Ræktunarsaga garðsins

Guðbjörg Þorleifsdóttir hafði hrifist af gróðri strax sem barn eins og hún lýsti sjálf í grein sinni í Búnaðarritinu árið 1921

Hún var 26 ára árið 1896 þegar hún fékk tæplega 10 fermetra skika úr grænmetisgarðinum, sem var sunnan við bæinn. Þar hóf hún blómarækt. Ári síðar tóku þau hjónin, Guðbjörg og Túbal Magnússon við ábúð í Múlakoti af Þorbjörgu, móður hennar. Aldur garðsins miðaði hún við árið 1897, þegar fyrstu trjáplönturnar voru gróðursettar. Þá um sumarið fæddist Ólafur, einkasonurinn og um haustið var byggt nýtt timburhús á grunni gamla torfbæjarins, sem var að falli kominn eftir stóra Suðurlandsskjálftann í ágústlok 1896. 1897 er því merkisár í sögu jarðarinnar.

Guðbjörg hlúði að gróðrinum af einstakri natni og brátt bættust við rifsplöntur og gulvíðir og auk þess ýmsar blómplöntur.

Einar E. Sæmundssen sem var skógarvörður á suðurlandi, kom fyrst í Múlakotsgarðinn sumarið 1908. Þá voru reyniplönturnar orðnar um 3 m á hæð og orðið þröngt í garðinum. Einar kom aftur haustið 1910, þá var búið að stækka garðinn og koma upp „Vöggustofu“ fyrir sjálfsánar trjáplöntur úr garðinum. „Barnagarðarnir“ vöktu llíka athygli hans. Hvert barn annaðist eigin garðreit með trjá- og blómplöntum. Gubjörg vildi gjarnan stækka garðinn enn og Einar benti þeim hjónum á styrktarsjóð Friðriks konungs áttunda. Hér má lesa umsagnir með styrkveitingum til Guðbjargar.

Einar Helgason garðyrkjumaður í Gróðrarstöðinni í Reykjavík varð fyrstur til að fjalla um ræktun Guðbjargar á prenti. Árið 1910 skrifaði hann í tímaritið Frey um ræktun Guðbjargar að hún skari fram úr öllum öðrum ræktendum á landinu, auk grænmetisgarðs hafi Guðbjörg lítinn en fallegan blómgarð með einstökum trjáplöntum, sem væru farnar að sá sér þannig að hún eigi um 200 plöntur upp af fræi.

Kofoed-Hansen skógræktarstjóri vildi að Guðbjörg tæki að sér rekstur gróðrarstöðvar í Múlakoti, en hún hafnaði því, bar við menntunarskorti og önnum.

Garðurinn stækkaði jafnt og þétt og þegar hann var girtur með steyptum vegg og milligerði úr smíðajárni líklega sumarið 1927 var hann 440 fermetrar. Um svipað leyti var byggt lítið lysthús í garðinum. Þar svaf Guðbjörg gjarnan og gaf oft einkagestum sínum kaffi. Eins var lysthúsið notað fyrir hótelgesti ef annað rými var fullnýtt.  Vitað er um am.k. tvenn hjón sem gefin voru saman í garðinum og alla vega annað brúðarparið dvaldi í lysthúsinu brúðkaupsnóttina. Hjónin Elín Maríusdóttir og Ólafur Björn Guðmundsson

Mikill hugur var í bændum á Suðurlandi að reisa heimarafstöðvar. Fyrsta rafstöðin í Rangárvallasýslu var reist í Múlakoti 1927, vélar voru frá Bræðrunum Ormson en annars var Bjarni í Hólmi í Landbroti helsti forvígismaður og smiður virkjana á Suðurlandi.

Garðurinn í Múlakoti varð brátt raflýstur, trúlega vegna þess að Ólafur Túbals kynntist raflýstum Tívolígarðinum í Kaupmannahöfn vorið 1929. Ljósin í garðinum höfðu mikið aðdráttarafl þar sem Fljótshlíðin var almennt ekki raflýst fyrr en áratugum síðar. Ummæli Ólafs Björns Guðmundssonar og Oddgeirs Guðjónssonar um raflýsinguna

Garðurinn í Múlakoti varð frægasti garður á Suðurlandi og orðstír Guðbjargar sem ræktunarkonu náði langt út fyrir landsteinana. Algengt var að forvígismenn þjóðarinnar, einkum í landbúnaði, sýndu garðinn erlendum gestum. Natni Guðbjargar við ræktunina var þvílík að hún var stundum beðin um að prófa nýjar plöntur til að sjá hvort einhver von væri til að þær myndu þrífast hérlendis. Guðbjörg var félagi í Garðyrkjufélagi Íslands og gerð að heiðursfélaga í tilefni af sjötugsafmæli sínu. Einnig gaf félagið henni gróðurhús, sem var reist í nýjasta hluta garðsins árið 1944.

Múlakot 1948

Garðurinn  í Múlakoti tók stöðugt breytingum, hann var stækkaður í mörgum áföngum og hann var orðinn tæpir 1000 fermetrar ekki síðar en 1944. Engar teikningar eru til af honum eða tímasetningar á hinum ýmsu stækkunum, en til er tillaga Ólafs Björns Guðmundssonar að að skipulagi hluta garðsins. Ekki er heldur til nein skrá yfir þær plöntur sem Guðbjörg prófaði í garði sínum en örlítið má ráða í ummæli í bókum eða af ljósmyndum.

Tvö stór áföll riðu yfir garðinn, Í Heklugosinu 1947 varð öskufall tugir cm. Þá skemmdust barrtrén, fura, greni og lerki mjög mikið, en blómgróður og lauftré var ekki farinn að taka við sér. 9. apríl 1963 varð hitafall í Múlakoti 24 gráður á einum sólarhring – aprílhetið mikla.  Aspir og sitkagreni urðu þá verst úti. Garðurinn komst líklega aldrei í fyrra horf, enda var Guðbjörg látin og Lára ein fullstarfandi kvenna á heimilinu.

Samband sunnlenskra kvenna  minntist þess  að 100 ár voru frá fæðingu Guðbjargar með því að reisa henni veglegan minnnisvarða í garðinum. Á stóran stuðlabergsdrang úr hlíðinni fyrir ofan Eyvindarmúla var felld lágmynd Einars Jónssonar myndhöggvara af Guðbjörgu, en Einar var heimilisvinur. Þá voru nær 200 gestir samankomnir í garðinum. Lágmynd af Guðbjörgu

Eftir þetta hallaði hægt og sígandi undan fæti með umhirðu garðsins og umsvif hótelsrekstursins minnkuðu.

Þegar garðurinn var 100 ára skrifaði Ólafur Björn í Garðyrkjuritið „Nú hefur þessi unaðsreitur húsfreyjunnar í Múlakoti orðið tímans tönn að bráð. Litlu hríslurnar, sem hún hlúði að og studdi til vaxtar og þroska, eru nú stórvaxin, ellimóð tré að falli komin. Mörg þeirra reyndar þegar fallin frá eins og hún. Vissulega hefði mátt sýna þessum reit meiri sóma eftir að höfundar hans naut ekki lengur við, halda honum við, vernda og geyma, til minningar um starf brautryðandans, og gleymum því ekki, að þarna var skráður merkur kapítuli i ræktunarsögu okkar“.