Gengnar slóðir

Gengnar slóðir

Tuttugasta öldin var öld kvenfélaganna. Fjölmörg kvenfélög voru stofnuð um land allt, það liggur við að fullyrða megi að stofnuð hafi verið kvenfélög í öllum hreppum landsins. Félögin hafa síðan myndað stærri starfseiningar, svo sem Samband sunnlenskra kvenna (SSK) og Kvenfélagasamband Íslands.

Samband sunnlenskra kvenna var stofnað árið 1928, stofnfélögin voru tæplega 10 en eru nú eru í sambandinu 25 félög . Þau eru á ýmsum aldri, elst er kvenfélag Eyrarbakka, stofnað árið 1888, en yngst er kvenfélag Þorlákshafnar, stofnað árið 1964. Kvenfélag Fljótshlíðar, sem síðar fékk heitið Kvenfélagið Hallgerður, var stofnað árið 1923 af 32 konum, en nú eru 20 konur í félaginu, enda hefur býlum í Fljótshlíð fækkað verulega á þeim tæpu 100 árum, sem liðin eru frá stofnun þess.

Guðbjörg Þorleifsdóttir var ein stofnenda Kvenfélags Fljótshlíðar og var gerð að heiðursfélaga þess. Húsmæður í Múlakoti hafa löngum verið í félaginu og án efa gekk Lára Eyjólfsdóttir í það þegar þau Ólafur Túbals giftu sig árið 1924.

Auðséð er við lestur gestabóka Múlakots að hin ýmsu kvenfélög hafa iðulega heimsótt Múlakot og skemmtilegt er að vita að síðasti hópurinn, sem skrifaði sig í gestabók hótelsins var kvenfélag úr Reykjavík.

SSK beitti sér fyrir að veglegur minnisvarði  um Guðbjörgu var reistur í Múlakotsgarðinum í tilefni af 100 ára afmæli hennar ; á veglegan blágrýtisdrang úr stuðlabergi hlíðarinnar fyrir ofan Eyvindarmúla var komið fyrir lágmynd Einars Jónssonar af Guðbjörgu, en Einar var heimilisvinur í Múlakoti.

Þegar SSK varð fimmtugt gaf félagið út veglega bók, Gengnar slóðir, með sögu félagsins og sögu einstakra félaga. Þar var Guðbjargar vel minnst sem  minnisverðrar konu.

Sumarið 2020 var 150 ára afmælis Guðbjargar minnst að viðstöddum 200 gestum. Þar flutti Elinborg Sigurðardóttir, formaður SSK stutt ávarp og færði staðnum rausnarlega peningagjöf.

Á myndinni eru: Sigríður Hjartar, Múlakoti, félagi í kvenfélögunum Hallgerði og Einingu, Guðrún Þórðardóttir forseti Kvenfélagasambands Íslands, Elinborg Sigurðardóttir formaður SSK, Guðbjörg Þorleifsdóttir heiðursfélagi í kvenfélaginu Hallgerði, Þórdís Kolbrún Reykfjörð ráðherra ferðamála og Sólveig Ólafsdóttir í varastjórn Kvenfélagasambandsins og formaður Kvenfélags Grindavíkur