Minningar Guðjóns Friðrikssonar um sumarheimsóknir í Múlakot.

Sumri hallar, það sést á mörgu í náttúrunni, ekki síst á fuglunum. Gráthljóð berast frá klettaveggnum, það eru fýlsungarnir, sem gráta fjarveru foreldra sinna. Fullorðni fýllinn fer í sumarfrí um verslunarmannahelgina og svei mér ef hann fór ekki viku fyrr þetta sumarið. Mér finnst alveg tímabært að hann fari að vitja um ungviðið. Venjulega kemur einn og einn fullorðinn fugl og flýgur fyrir framan hreiðrin og fer svo burt. Það er eins og hann vilji  segja: sjáið bara, svona eigið þið að gera, þetta er enginn vandi. En ungaræflarnir eru kjarklausir og  hafa ekki soltið nógu lengi.

Við sjáum líka á ungum Sokkaparsins okkar að það er orðið áliðið sumars, ungarnir eru löngu orðnir fleygir og í raun sjálfbjarga með fæðu, enda orðnir jafnstórir foreldrunum. Þeir koma þó ennþá og sníkja sér eitthvað gott í gogginn, já, táningar eru löngum sjálfum sér líkir, en það er gaman að fylgjast  með fuglum himinsins, þessum vængjuðu sumargestum.Þessu rabbi mínu um vængjaða sumargesti fylgir skemmtileg frásögn af öðrum sumargestum, gestum sem  líka hafa flogið sinn veg. Guðjón Friðriksson var tvisvar sumargestur með foreldrum sínum í ágúst  fyrir meira en hálfri öld síðan og skrifaði meira að segja sjálfur í gestabók staðarins.

Njótið lestrarins

Góð kveðja frá Múlakoti