Dagur mikilla átaka

Í Múlakoti er mikið um að vera þessa dagana, ekki aðeins hjá fuglunum, heldur líka á framkvæmdasviðinu.

Nýr rafstrengur er kominn heim að húsi og Einar rafvirki mun leika listir sínar með hann. Þar með verður unnt að setja upp varmadælu og koma  dálítilli velgju í elsta húsið þannig að unnt verður að vinna innan húss.

En hitinn er ekki það eina, það þurfti að flytja burt húsgögn og fjarlægja veggfóður og striga af veggjum og loftum og dúk af gólfum. Þá fyrst er unnt að meta ástand panels og gólfborða, hve mikið þarf að endurnýja. Vaskir piltar í meistaraflokki knattspyrnufélags Rangæinga tóku hreinsunarstarfið að sér, þeir unnu hér síðasta föstudags- og sunnudagskvöld, 6 menn hvort kvöld. Þessir drengir eru algjörar hetjur, þeir létu ryk og þrengsli ekkert á sig fá. Þegar verkinu var lokið blasti við okkur algjörlega annar bær, önnur veggáferð, aðrir litir.

Baðstofan er með fallega bláum veggpanel og bleikdrapplituðum neðri hluta. Þessir veggfletir eru aðskildir með stokklista og gerð panelsins er mismunandi ofan og neðan stokklistans. Þessi bleiki litur er þó ekki upprunalegur, bak við ofn kom í ljós dökkbrúnn litur.

Hjónakamersið er í mjög fölbláum lit. Þegar við sýndum sérfræðingi þessar myndir efaðist hann um að liturinn væri upprunalegur. Og viti menn, þegar ofninn var fjarlægður, komu aðrir litir í ljós.

Loks er mynd úr stofu. Þessi veggur er klæddur heilum panel en annar veggur er með tvískiptan panel.

Nú þegar smiðirnir eru komnir til starfa koma örugglega fleiri hlutir í ljós.

Góð kveðja frá Múlakoti