9. apríl 1963

9. apríl skipar sérstakan sess í huga margra garð-og gróðurunnenda af minni kynslóð. Eins og hefur verið í fréttum í dag urðu þennan dag árið 1963 mjög skyndilegar sveiflur í veðrinu. Ofsaveður skall á eins og hendi væri veifað með þeim hörmulegu afleiðingum að 16 sjómenn fórust.

Gróðurfarslegu afleiðingar þessarar skyndilegu veðurbreytingar urðu líka miklar, einkum á Suðurlandi. Vikurnar á undan höfðu verið algjörlega ótrúlega hlýjar, trjágróður hafði vaknað úr vetrardvala og allt var á fleygiferð. Þennan dag féll hitinn um 15 gráður a.m.k. alveg niður í hörkufrost á 8 klst. Það var eins og við manninn mælt, aspir og sitkagreni þurrkuðust  út eins og hendi væri veifað. Garðurinn í Múlakoti slapp ekki við þessar hamfarir frekar en önnur ræktunarsvæði  á Suðurlandi, aspirnar og grenið voru liðin lík.

Ég held að mér höndunum fram yfir 9. apríl, vorhreinsunin bíður enn, en nú fer ég að taka við mér. Ekkert svona áfall verður þetta vor, garðurinn er ekki vaknaður, eins og myndirnar bera með sér, rétt að fyrstu vorblómin eins og hjartafífillinn séu farin að bæra á sér.

Við eigum líka góðan garðvörð, hann herra Sokka Tjaldsson, og konuna hans. Þau hafa sinnt vaktavinnu í garðinum tvö undanfarin sumur og við vonum að þau séu búin að skrifa undir æviráðningu. Sokki er auðþekktur, hann er með hvíta „sportsokka“, merkihringi á báðum leggjum,  en hvort hann er við eina fjölina felldur í kvennamálum vitum við ekki.

Góð kveðja frá Múlakoti