Vor í lofti

Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Ég gat ekki stillt mig. Undanfarna daga hef ég verið úti í garði þegar færi hefur gefist. Ég verð þó að játa að ég kýs helst að hiti sé vel yfir 5° og hvorki rigni eldi né brennisteini. Plönturnar í Guðbjargargarði eru flestar farnar að bæra á sér og þá er eins gott að hafa hraðar hendur við að hreinsa burtu hismið. Ég gæti auðveldlega þegið nokkrar aðstoðarhendur.

Sama gildir um plönturnar í mínum garði. Þar er töluvert af plöntum komið í blóma þar sem ég er mjög veik fyrir vorblómstrandi plöntum. Í dag gat ég ekki stillt mig um að taka myndir af tveimur rósum sem ég hafði hreinsað frá fyrir örfáum dögum. Þetta voru jólarós og páskarós en skógarlyngrósin mín er ekki enn farin að opna blómin þótt sjái í rósrauðan lit.

Auðvitað er ég ekki að tala um eiginlegar rósir – en við stráum um okkur nöfnum eins og sóley, rós og fífill án þess að huga neitt að ættfræðinni, eins og ættfræði er Íslendingum ofarlega í huga. Jólarós og páskarós eru systur, tilheyra Helleborus-fjölskyldunni. Nöfnin vísa í blómgunartímann og ég hef fengið jólarós í fullum blóma á aðfangadag upp í gegnum snjóinn. Þetta er þó í fyrsta skiptið sem ég hef jólarós og páskarós í fullum blóma á páskum. Segir eitthvað um tíðarfarið.
Þessar „rósir“ fara þó ekki út í garð Guðbjargar þar sem ég vil ekki setja þangað plöntur sem ég er ekki viss um að hafi verið komnar í ræktun áður en Guðbjörg andaðist. Bóndarós, sem ekki er þó heldur eiginleg rós, var samt gróðursett þar s.l. haust, hún var komin í ræktun fyrir 1914. Veit einhver hvenær Helleborus var komin í ræktun hér?
Góð kveðja frá Múlakoti