Afhending gjafar til Skógasafns

Afhending gjafar til Skógasafns

Síðastliðinn föstudag hittist lítill hópur í Skógasafni. Tilefnið var afhending gjafar til Skógasafns.

Gjöfin var garðbekkur og ekkert venjulegur bekkur.

Efniviðurinn var reyniviður, vaxinn í Múlakoti, önnur kynslóð frá lítilli reyniplöntu sem Eyjólfur Þorleifsson, sonur hjónanna í Múlakoti, Þuríðar og Þorleifs, sótti í Nauthúsagil árið 1897 og gaf Guðbjörgu systur sinni.

Sá sem felldi tréð var Björgvin Eggertsson, kennari við Garðyrkjuskólann á Reykjum og meistari  í trjáfellingum.

Hönnuður og smiður bekkjarins er Skúli Jónsson fv. bóndi í Þykkvabæ í Landbroti.

Gefandi var Skúli Jónsson og stjórn Sjálfseignarstofnunarinnar í Múlakoti; Stefán Guðbergsson bóndi í Múlakoti formaður, og stjórnarmennirnir Anton Kári Halldórsson oddviti sveitarstjórnar í Rangárþingi eystra og Andri Guðmundsson forstöðumaður Skógasafns

Viðtakandi var Andri Guðmundsson forstöðumaður Skógasafns

Vottur Héðinn Bjarni Antonsson fulltrúi nýjustu kynslóðar safngesta

Já, þetta gerist varla sunnlenskara

Góð kveðja frá Múlakoti

Close Menu