Vorboðinn ljúfi

Jónas orti um vorboðann ljúfa – þröstinn góða, en hann er naumast vorboðinn hér í Fljótshlíðinni, mér finnst sem þrestir séu hér meira og minna á vappi allan veturinn, enda dregur Trjásafn Skógræktarinnar í austurbænum til sín alls kyns fugla, miklu fleiri en ég kann að sundurgreina og nefna.

En Jónas orti meira þar sem fuglar koma við sögu. Í síðasta pósti skrifaði ég um atburði dymbilvikunnar. Þeir rifjuðu svo sannarlega upp fyrir mér kvæðið sem ég grét yfir sem telpa, kvæðið um „gæðakonuna góðu“. Þarna horfðum við hreinlega upp á val í vígahuga og þótt fórnarlambið væri ekki rjúpa var það bjargdúfa sem átti sér aðsetur í Trjásafninu, ásamt stórum dúfnahópi.

Nei, vorboðinn ljúfi er í mínum huga eiginlega Sokkaparið okkar. Þetta er a.m.k. þriðja vorið sem herra og frú Sokki hafa glatt okkur með endurkomunni á bæjarhólinn. Þótt söngurinn í Tjaldinum sé ekki beinlínis á lágu nótunum er hann hressandi. Tjaldurinn, sem fékk Sokkanafnið, á það svo sannarlega skilið, hann ber þrjá auðkennishringi, á hægra fæti einn hvítan og á vinstra fæti bæði hvítan og gulan hring. Í fyrra komumst við svo sem að því að það er ekki herra Sokki, heldur frú Sokka sem ber skrautið, en það skiptir ekki öllu, Sokkaparið kom í dymbilvikunni  og stutt er í sumardaginn fyrsta.

Annar vorboði er kominn hingað í Múlakot, þar á ég við smiðina okkar, þá Sigmund og Sigurð. Í dag var fyrsti vinnudagur þeirra á staðnum og hamarshögg og sagarhvinur voru sem ljúfasta tónlist í okkar eyrum, já eiginlega sem fuglasöngur. Í dag eru 10°C á hitamælinum, snjóskaflarnir minnka óðum og fært orðið „réttu leiðina“ niður á þjóðveg. Vorkveðjur frá Múlakoti