Ljósakvöldi 2021 aflýst

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti

Sumir segja að föstudagurinn þrettándi hljóti að vera óheilladagur og það er alveg öruggt að fréttin sem þessi póstur flytur er engin gleðifrétt í mínum huga.

Á sínum tíma var ákveðið að halda hátíð fyrsta laugardagskvöld í september. Tímasetningin var valin þar sem fyrsta helgi í ágúst er jú verslunarmannahelgin, aðra helgina er fólk enn að ná sér niður á jörðina, þriðja helgin er helguð Töðugjöldum á Hellu og sú fjórða er  frátekin fyrir Kjötsúpukvöld á Hvolsvelli.

En hvers vegna ætli þetta heiti Ljósakvöld?

Jú, Múlakot var á sínum tíma frægt um land allt fyrir ljósin í garðinum, sem tendruð voru í ágústhúminu.

Múlakotsbæirnir virkjuðu heimalækinn árið 1927 en tveir áratugir liðu áður en Fljótshlíðin  fékk almennt rafmagn.

Ólafur Túbals dvaldi um tíma í Kaupmannahöfn árið 1929, talið er að hann hafi kynnst ljósadýrðinni í Tivoli og flutt hugmyndina með sér heim.

Lýsingin í garðinum vakti mikla aðdáun og sagt var að hún hefði haft góð áhrif á ástarlífið í sveitinni, þar sem ungir  menn, sem vildu hrífa sína útvöldu yngismey, buðu gjarnan í reiðtúr þar sem hápunktur ferðarinnar var að drekka súkkulaði úti í garði sem var  upplýstur af mislitum rafurljósum.

Þessa stemmingu höfum við reynt að endurvekja í þríígang og gengið mjög vel, þótt við hefðum þurft að aflýsa s.l. haust og nú var ætlunin að bretta upp ermar og halda sannkallaða gleðistund.

En því miður, sýkingin sem herjar í þjóðfélaginu ógnar öllum og Rangæingar hafa ákveðið að aflýsa öllum fjöldasamkomum, þar er Ljósakvöld ekki undanskilið.

En við gefumst ekki upp þótt móti blási og erum þegar farin að hugsa til fyrsta laugardagskvölds í september að ári liðnu.

Góð kveðja frá Múlakoti