Ljós í myrkri

Það er alltaf blíðviðri í Múlakoti, en þó koma þeir dagar sem manni finnst lognið fara heldur hratt yfir og morguninn núna var einn af þeim morgnum.

Í stað þess að draga sængina yfir höfuð var kveikt upp í arninum og pósturinn lesinn yfir rjúkandi kaffibolla. Og svei mér ef við heyrðum ekki fuglasöng og fundum gróðurangan þegar við opnuðum eitt bréfið. Það var frá Héraðsnefnd Rangæinga, þar sem umsókn sjálfseignarstofnunarinnar um styrk til framkvæmda var samþykkt, kr. 2.000.000.- Eins og nærri má geta kemur svona góður styrkur sér vel næsta sumar þegar byrjað verður á endurbótum innanhúss í elsta húsinu. Það er mikilvægt að finna að endurreisn gamla bæjarins í Múlakoti á sér góða stuðningsaðila í héraði.

Góð kveðja frá Múlakoti