæðningunni“.

Góð kveðja frá Múlakoti

Tjaldakveðja frá Múlakoti

Við hjónakornin höfum verið með böggum hildar að undanförnu. Fyrir liðlega hálfum mánuði fundum við tjaldshræ úti við hlið, sem fallið hafði fyrir óvinarhendi. Þetta var ómerktur fugl þannig að ekki var það hún Sokka okkar, enda sáum við hana vestast á túninu nokkru seinna. En hún var sárasjaldan kringum húsið eins og hennar var vani, sást samt svona hér og þar, alltaf ein.Ég var farin að semja jarðarfarargrein í huganum, en ekkert varð úr skrifum.

Í gær heyrðum við svo skrítin og skemmtileg hljóð utan af stétt og viti menn, þarna var Sokkaparið okkar komið með tvo úfna, en stóra dúnhnoðra með sér.

Það eru allt önnur hljóð í tjaldinum þegar hann „talar“ við ungana en þegar hann skammar nágrannana, alveg dásamlegt.

Í gær hélt fjölskyldan til á stéttinni umhverfis húsið, enda höfum við í mörg ár talið að hreiðrið sé á grasþakinu. Foreldrarnir voru báðir á sprettinum að bera í ungana fæðu, komu hlaupandi með stóra maðka lafandi niður úr gogginum, sem þeir héldu svo niðri meðan unginn fékk sér bita. Stórskemmtilegt.

Í morgun var herra Sokki einn á ferð með annan ungann sem hann mataði í gríð og erg. Ótrúlegt en satt, þá náði ég bærilegum myndum út í gegnum rúðuna.

Aðalfundarboð

Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti

Aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti vegna starfsársins 2019 verður haldinn að Kvoslæk í Fljótshlíð föstudaginn 19. júní klukkan 17.00. Dagskrá samkvæmt samþykktum félagsins:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar
  7. Önnur mál.

Að loknum aðalfundarstörfum verða kaffiveitingar,

Með félagskveðju
Björn Bjarnason
formaður

Góðar gjafir

Nú má eiginlega segja að sjaldgæfir séu hvítir hrafnar. Það hefur ekki verið gestkvæmt í Múlakoti að undanförnu enda varla við öðru að búast nú á tímum ferðatakmarkana. Þeim mun ánægjulegra  er að fá góða gesti. Þann 12. maí komu tvær sómakonur í heimsókn, þær Ólöf Kristófersdóttir á Útgörðum og Helga Hansdóttir á Hvolsvelli.

Helga kom færandi hendi. Hún afhenti okkur tvo muni til varðveislu í Múlakotsbænum, kleinujárn og ljósmynd. Báðir munirnir eiga sér sína sögu. Ljósmyndin er af Reyni, syni þeirra Láru Eyjólfsdóttur og Ólafs Túbals, en Reynir var síðasti hefðbundni bóndinn í Múlakoti vesturbæ. Reynir gaf Helgu þessa góðu ljósmynd, sem var tekin þegar hann var tæplega fimmtugur. Síðasta hálfan annan áratuginn bjó hann einn í Múlakoti, en hann var duglegur að heimsækja fólk, átti fastan vinahóp sem hann heimsótti reglulega og var Helga í þeim hópi. Í einni heimsókninni færði hann Helgu kleinujárnið. Þetta var gamla kleinujárnið frá Múlakoti og bar með sér að það hafði verið mikið notað. Skaft kleinujárnsins er úr tré. Ef myndin er skoðuð vel sést að úr því hefur eyðst. Þetta er músarnart, en af skaftinu hefur verið bragð og ilmur af öllu því deigi sem það komst í snertingu við í Múlakoti. Hjólið er líklega úr messing, mjög fallega mótað en dálítið slit komið í öxulinn, enda mikið notað, bæði var  mikið bakað í Múlakoti á tímum hótelrekstursins og eins notaði Helga það við starf sitt í eldhúsi Grunnskólans á Hvolsvelli. Þar starfaði Helga lengi og var elskuð af skólabörnum sem leituðu mikið til hennar ef á bjátaði. Helga er ákaflega barngóð og bóngóð og næstum er unnt að segja að hún hafi verið á við heila félagsmálastofnun á Hvolsvelli. Hún er mikill safnari, vettlingasafn hennar er frægt og hefur verið til sýnis víða um land. Eins hefur hún safnað miklu af handavinnu, sem hún gefur ef hún telur að munirnir eigi betur heima hjá öðrum en henni sjálfri. Eins heldur hún utan um ýmsa smáhluti og þetta vissi Reynir, taldi hana vel að kleinujárninu frá Múlakoti komna og bað hana að njóta vel. Nú er járnið komið aftur að Múlakoti.

Myndin af Reyni verður sett upp í gamla herberginu hans á loftinu yfir veitingasalnum. Þegar er búið að endurnýja gluggann á því herbergi og þegar fjárhagurinn leyfir verður farið í viðgerðir á því húsnæði öllu.

Góð kveðja frá Múlakoti

Gæsagangur

Að morgni 10. maí 2020 var ég á leiðinni út í Guðbjargargarð í hreinsunarvinnu, þegar ég rak augun í gulhvíta „hrúgu“ á miðri grasflötinni ofan við hús okkar. Ó já, þetta var sem okkur sýndist, myndarlegt gæsaregg.

Í sömu svipan rifjaðist upp hvernig  við gerðumst gæsabændur. Þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa síðla apríl 2010 sendi hann annað veifið öskugusur yfir Fljótshlíðina og fengum við okkar hluta af því. Farfuglarnir voru sem óðast að koma til landsins og létu eitt eldgos ekki trufla sig – og þó. Gæsirnar sem venjulega höfðu aðeins viðkomu á Múlakotstúnunum virtust ekki komast á hefðbundnar varpstöðvar, en settust að hjá okkur. Það var dapurlegt að sjá þessa stóru fugla vappa um öskugráa og miður sín. Nokkur gæsapör komu sér samt vel fyrir í brekkunum, verptu og komu upp ungum. Já, það var ekki mikið unnið við garðahreinsun vorið 2010, þeim mun meira horft út um gluggana á eldgosið.

 Næstu árin fannst okkur sem varppörum fjölgaði og svo kom að tvisvar fundum við heil egg heima við hús okkur til mikillar furðu, því ekki var um  neina hreiðurgerð að ræða þar og varla höfðu gæsirnar misst egg á flugi.

Skýringuna fengum við fyrst nokkrum árum seinna, þegar við vorum að gróðursetja á skógræktarsvæðinu okkar niðri á aur. Við áttum mjög fallegan og gæfan íslenskan hund, hann Mána.

Hann fylgdi okkur alltaf eftir og gegndi vel öllu tiltali. Eitt skiptið brá þó öðru við. Hann reisti sig upp og starði einbeittur fram fyrir sig og tók síðan strikið burtu og lét sem hann heyrði ekki köllin í okkur.

Eftir dágóða stund kom hann til baka en nú var sem hann læddist áfram, nærri skreið. Eitthvað var hann með í kjaftinum og viti menn, hann lagði heilt gæsaregg í lófana á mér. Hvernig honum tókst að ná utan um eggið án þess að brjóta það skil ég ekki, því gæsaregg eru um 10 cm á lengd og 6 á breidd.

Nú skildum við hvernig stóð á gæsareggjunum heima við hús, einmitt á stöðum þar sem hundurinn lá oft, hann var að draga björg í bú, en snerti ekki við egginu sjálfur þótt það lægi úti dögum saman.

En þetta var ekki skýringin á egginu sem við fundum núna, því Máni blessaður er löngu genginn á vit feðra sinna. Eggið var líka opið og búið að hreinsa úr því hverja örðu. Þarna hefur líkast  til verið hrafn á ferðinni þótt mér finnist heilt gæsaregg vera ótrúlega stórt í hans gogg, því varla hefur refur verið á ferðinni svona heima við hús.

Já, gæsabændur erum við orðin núna því milli 10 og 20 pör eru orðin fastagestir hérna, eftir gosið „góða“.

Vorboðinn ljúfi

Jónas orti um vorboðann ljúfa – þröstinn góða, en hann er naumast vorboðinn hér í Fljótshlíðinni, mér finnst sem þrestir séu hér meira og minna á vappi allan veturinn, enda dregur Trjásafn Skógræktarinnar í austurbænum til sín alls kyns fugla, miklu fleiri en ég kann að sundurgreina og nefna.

En Jónas orti meira þar sem fuglar koma við sögu. Í síðasta pósti skrifaði ég um atburði dymbilvikunnar. Þeir rifjuðu svo sannarlega upp fyrir mér kvæðið sem ég grét yfir sem telpa, kvæðið um „gæðakonuna góðu“. Þarna horfðum við hreinlega upp á val í vígahuga og þótt fórnarlambið væri ekki rjúpa var það bjargdúfa sem átti sér aðsetur í Trjásafninu, ásamt stórum dúfnahópi.

Nei, vorboðinn ljúfi er í mínum huga eiginlega Sokkaparið okkar. Þetta er a.m.k. þriðja vorið sem herra og frú Sokki hafa glatt okkur með endurkomunni á bæjarhólinn. Þótt söngurinn í Tjaldinum sé ekki beinlínis á lágu nótunum er hann hressandi. Tjaldurinn, sem fékk Sokkanafnið, á það svo sannarlega skilið, hann ber þrjá auðkennishringi, á hægra fæti einn hvítan og á vinstra fæti bæði hvítan og gulan hring. Í fyrra komumst við svo sem að því að það er ekki herra Sokki, heldur frú Sokka sem ber skrautið, en það skiptir ekki öllu, Sokkaparið kom í dymbilvikunni  og stutt er í sumardaginn fyrsta.

Annar vorboði er kominn hingað í Múlakot, þar á ég við smiðina okkar, þá Sigmund og Sigurð. Í dag var fyrsti vinnudagur þeirra á staðnum og hamarshögg og sagarhvinur voru sem ljúfasta tónlist í okkar eyrum, já eiginlega sem fuglasöngur. Í dag eru 10°C á hitamælinum, snjóskaflarnir minnka óðum og fært orðið „réttu leiðina“ niður á þjóðveg. Vorkveðjur frá Múlakoti

Úthlutun úr Húsafriðunarsjóði

Nú er gaman að segja fréttirnar.

Búið er að birta lista yfir úthlutun Húsafriðunarnefndar, en sjálfseignastofnunin sótti um styrk til sjóðsins. Verkefnið fékk myndarlega upphæð í sinn hlut, heilar fjórar milljónir. Þessum fjármunum verður vel varið því þeir munu fara til endurbóta innan húss í elsta húsinu, þessu frá 1897. Við vitum að það þarf að velta við hverri krónu, og gamli bærinn verður varla rukkaður um snjómokstur heldur verður traustið sett á vorrigningar, þótt það sé reyndar frostspá fram yfir helgi.

                Í fyrradag heyrðist í fyrsta vorboðanum hér í Múlakoti, já það fer ekkert á milli mála þegar Tjaldurinn hefur upp raustina. Hvort þetta voru herra og frú Sokki sem glöddu okkur síðastliðið vor veit ég ekki, enn er of mikill snjór kringum  húsið til að þar sé ákjósanlegt lendingarsvæði fyrir Tjalda, en bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga.

Góð kveðja frá Múlakoti

Sjónvarpsdagskráin

Það skyldi þó ekki vera farið að slá alvarlega  út í fyrir mér að vera farin að fjalla um sjónvarpsdagskrána, hvað ætli verði þá næst, fótbolti, eða veðrið, ja, það er nú alltaf hægt að tala um veðrið. En sjónvarpsdagskráin verður samt fyrir valinu og það ekki að ástæðulausu.

Á miðvikudagskvöldið 15. janúar kl. 20.20 verður á dagskrá þáttur sem heitir: „Hver stund með þér“ þar sem flutt verða lög Önnu Maríu Björnsdóttur við ljóð sem afi hennar orti til  ömmu hennar yfir 60 ára tímabil.

Og þetta fólk tengist Múlakoti heldur betur: amman, Elín Maríusdóttir, var dóttir Vigdísar Eyjólfsdóttur,  bróðurdóttur Guðbjargar, sem var alin upp í Múlakoti hjá Þuríði ömmu sinni. Elín var mörg sumur í sveit í Múlakoti og tengdist staðnum svo sterkum böndum að hún gifti sig í garðinum. Eiginmaðurinn, Ólafur Björn Guðmundsson lyfjafræðingur, var eins og sérvalinn fyrir Múlakot, þar sem hann var ræktunarmaður af guðs náð, já, svo mikill ræktunarmaður, að hann fékk að snyrta trén í garðinum hennar Guðbjargar, en það fékk ekki hver sem var. Ólafur sagði mér reyndar að þá hefði Guðbjörg farið upp í rúm, dregið sængina yfir höfuð og grátið. Þessi fallegu hjón voru ástfangin alla ævi, eins og ljóðin hans Ólafs bera með sér og það var mannbætandi að þekkja þau.

„Hver stund með þér“ er fyrsta sólóplata Önnu Maríu og samhliða henni var gerð heimildamynd með sama nafni. Við hvetjum ykkur til að hlusta og njóta.

Elín Maríusdóttir og Ólafur Björn Guðmundsson

Ný endurminnig á heimasíðuna

Skammdegið hefur lagst að með öllum sínum þunga og á rigningardegi er æði dimmt yfir. Jafnvel í bjartviðri kemst sólin ekki yfir hákoll Jökulsins, en hún sést samt þegar vestur fyrir fjallsranann er komið og sólsetrið getur verið ótrúlega litskrúðugt.

Það gerist heldur ekkert sérstakt á framkvæmdasviðinu hér í Múlakoti, þótt dælan sé látin ganga allan sólarhringinn. Þar á ég við varmadæluna, sem gengur stöðugt á tempruðum hita og þurrkar elsta húsið smám saman.

Við erum helst að vinna við heimasíðuna, og ég er sannfærð um að margir geta lagt okkur lið með því að rifja upp endurminningar tengdar Múlakoti. Við tökum fegins höndum á móti texta og/ eða myndum.

Daði Sigurðsson fyrrum bóndi á Barkarstöðum sendi okkur línu. Sem góður nágranni á hann margar minningar tengdar íbúum Múlakoti  og hann rifjaði upp minningar tengdar Túbal Magnússyni, en þeim fækkar stöðugt,sem kynntust honum í lifanda lífi.

Ýmsir gestir sem koma í Múlakot í fyrsta skiptið spyrja um nafnið Túbal, enda eru þeir varla margir sem bera nafnið. Við skyndileit í Íslendingabók fannst enginn.

Túbal Magnússon, eiginmaður Guðbjargar bar þetta óvenjulega nafn og börn hans tóku það upp sem ættarnafn, eða fjölskyldunafn, eins og algengt var á fyrri hluta 20. aldar og kölluðu sig Túbals, en Reynir, sonur Ólafs, var líklega sá síðasti sem notaði fjölskyldunafnið stöku sinnum.

Á bak við nafnið er dálítil saga. Túbal, sem hét fullu nafni Túbal Karl, var fæddur 31.12.1867 á Stóru-Vatnsleysu í Gullbringusýslu. Foreldrar hans voru skráð í dvöl á Stóru-Vatnsleysu, þau Valgerður Tómasdóttir og Magnús Eyjólfsson, ættaður úr Fljótshlíð. Þau voru ógift.

Magnús hafði áður eignast son sem fékk nafnið Túbal Kain, en drengurinn dó kornungur. Nú myndu einhverjir sperra eyrun því Kains nafnið tengja menn helst við Kain, son Adams og Evu, sem var fyrsti bróðurmorðingi sköpunarsögunnar. Ættleggur Kains er rakinn í fyrstu Mósebók og þar er nefndur afkomandi í sjötta lið Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Magnús Eyjólfsson  var einn helsti gullsmiður Suðurnesja og hefur e.t.v. viljað gefa syninum heiti málmsmiðs – hins mikla málmsmiðs.

Áður tíðkaðist að börn sem foreldrar gátu ekki séð fyrir voru send á sveit föður. Alla vega var litli drengurinn með mikla nafnið, Túbal Karl Magnússon, skráður í prestþjónustubók Breiðabólstaðar árið 1868 sem sveitarbarn á Kollabæ. Valgerður móðir hans er sömuleiðis skráð í Kollabæ, en fluttist síðan aftur að Stóru-Vatnsleysu .

Þorleifur, faðir Guðbjargar, var föðurbróðir Túbals, sem varð vinnumaður í Múlakoti og ráðsmaður Þuríðar, móður Guðbjargar, þegar Þorleifur féll frá. Guðbjörg og Túbal tóku við búinu 1897. Túbal andaðist 9. maí 1946.

Greinina má nálgast hér á heimasíðunni undir “Minningar frá Múlakoti” hnappnum.

Góð kveðja frá Múlakoti

Lægðin stóra – veturnáttalægðin

Mér brá þegar ég leit út um eldhúsgluggann í morgun og þó brá mér jafnvel meira þegar við fórum að skoða veðurstöðina, en það er athöfn sem jafnast á við að bursta tennurnar á morgnanna. Klettaveggurinn fyrir ofan hlaðið var svellaður eins og á janúarmorgni. Ef ekki hefði verið græn grasflöt og allaufgað Gullregn  við hliðinni á grenitrénu  hefði ég kokgleypt við tímasetningunni janúar. Veðurstöðin staðfesti illan grun, lágmarkshiti næturinnar var ekki hiti heldur frost, já 8 stiga frost. Ónotin voru ekki minni þegar leitað var á náðir Eyjafjallajökuls, hann faldi sig á bak við illyrmislegan skýjahnút, sem snjóaði svo úr þegar líða tók á daginn. Nú væri erfitt að finna grænan grasblett til að taka mynd af.

Eins gott að einangrunarmotta verður lögð á loftið yfir gamla bænum til að halda velgjunni frá varmadælunni  inni svo smiðirnir okkar verði ekki krókloppnir þegar þeir mæta aftur.

Mig langar til að kafa dálítið ofan í orðið veturnætur.  Eins og oft áður má finna skýringu hjá Árna Björnssyni í Sögu daganna. Hann vitnar í tímatalið – gamla og það nýja sem líka var kallað nýji stíll og er frá því um 1700. Við vitum  öll að sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi og fyrsti vetrardagur alltaf  á laugardegi og vikurnar eru 52. Jafn margar vikur eiga að vera í sumri og vetri, þannig að fyrsti vetrardagur ætti eiginlega að vera á fimmtudegi svo við erum eiginlega komin með tvo daga aukreitis, þetta eru veturnæturnar.

Veturnætur voru vel nýttar hér áður fyrr, þær voru notaðar til góðra vina funda, veisluhalda af ýmsu tagi, enda var búrið fullt, slátrun búpenings lokið og jafnvel búið að leggja í drykkjarföng.

Þetta ættum við e.t.v. að taka okkur til fyrirmyndar, bjóða heim góðum vinum, gleðjast saman yfir góðu, liðnu sumri. Við hér í Rangárþingi eystra megum þó gæta okkar að ekki fari eins og þegar Gunnari og Hallgerði var boðið í veturnótta-gilli að Bergþórshvoli og eiginkonunum lenti illilega saman.

Mál er að ljúki.

Góð kveðja frá Múlakoti

Eyjafjallajökull falinn bak við illyrmislegan skýjahnút