Ágæti vinur Gamla bæjarins í Múlakoti
Undanfarin 4 ár hefur Ljósakvöld verið haldið hátíðlegt í Múlakoti 1. laugardag í september til að minnast þess hve rík er í huga margra ljósadýrðin í Múlakotsgarðinum þegar hann var upplýstur í síðsumars-húminu.
Bændur í Múlakoti voru stórhuga og virkjuðu lækinn sem féll niður af hömrunum fyrir austan bæinn. Það var árið 1928 sem bræðurnir Ormson settu upp rafstöð sem dugði bæjunum til ljósa og eldunar væri sparlega á haldið. Þeir voru langt á undan sinni samtíð, „Ríkisrafmagnið“ kom áratugum síðar í Fljótshlíðina og því er ekki að undra að gestum og grönnum hafi þótt ævintýri líkast að sjá ljósadýrðina í Múlakotsgarðinum langt að.
Hvenær fyrst var kveikt á garðljósum er ekki vitað en Ólafur Túbals fór tvisvar til Danmerkur, í síðara skiptið 1934. Ekki er ósennilegt að hann hafi séð ljósadýrðina í Tivolí og það kveikt hjá honum hugmyndina um upplýstan Múlakotsgarð.
Þennan laugardag höfum við hér í Múlakoti síðastliðin 4 ár setið við og skrúfað mislitar perur í garðljósin og síðan klifrað upp í stiga til að hengja upp skrautljósin en í dag höfum við haft annað fyrir stafni, enda Ljósakvöldi aflýst vegna Corona-veirunnar.
Við höfum verið að skrúfa niður asparplöntur á trjáræktarsvæðinu okkar niðri á aur – eða aurum eins og margir segja. Þarna erum við með 64 hektara svæði fyrir asparrækt, sem nær fullplantað er í en við höfum orðið fyrir ýmsum afföllum með gróðursetninguna og þurfum því að leggja áherslu á íbætur, erfitt og seinlegt verk, enda ekki hægt að koma vélum við nema á stöku stað.
Þess vegna finnst okkur vel við hæfi að Vinir Múlakots fái andlegan glaðning þótt við getum ekki haldið Ljósakvöld hátíðlegt saman í ár.
Enn er brunnur afmælishátíðarinnar ekki þurrausinn. Síðasti ræðumaðurinn, og sá sem bræddi hjörtu allra afmælisgesta, var jafnframt elsti ræðumaðurinn, séra Sváfnir Sveinbjarnarson sem varð 92 ára þennan dag.
Kæri Vinur Múlakots, njóttu ávarps Sváfnis.
Góð kveðja frá Múlakoti