Nú er gaman að segja fréttirnar.
Búið er að birta lista yfir úthlutun Húsafriðunarnefndar, en sjálfseignastofnunin sótti um styrk til sjóðsins. Verkefnið fékk myndarlega upphæð í sinn hlut, heilar fjórar milljónir. Þessum fjármunum verður vel varið því þeir munu fara til endurbóta innan húss í elsta húsinu, þessu frá 1897. Við vitum að það þarf að velta við hverri krónu, og gamli bærinn verður varla rukkaður um snjómokstur heldur verður traustið sett á vorrigningar, þótt það sé reyndar frostspá fram yfir helgi.
Í fyrradag heyrðist í fyrsta vorboðanum hér í Múlakoti, já það fer ekkert á milli mála þegar Tjaldurinn hefur upp raustina. Hvort þetta voru herra og frú Sokki sem glöddu okkur síðastliðið vor veit ég ekki, enn er of mikill snjór kringum húsið til að þar sé ákjósanlegt lendingarsvæði fyrir Tjalda, en bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga.
Góð kveðja frá Múlakoti