Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Í kvennablöðum um 1980 var vinsælt að birta myndir fyrir og eftir að hresst var upp á útlit dömu sem farin var að láta á sjá. Meðfylgjandi myndir sýna einmitt eina svona aðgerð. Hurðin góða fyrir og í miðjum klíðum endurvinnslunnar. Nú er sem sagt búið að smíða upp hurðarflekann og næst er að mála gripinn áður en lengra verður haldið.
Svo vel vill til að Múlakotsbærinn á góðan vin sem er með málningu sem sína sérgrein og hann hjálpaði okkur um málningu á hurðina.
Búið var að segja frá skránni og lyklinum sem hvergi finnst. Við fórum með skrána í verslunina Brynju í Reykjavík og viti menn, þeir höfðu á boðstólum nákvæmlega eins skrá. Gripurinn er framleiddur í Svíþjóð, þar sem þessar skrár voru mikið framleiddar á árunum 1850 – 1900 og eru seldar enn í dag, já og nákvæmlega eins lamir eins og hér voru notaðar, hvers vegna á maður að vera að breyta út frá því sem hefur reynst vel?
Í gær fórum við aftur í Brynju til að ná í húnasett sem pantað hafði verið hjá framleiðanda skráarinnar , sérsmíðaðan fyrir útihurðir, sama gerð og verið hafði í hurðinni í upphafi, massífan hún úr messing.
Góð kveðja frá Múlakoti