Mér finnst haustið hafa komið eins og hendi væri veifað. Skyndilega hefur næturhitinn lækkað ískyggilega. Þótt hann hafi ekki enn farið niður fyrir frostmark þá hefur hann nálgast núllið ískyggilega.
Þetta finna hinir vængjuðu vinir okkar á sér, tjaldurinn hefur yfirgefið okkur fyrir allnokkru síðan og fýlsungarnir hafa hert upp hugann og fleygt sér fram af hreiðurbrúninni í ómeðvitaðri þrá eftir hafinu með öllu sínu æti. Þrestirnir hendast á milli greina reynitrjánna til að ná í sem mest af stóru berjunum svo þeir hafi sem mest af orku í langflugið mikla, þótt drjúgur hópur þrasta hafi hér vetursetu.
Gaman væri að vita hvort það séu ekki sömu fuglarnir sem koma hingað ár eftir ár, eins og frú Sokka Tjaldsdóttir sem virðist hafa bundist uppeldisstöðvunum sterkum böndum, en það er spurning sem erfitt er að fá svar við.
Við sjáum þó að Vinir Múlakots hafa margir bundist æskuslóðunum sterkum böndum, um það vitna endurminningarnar sem þeir hafa leyft okkur, sem ekki erum alin upp í Fljótshlíðinni, að njóta með sér. Eins hafa ýmsir gestir deilt með okkur sínum minningum. Þessi skrif hafa fengið mjög góðar undirtektir og margir látið í ljósi von um sem flestar greinar.
Halldóra Guðmundsdóttir er ein okkar ljúfu farfugla, fædd og uppalin í Fljótshlíðinni. Hún hefur tengst hlíðinni fögru sterkum böndum eins og við sjáum í meðfylgjandi viðtali.
Bestu þakkir og kveðjur frá Múlakoti