Hópur frá Garðyrkjuskólanum vann í garðinum

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Veðurspáin fyrir daginn lofaði ekki góðu, rok og rigning og von á 50 manna gengi frá Garðyrkjuskólanum, við supum hveljur. Langþráð heimsókn skólans var samt í höfn , verkefnin yfrið nóg og Ljósakvöld eftir 5 daga. Á óskalista var hellulögn, endurgerð grasflata, nýmyndun blómabeða og gróðursetning í þau. Í stuttu máli, allt tókst þetta. Hellulögn nýja dvalarsvæðisins á gamla setusvæði garðsins var lykilatriði, sem tókst ótrúleg vel.

Steina-Steinn, Þorsteinn Jónsson, lagði lokahönd á undirbúning lagnar á hellum frá Steypustöðinni og stjórnaði nemendum, jafnt á blómaskreytingabraut sem grjóthleðslubraut, Ágústa  mundaði torfsögina af ótrúlegri leikni á þökurúllurnar frá Guðmundi hjá Torfi og nemendur hlupu um víðan völl eftir leiðbeiningum hennar, Björgvin og allir hinir leiðbeinendurnir höfðu auga á hverjum fingri og Jonni hjálaði þeim sem þurftu að komast í rólegu deildina, fór með þau á hlutlaust svæði og kynnti Trjásafnið fyrir uppgefnum. Staðarhaldarinn sjálfur, Gurrý í garðinum, stjórnaði gerð nýrra blómabeða og Ingólfur frá Engi gróðursetti af miklum móð undir stjórn fagurkera úr kvennaliðinu. Það var svangur og aðframkominn hópur sem settist inn í Múlakotsbæinn í hádegishlé og renndi niður grænmetissúpu, sem ein vina Múakots, Auðbjörg í Kirkjulækjarkoti, töfraði fram. Hópurinn var svo stór að matsalurinn hrökk ekki til, við þurftum að „dekka upp í  vestra“.Já, þessi stóri hópur kom ótrúlega miklu í verk á stuttum tíma. Hann á skilið gullmedalíu fyrir afrekin.

Bestu kveðjur frá Múlakoti