Fréttir frá Múlakoti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Í póstum til vina Múlakots hefur oft verið minnst á garðyrkjukonuna Guðbjörgu Þorleifsdóttur í Múlakoti. Það er ekki að undra því hún var sannur brautryðjandi í garðrækt. Allt virtist leika í höndunum á henni hvað ræktun snerti og það orð komst á að hefði einhver planta, sem var ný í ræktun á Íslandi, ekki lifað hjá Guðbjörgu, væri vonlítið að hún þrifist annars staðar.

En það var fleira sem lék í höndunum á þessari konu. Lítið hefur verið fjallað um vefnaðarkonuna Guðbjörgu, enda fátt til í Múlakoti, sem minnir á þann þátt af starfi hennar, nema slitrur af vefstól. Á síðasta aðalfundi Vinafélagsins, undir liðnum önnur mál, sýndi Andri Guðmundsson, safnstjóri á Skógum, ferðaföt Ólafs Túbals, sem þar eru varðveitt. Klæðið er ofið af Guðbjörgu, einstaklega fallegt og vel varðveitt.

Ferðaföt Ólafs Túbals

Sjálfseignarstofnuninni hefur nýlega áskotnast meira en 100 ára gamall rokkur, sem Sigurður Karl Sigurkarlsson gaf, til minningar um þann mikilvæga þátt heimilisiðnaðarins, sem ullarvinnslan var. Rokkur Guðbjargar, eða Jónínu vinnukonu, sem báðar spunnu mikið, hefur ekki varðveist í Múlakoti. Vinafélagið greiddi viðgerð á rokknum og hann var líka til sýnis á aðalfundinum.

Þorsteinn Jónsson og grafan góða

Sumarstarfið er hafið í Múlakoti og fyrsta skóflustungan hefur verið tekin í orðsins fyllstu merkingu. Til að unnt sé að hefja viðgerðir innan húss í elsta húsinu þarf að vera unnt að halda á því dálítilli velgju og til þess þarf rafmagn. Stysta leiðin með nýja heimtaug var eftir tröðinni austan við garðinn. Sá hængur er á að tröðin er aðeins 170 cm á breidd svo vandi er að koma við tækjum. Þarna læddist Þorsteinn Jónsson um með 150 cm breiða gröfu og gróf skurð fyrir strenginn, leiki aðrir það eftir honum. Við þekkjum verkin hans Steina, síðan hann lagaði hleðslurnar í kjallara gamla hússins og vitum að hann getur framkvæmt ótrúlegustu hluti.