Að liðinni Jónsmessu

Síðasta Jónsmessunótt var með þeim fegurstu nóttum sem ég hef upplifað í Múlakoti, blankalogn og Eyjafjallajökull og Dímon roðagylltir. Það vantaði ekkert annað en morgundöggina til að hitta á réttu baðstundina.

Sagt er að það sé allra meina bót að velta sé upp úr Jónsmessudögginni og það gerði ég einu sinni sem telpa norður í Húnavatnssýslu. Það er líklega þess vegna sem ég hef verið jafn heilsuhraust og raun ber vitni.

En það eru fleiri en mannfólkið, sem njóta þess að fá sér að. Á tjörninni okkar voru í síðustu viku meira en 10 gæsapör sem nutu lífsins og kenndu ungunum sínum sundtökin, þetta eru sjálfsagt afkomendurgæsanna sem urðu innlyksa hjá okkur í Eyjafjallagosinu fyrir liðlega 10 árum síðan.

En Það er sannarlega ástæða til að heimsækja Múlakotum þessar mundir. Garðurinn er kominn í sumarskrúða og blómgunin á fullt. Villieplin frá Alaska sem Hákon Bjarnason skógræktarstjóri eru að opna blómhnappana og virðast verða þakin blómum. Það er eitthvað annað en fínu eðal-eplin mín hjá Málarastofunni, þau létu gabbast af síðvetrarblíðunni og tóku of snemma við sér, eru sviðin og grá og koma ekki með nein blóm,, hvað þá aldin, en í fyrra fengum við tugi kílóa.

Bóndarósin skartar sínu fegursta og það er sannarlega þess virði að koma í skoðunarferð  með sauma- eða spilaklúbbnum og njóta staðarins, innan húss sem utan, verið velkomin.

Góð kveðja frá Múlakoti