Ágæti vinur gamla bæjarins í Múlakoti
Með þessum pósti sendum við okkar bestu nýjárskveðjur og þökkum fyrir samskiptin á liðnu ári og allar heimsóknirnar. Það er fallegt veður í Fljótshlíðinni í dag eins og svo oft áður. Sólin glampar á glugga og þil bæjarhúsanna og brekkurnar eru skreyttar ísfossum, sá sem myndin er af nær líklega 7 m hæð, myndarleg grýlukerti það. Svo hafa verið gestir í Múlakotsgarðinum í dag og auðvitað ýmsir sem hafa ekið upp að Gluggafossi, en það gerir fólk jafnvel í niðamyrkri.
Framundan er Þorrinn, bóndadagur er fyrsti dagur 14. viku vetrar, föstudagurinn 25. janúar, og því fara Þorrablótin að hefjast. Í Rangárþingi eystra verða ef að líkum lætur haldin 6 Þorrablót auk einkablóta. Í fyrra kom í heimsókn í Múlakotsbæinn 12 manna hópur sem hélt sitt einkablót í Fljótshlíðinni,er þetta ekki eitthvað til eftirbreytni? Eins erum við farin að fá fyrirspurnir varðandi heimsóknir sumarsins, afmælisárgangar, kvenfélög, gönguhópar og spilaklúbbar eru farnir að spá í spilin.
Góð kveðja frá Múlakoti