Hurðin góða

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Sól er farin að hækka á lofti enda kominn Þorri. Í Múlakoti er farið að huga að sumarstörfum, ekki seinna vænna. Ætlunin er að endurgera norðurvegg elsta hússins og fara síðan að huga að því að innanverðu. Þar með er inngangurinn í bíslagið  eða milliganginn kominn á dagskrá og fyrsta verkefnið eftir að þakið er komið í lag er hurðin og glugginn við hliðina. Hurðin er að mörgu leyti andlit hússins og því skiptir miklu að vel sé til vandað og svo var í Múlakoti áður fyrr.

Þegar eigendaskiptin urðu fyrir tæpum 20 árum þurfti að rífa nokkuð af ónýtum húsum, m.a. þurrkhjallinn, sem var hálfhruninn. Þar inni kenndi margra grasa, áburðarpokar í kippum, alls kyns timbur, gamlir bekkir úr matsalnum og allsérstakur timburfleki. Þetta reyndist vera tvöfaldur hurðarfleki, annars vegar voru borðin látin mynda tígulmynstur en hins vegar voru breiðari, lóðrétt borð með þremur láréttum borðum. Hurðarflekinn sem slíkur var gjörónýtur, fótstykkið fúið og hornin horfin en samt tókum við hann til handargagns, enda minnti hann okkur á gömlu kirkjuhurðirnar frá því á 19. öld, sem voru í ýmsum hefðarkirkjum eins og Skálholti. Þegar við fundum litla ljósmynd af dreng og hundi á tröppunum við bíslagið sannfærðumst við um að þar hefði hurðin verið upphaflega. Hurðarflekinn beið svo síns vitjunartíma í forstofunni í nýjasta hluta hótelsins og þar lenti hann á mynd vorið 2010.

Nú er Sigmundur smiðurinn okkar búinn að endursmíða hurðarflekann og næsta skref er að huga að hurðarlásnum. Við bárum okkur upp við Hjörleif Stefánsson arkitekt, sem spurði hvort lásinn væri enn í hurðinni og viti menn, þarna var hann. Hann var settur í hendurnar á Hans í Kirkjulækjarkoti, sem er í stjórn vinafélagsins og helsti járnsmiður svæðisins. Hans setti lásinn í saltsýrubað til að þrífa burt ryðið, þurrkaði hann og smurði og viti menn, lásinn er hjólliðugur og virðist í fullkomnu lagi. Næsta mál á dagskrá er að leita til lásasmiða í höfuðborginni til að vita  hvort ekki finnist lykill sem gengur að, því hann hefur ekki komið í leitirnar hérna.

Hurðarkveðjur frá Múlakoti